„Kom í ljós að við hefðum tekið að okkur stærra verkefni heldur en planið var“

Heimili | 19. október 2024

„Kom í ljós að við hefðum tekið að okkur stærra verkefni heldur en planið var“

Ásdís Rósa Hafliðadóttir, eigandi Heimaró.is, og eiginmaður hennar Hjörtur Hjartarson festu kaup á sumarbústaði í Grímsnesinu vorið 2022. Þrátt fyrir að húsið sjálft hafi ekki verið í góðu standi sáu þau mikla möguleika í eigninni, en á síðustu tveimur árum hafa þau tekið hann í gegn frá a til ö. 

„Kom í ljós að við hefðum tekið að okkur stærra verkefni heldur en planið var“

Heimili | 19. október 2024

Ásdís segir Hjört hafa þurft að verða sérfræðingur í húsasmíði …
Ásdís segir Hjört hafa þurft að verða sérfræðingur í húsasmíði ansi hratt.

Ásdís Rósa Hafliðadóttir, eigandi Heimaró.is, og eiginmaður hennar Hjörtur Hjartarson festu kaup á sumarbústaði í Grímsnesinu vorið 2022. Þrátt fyrir að húsið sjálft hafi ekki verið í góðu standi sáu þau mikla möguleika í eigninni, en á síðustu tveimur árum hafa þau tekið hann í gegn frá a til ö. 

Ásdís Rósa Hafliðadóttir, eigandi Heimaró.is, og eiginmaður hennar Hjörtur Hjartarson festu kaup á sumarbústaði í Grímsnesinu vorið 2022. Þrátt fyrir að húsið sjálft hafi ekki verið í góðu standi sáu þau mikla möguleika í eigninni, en á síðustu tveimur árum hafa þau tekið hann í gegn frá a til ö. 

Útkoman er sérlega glæsileg hjá hjónunum sem eru miklir fagurkerar, en þau virðast hafa einstakt lag á því að skapa þessa notalegu sumarbústaðastemningu sem flesta dreymir um. 

Ásdís Rósa Hafliðadóttir og Hjörtur Hjartarson ásamt börnunum sínum
Ásdís Rósa Hafliðadóttir og Hjörtur Hjartarson ásamt börnunum sínum

Aðspurð hvort það hafi verið langþráður draumur hjá hjónunum að eignast sumarbústað svarar Ásdís neitandi. „Þetta var annar bústaðurinn sem við skoðuðum en okkur langaði í skemmtilegt verkefni til að gera upp eftir að hafa lokið við verkefnin á heimili okkar í bænum,“ útskýrir hún.

„Húsið var ekki í góðu standi svo það sem seldi okkur hann var lóðin sem er virkilega skemmtileg og gróin, og staðsetningin þar sem sumarhúsið er í klukkustundar akstursfjarlægð frá bænum,“ bætir hún við. 

Bústaðurinn stendur á fallegum stað í Grímsnesinu og var upphaflega reistur árið 1992, en síðan þá hefur verið byggt við húsið og það stækkað.

„Húsið samanstendur af bústaðnum sjálfum, gestahúsi og vinnuskúr. Það er eitt svefnherbergi og svefnloft í stærra húsinu og síðan virkar gestahúsið sem auka herbergi. Lóðin er hálfur hektari og dásamlega skipulögð af fyrri eigendum,“ segir hún. 

Hjónin hafa skapað afar notalega og hlýlega stemningu í bústaðinum.
Hjónin hafa skapað afar notalega og hlýlega stemningu í bústaðinum.

Í hvaða framkvæmdir fóruð þið?

„Það kom fljótlega í ljós að við hefðum tekið að okkur stærra verkefni heldur en planið var upphaflega. Við ætluðum að laga það sem var að en enduðum á að skipta út öllum burði, gluggum, og gerðum húsið í raun fokhelt og svo aðeins meira en það. Í leiðinni opnuðum við alrýmið sem áður var skipt í tvo hluta, lækkuðum gólfið í helmingi hússins til þess að jafna það og fá aukna lofthæð og stækkuðum eldhúsið til að koma fyrir eldhúseyju. Við breyttum einnig baðherberginu til þess að koma fyrir sturtu og settum gólfhita í allt húsið.

Við þessar breytingar gafst tækifæri til þess að búa til svefnloft yfir baðherberginu og þar sem að við þurftum að skipta út þakinu í svefnherberginu gátum við haft það hærra og smíðað þar inn góðar kojur. Í baksýnisspeglinum hefði það eflaust verið auðveldara að rífa húsið og byrja alveg frá grunni en við erum búin að læra ansi margt á þessum rúmlega tveimur árum sem smíðin tók.“

Hjónin fóru í allsherjar framkvæmdir á húsinu sem tóku alls …
Hjónin fóru í allsherjar framkvæmdir á húsinu sem tóku alls tvö ár.

Hvert smáatriði í bústaðinum vel útpælt

Framkvæmdirnar heppnuðust afar vel hjá Ásdísi og Hirti, en í dag er bústaðurinn nær óþekkjanlegur og hefur verið innréttaður á sérlega sjarmerandi máta.

„Við stækkuðum pallinn í kringum húsið, settum heitan pott og byggðum skemmtilegt útieldhús í sumar. Við klæddum húsið með brenndri viðarklæðningu sem er aðferð sem kallast shou sugi ban og kemur frá Japan. Við þessa meðferð á viðnum að þá verður hann viðhaldsfrír í langan tíma og á að halda vel gegn íslensku veðráttunni. Klæðninguna fluttum við inn frá Litháen og erum virkilega ánægð með áferðina á húsinu að utan,“ segir hún. 

