„Ég varð hreint út sagt orðlaus af feg­urðinni“

Á ferðalagi | 19. október 2024

„Ég varð hreint út sagt orðlaus af feg­urðinni“

Andrea Sigurðardóttir er mikil ævintýrakona sem hefur alla tíð haft áhuga á ferðalögum. Hún hefur ferðast vítt og breitt, heimsótt stórfenglegar og framandi slóðir og upplifað ótrúlegustu hluti á ferðalögum sínum.

„Ég varð hreint út sagt orðlaus af feg­urðinni“

Á ferðalagi | 19. október 2024

Andrea hefur heimsótt ótrúlega staði.
Andrea hefur heimsótt ótrúlega staði. Samsett mynd

Andrea Sigurðardóttir er mikil ævintýrakona sem hefur alla tíð haft áhuga á ferðalögum. Hún hefur ferðast vítt og breitt, heimsótt stórfenglegar og framandi slóðir og upplifað ótrúlegustu hluti á ferðalögum sínum.

Andrea Sigurðardóttir er mikil ævintýrakona sem hefur alla tíð haft áhuga á ferðalögum. Hún hefur ferðast vítt og breitt, heimsótt stórfenglegar og framandi slóðir og upplifað ótrúlegustu hluti á ferðalögum sínum.

Andrea tók nýverið við stöðu markaðsfulltrúa hjá Bestseller á Íslandi, en samhliða starfi sínu þjálfar hún vinsæla barre-tíma í World Class og hjálpar til við markaðsmál hjá skartgripafyrirtækinu Sign.

Hefur þú alltaf haft áhuga á ferðalögum?

„Ferðaáhuginn kviknaði snemma. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á að ferðast, bæði innanlands og erlendis. Ég flutti út til Bretlands þegar ég var níu ára gömul og ólst þar upp til 18 ára aldurs, en ferðaðist mjög reglulega heim til Íslands og til annarra landa.“

Hvað varstu gömul þegar þú ferðaðist fyrst erlendis og hvert fórstu?

„Ég var tveggja ára gömul og ferðaðist til Þýskalands með móður minni. Hún stundaði nám í óperusöng þar í landi.“

Þetta er alvöru útsýni.
Þetta er alvöru útsýni. Ljósmynd/Úr einkasafni

Til hvaða landa hefur þú ferðast?

„Þau er þó nokkur, en meðal þeirra landa sem ég hef heimsótt eru Ástralía, Páskaeyja, Nepal, Kambódía, Bretland, Spánn, Frakkland, Indónesía, Indland, Japan, Egyptaland, Jórdanía, Óman, Brasilía, Víetnam, Marokkó, Mongólía og Úsbekistan.“

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið þitt?

„Eftirminnilegasta ferðalagið mitt er án efa þegar ég fór til Páskaeyju, eða Rapa Nui, í Suður-Kyrrahafi. Þar búa um 5.800 manns og er eyjan fræg fyrir fjögurra alda gamlar styttur sem kallast Moais. Miklar vangaveltur hafa verið uppi um þýðingu þeirra en margt bendir til þess að stytturnar séu virðingarvottur Rapa Nui-fólksins til forfeðra sinna og guða.

Það var líka einstök upplifun að heimsækja hellaborgina Petru í suðurhluta Jórdaníu, sjá píramídana í Egyptalandi og ganga um Amazon, stærsta regnskóg í heimi, og sigla niður ána og finna hitamuninn þegar Amazon-áin og Rion Negro mætast.

Aldrei datt mér í hug að ég myndi ferðast á alla þessa staði, en aldrei segja aldrei.“

Andrea er ævintýragjörn.
Andrea er ævintýragjörn. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hver er eftirminnilegasta ferðaminningin?

„Eftirminnilegasta ferðaminningin fyrir utan þegar ég smakkaði krókódíl í Afríku verður að vera þegar ég fór í fyrstu safarí-ferðina mína í Afríku. Ég varð svo spennt þegar ég rak augun í uppáhalds dýrið mitt, sem er gíraffi, að ég sagði: „Sjáiði, þarna er ljón, nei ég meina gíraffi.“ Þá sló þögn á hópinn í andartak en svo heyrði ég sagt: „Andrea mín, það er sko stór munur á gíraffa og ljóni.“

Andrea elskar gíraffa.
Andrea elskar gíraffa. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvað leggur þú áherslu á á ferðalögum?

„Ég legg mikla áherslu á að sjá og upplifa sem mest, vera á meðal innfæddra, fræðast um borgir og bæi og fá innsýn inn í líf fólks og líferni.

Mér finnst líka gaman að taka góða æfingu og prófa nýja tíma í líkamsræktarstöðvum erlendis, líkt og ég gerði þegar ég heimsótti stjúpsystur mína sem er búsett í Los Angeles. Þar smitaðist ég af barre og skráði mig í kjölfarið á þjálfaranámskeið og nældi mér í kennsluréttindi. Svo er alltaf ánægjulegt að kynna bragðlaukana fyrir matarréttum og bjórum frá hinum ýmsu heimshornum. Japanski bjórinn er í miklu uppáhaldi.“

Andrea ásamt Söndru Björgu Helgadóttur við Hollywood-skiltið.
Andrea ásamt Söndru Björgu Helgadóttur við Hollywood-skiltið. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hver er uppáhaldsborgin þín í Evrópu?

„Lundúnir munu alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu. Ég á mikið af góðum minningum þaðan.“

En fyrir utan Evrópu?

„Það mun vera Naíróbí, höfuðborg Keníu. Þar er að finna eina þjóðgarðinn í heiminum sem er með safaríi í.“

Hefur þú heimsótt eitthvað af sjö undrum veraldar?

„Já! Ég heimsótti Píramídann mikla í Gísa og varð hreint út sagt orðlaus af fegurðinni. Að mínu mati er það eitthvað sem allir verða að sjá og upplifa.“

Andrea elskaði tíma sinn í Egyptalandi.
Andrea elskaði tíma sinn í Egyptalandi. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvað uppgötvaðir þú síðast um sjálfa þig?

„Það er mikilvægt að elta innsæið, draumana og markmiðin á minn hátt og með mínum gildum.“

Hvernig núllstillir þú þig?

„Ég elska að fara í sund, helst í köldu rigningarveðri og synda, enda svo í heita pottinum og gufu. Taka góða barre-æfingu sem inniheldur einnig slökun og öndun. Annars er góð tónlist, síminn á „airplane mode“ og setja mér markmið og yfirfara gömul markmið, það núllstillir.“

Andrea er mikill dýravinur. Henni finnst fátt skemmtilegra en að …
Andrea er mikill dýravinur. Henni finnst fátt skemmtilegra en að komast í safarí-ferð og fylgjast með dýrum í sínu náttúrulega umhverfi. Ljósmynd/Úr einkasafni

Hvað reynir þú að forðast í lífinu?

„Ég reyni að forðast neikvæðni og eftirsjá. Það er alltaf erfitt að komast hjá því í lífinu en við stjórnum huganum, ég tem mér það að horfa á lausnir frekar en vandamál.

Amma mín kenndi mér að horfa í spegil og segja: „Ég get allt sem ég ætla mér.“ Sú lexía hefur komið mér ansi langt. Eftirsjá er eitthvað sem ætti ekki að vera til því að allt sem við framkvæmum í lífinu gefur okkur styrk og býr til manneskjuna sem við erum í dag.“

mbl.is