Mikil breyting: Spá lítilsháttar samdrætti í ár

Vextir á Íslandi | 15. október 2024

Mikil breyting: Spá lítilsháttar samdrætti í ár

Greiningardeild Landsbankans spáir því að hagkerfið standi nánast í stað á milli ára í ár og að landsframleiðsla dragist saman um 0,1%.

Mikil breyting: Spá lítilsháttar samdrætti í ár

Vextir á Íslandi | 15. október 2024

Höfuðstöðvar Landsbankans.
Höfuðstöðvar Landsbankans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Greiningardeild Landsbankans spáir því að hagkerfið standi nánast í stað á milli ára í ár og að landsframleiðsla dragist saman um 0,1%.

Greiningardeild Landsbankans spáir því að hagkerfið standi nánast í stað á milli ára í ár og að landsframleiðsla dragist saman um 0,1%.

Síðustu ár hefur hagvöxtur verið á bilinu 5 til 9 prósent árlega og yrði þetta því mikil breyting. Þessum mikla hagvexti hefur fylgt mikil og þrálát verðbólga.

Hagspá greiningardeildarinnar gerir ráð fyrir öðrum og rólegri takti.

„Slaki hefur færst yfir hagkerfið sem nær andanum, verðbólga hjaðnar duglega, vextir lækka og hagkerfið fer aftur hægt og rólega af stað með um 2% hagvexti árlega næstu árin,“ segir í hagspánni, sem nær til ársins 2027.

Hagspáin verður kynnt á fundi í Hörpu sem stendur yfir frá kl. 8.30 til 10 í dag.

Nokkuð björt spá

„Spáin er almennt nokkuð björt þrátt fyrir horfur á lítils háttar samdrætti á þessu ári. Hagkerfið er að fara í gegnum tímabæra og nauðsynlega kólnun sem getur engu að síður reynst mörgum sársaukafull. Raunvextir eru háir og gætu enn hækkað. Það þýðir að aðhaldið gæti aukist sem þrengir að heimilum og fyrirtækjum í landinu,“ segir Una Jónsdóttir, aðalhagfræðingur Landsbankans, í tilkynningu.

Una Jónsdóttir.
Una Jónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Lækkunarferlið er aftur á móti hafið og við viljum meina að sigur í baráttunni við verðbólgu sé í augsýn. Það gæti þó tekið tíma að ná verðbólgu niður í verðbólgumarkmið og við sjáum það ekki endilega gerast á spátímanum, þó svo að verðbólgan muni lækka myndarlega,“ bætir hún við.

Spáin er háð ýmiss konar óvissu. Ófriður víða í heiminum gæti haft áhrif á efnahag ýmissa viðskiptalanda Íslands og þar með á íslenskan efnahag. Þá gætu eldsumbrot á Reykjanesskaga ógnað innviðum á svæðinu.

mbl.is