„Við byrjuðum á að klára gestahúsið og þar var þá hægt að gista fyrsta árið á meðan verið var að vinna í bústaðnum. Þrátt fyrir að gestahúsið sé lítið vildi ég vinna með dekkri litapallettu til að gera það eins hlýlegt og mögulegt væri. Við settum panel á veggina, notalega vegglýsingu og skiptum rýminu upp í tvennt með kommóðu,“ bætir hún við. 

Útkoman er glæsileg bæði að innan og utan.
Útkoman er glæsileg bæði að innan og utan.

Ásdís segir verkefnið hafa tekið margfalt lengri tíma en þau reiknuðu með og því hafi hún verið búin að kaupa einhver húsgögn fyrir bústaðinn. „Við gátum tekið ákvarðanir um skipulag hússins út frá þeim. Til dæmis keypti ég borðstofuborð í Balika og við létum það ráða stærðinni á borðstofunni og sérsmíðuðum eldhúsbekk í kringum það,“ segir hún. 

„Mér fannst vera áskorun að vera ekki með anddyri en þar sem húsið er lítið vildum við ekki eyða fermetrum í að búa til sérstakt rými fyrir það. Í stað þess byggðum við vegg sem aðgreinir anddyrið að hluta frá stofu og þar inni settum við forstofuskáp svo yfirhafnir og skór séu ekki stöðugt sjáanlegir,“ útskýrir hún. 

Fallegir húsmunir prýða bústaðinn.
Fallegir húsmunir prýða bústaðinn.

Spurð út í lita- og efnisval segist Ásdís hafa viljað vinna með svipaða litapallettu í stærra húsinu og í gestahúsinu.  „Alrýmið er allt málað í hlýjum lit frá Sérefni sem heitir Silkisúkkulaði. Á móti notaði ég dökkgrænan lit og reyndi að nýta panelinn sem við fjarlægðum af öllum veggjum hér og þar í húsinu, til dæmis á veggnum fyrir aftan eldhúsið og í eldhúsbekkinn. Við fjarlægðum síðan allt lakk og hvíta málningu af gluggum og notuðum brúnt vax beint á viðinn til að fá fram drekkri lit á alla gluggana en þó þannig að línurnar í viðnum séu sjáanlegar,“ útskýrir hún. 

„Við völdum eikar plankaparket á gólfin og svipaðan tón í eldhúsinnréttinguna. Í svefnherberginu settum við veggfóður á einn vegg og Hjörtur smíðaði koju fyrir strákana okkar. Á baðherberginu flísalögðum við ásamt því að setja micro-sement á veggina.

Þrátt fyrir að húsið sé ekki stórt vildum við geta tekið á móti mörgum í mat svo við ákváðum að gera stóran U laga bekk við borðstofuborðið sem GÁ húsgögn bólstruðu fyrir okkur af mikilli snilld. Húsgögnin okkar eru héðan og þaðan, ég reyndi að kaupa eins mikið og hægt var notað sem mér finnst gefa bústaðnum skemmtilegan karakter. Við keyptum einnig fallega hluti í Magnolia og Balika,“ bætir hún við. 

Ásdís valdi húsgögn sem gefa bústaðinum skemmtilegan karakter.
Ásdís valdi húsgögn sem gefa bústaðinum skemmtilegan karakter.

Sótti innblástur í náttúruna sem umlykur húsið

Hvernig andrúmsloft vilduð þið skapa í bústaðinum?

„Fyrst og fremst vildum við gera bústaðinn hlýlegan og umvefjandi stað sem öllum í fjölskyldunni myndi líða vel á.“

Hvert sóttir þú innblástur þegar bústaðurinn var innréttaður?

„Það er ekki annað hægt en að fá innblástur af umhverfinu og litunum í náttúrunni í kringum húsið. Þar fyrir utan finnst mér gaman að fara á kaffihús og fletta heimilis og hönnunarblöðum. Þegar ég er síðan komin með hugmynd finnst mér oft mjög hjálplegt að skoða pinterest fyrir mismunandi útfærslur.“

Hvað er mikilvægast að þínu mati til að skapa þessa ljúfu sumarbústaðastemningu?

„Það eru litlu hlutirnir sem skapa hlýleika eins og góðar mottur, púðar og einfaldir skrautmunir. Lita- og efnisval er í svipuðum tónum sem eru allir frekar náttúrulegir. Mér finnst líka alveg mega taka smá áhættu og mála í dekkri litum en maður myndi endilega gera heima hjá sér.“

Ásdís segir litlu hlutina skipta sköpum þegar kemur að því …
Ásdís segir litlu hlutina skipta sköpum þegar kemur að því að innrétta sumarbústað.

Áttu uppáhaldshúsgagn í bústaðinum?

„Já, legubekkurinn í stofunni er í uppáhaldi hjá heimilisfólki og öllum sem koma í heimsókn!“

Legubekkurinn er í sérstöku uppáhaldi.
Legubekkurinn er í sérstöku uppáhaldi.

Er eitthvað sem þið mynduð gera öðruvísi í dag ef þið væruð að byrja í framkvæmdum á sumarbústaði?

„Við myndum eflaust safna okkur aðeins lengur fyrir svona stórum framkvæmdum og geta þá notið meiri aðstoðar frá iðnaðarmönnum.“

Hvað er fram undan hjá ykkur?

„Við fjölskyldan vorum að flytja til Barcelona þar sem ég var að hefja nám í innanhúshönnun við ELISAVA svo því miður munum við ekki geta notið fallega bústaðarins eins mikið og við hefðum viljað loksins þegar hann er tilbúinn!“

Nú þegar framkvæmdirnar eru loksins búnar er fjölskyldan á leið …
Nú þegar framkvæmdirnar eru loksins búnar er fjölskyldan á leið til Barcelona og spennandi tímar framundan.
mbl.is