Hefur haft áhuga á fötum frá því hún man eftir sér!

Fatastíllinn | 27. október 2024

Hefur haft áhuga á fötum frá því hún man eftir sér!

Nadía Áróra Jonkers, oftast kölluð Lóla, hefur vakið eftirtekt fyrir sérlega flottan fatastíl. Hún ákvað að taka sér frí frá námi og vinnur núna í Húrra Reykjavík.

Hefur haft áhuga á fötum frá því hún man eftir sér!

Fatastíllinn | 27. október 2024

Nadía er með skrautlegan fatastíl.
Nadía er með skrautlegan fatastíl.

Nadía Áróra Jonkers, oftast kölluð Lóla, hefur vakið eftirtekt fyrir sérlega flottan fatastíl. Hún ákvað að taka sér frí frá námi og vinnur núna í Húrra Reykjavík.

Nadía Áróra Jonkers, oftast kölluð Lóla, hefur vakið eftirtekt fyrir sérlega flottan fatastíl. Hún ákvað að taka sér frí frá námi og vinnur núna í Húrra Reykjavík.

Ekki stendur á svörum þegar Nadía er spurð um áhugamál sín.

„Ég á þó nokkur áhugamál, hef til að mynda gríðarlegan áhuga á kvikmyndagerð og öllu sem henni tengist. Sá áhugi blómstraði í Verzló þar sem ég dundaði mér stundum við að gera stuttar stiklur fyrir nefndir. Eins og staðan er núna stefni ég á að sækja um í skóla og fara í kvikmyndagerð. Ég hef líka mikinn áhuga á tísku og hef haft síðan ég var lítil. Ég ólst upp á mjög listrænu heimili og þar sem mamma mín er fatahönnuður þá hafa tíska og föt alltaf verið í kringum mig. Fatahönnun hefur verið áhugamál hjá mér síðan ég var lítil og mér finnst stundum gaman að setjast við saumavél og leika mér við að sauma eitthvað. En þegar kemur að íþróttum þá stunda ég snjóbretti á veturna.“

Sat klukkutímum saman og saumaði

Nadía er með flottan fatastíl sem sést vel á instagramsíðunni hennar, hvenær byrjaði áhuginn á tísku?

„Eins og ég segi þá er eins og hann hafi bara alltaf verið þarna, alveg síðan ég var lítil. Mamma átti fatabúð sem hét Gloria og hún tók mig oft með sér í vinnuna um helgar þegar ég var lítil, ég gat gengið á bak við þar sem hún var með saumastofu. Þar sat ég klukkutímum saman að leika mér við að handsauma eða dunda mér við eitthvað slíkt. Ég vildi alltaf vera í einhverju svolítið öðruvísi og skera mig úr, þannig að mamma saumaði af og til öðruvísi flíkur á mig. Hún saumaði alltaf á mig hrekkjavökubúninga, því ég vildi sko alls ekki vera óvart í eins búningi og einhver annar.

Löngun mín til að skera mig úr er enn til staðar; ég vil frekar vera í einhverju svolítið öðruvísi og skrítnu en einhverju „boring“. Þegar ég varð aðeins eldri var ég mikið á hjólabretti og fór í gegnum harkalegt „tomboy“-tímabil, ég klippti á mig drengjakoll og vildi vera alveg eins og allir brettastrákarnir. Þessi tíska hafði mikil áhrif á mig og ég klæddist alltof víðum buxum og Vans-strigaskóm í mörg ár. Sem betur fer minnkaði það aðeins en hvarf þó ekki alveg, það eimir enn aðeins eftir af „tomboy“ í mér.“ Hún segir stílinn sinn hafa breyst mikið og bætir við að sér finnist gaman að breyta til.

Nadía elskar verslanir sem selja notuð föt.
Nadía elskar verslanir sem selja notuð föt.

Tískan gerir heiminn skemmtilegri

En finnst henni tíska og útlit skipta miklu máli?

„Já og nei. Mér finnst hún skipta máli því ef fólk myndi alveg hætta að pæla í tískunni eða útlitinu held ég að heimurinn yrði bara sjúklega leiðinlegur. Þá væru bara allir eins. Tískan og útlitið skiptir máli upp á að hafa fjölbreytileika, hún gefur fólki tækifæri til að prufa eitthvað nýtt og tjá sig án þess að þurfa að segja eitt einasta orð. En mér finnst tískan verða óáhugaverð ef hún fylgir einhverjum reglum sem allir verða að fara eftir og ef þú gerir það ekki þá ertu skrítinn. Vertu bara í því sem þig langar að vera í. Það er algjör óþarfi að vera að stressa sig á að eltast við einhver lítil tískutrend sem hverfa eftir nokkrar vikur. Ég þarf líka stundum að minna mig sjálfa á það.“

Nadía segist fylgjast ágætlega með því sem er að gerast í tískuheiminum um víða veröld.

„Mér finnst mjög gaman að eltast við uppáhaldsmerkin mín og skoða tískulínurnar frá þeim vel þegar tískusýningarnar eru. En svo finnst mér líka mjög gaman að kynna mér eldri tískubylgjur og sjá hvernig fólk klæddi sig á öðrum tímum, ég blanda svo eldri stílum við minn. Mér finnst líka skemmtilegt að fylgjast með tískunni í öðrum löndum og um þessar mundir hef ég mikinn áhuga á japönskum tískumerkjum.“

David Bowie helsta fyrirmyndin

Eldri tískubylgjur heilla Nadíu sem segist horfa einna mest til seinni hluta 9. og 10. áratugarins.

„Mér finnst tískan frá þessu tímabili geggjuð. Þá var mikil gerjun í tónlistarheiminum og þar með fylgdu alls konar tískubylgjur. Rokkið kom með leðurbuxur og töff belti, hipphopp og rapp komu með víð og laus föt svo sem buxur með lágu mitti og svo „grunge“-tískan og þá kom svolítið „messy“ stíll. Á þessum tíma voru fyrirsætur miklar stjörnur og með þeim var vel fylgst og þá varð til svokallaður „model off duty“-stíll.“ Nadía segir að 9. og 10. áratugurinn hafi verið endalaus uppspretta nýrrar og spennandi tísku.

Helsta fyrirmynd Nadíu í klæðaburði er enginn annar en David Bowie. Hún segir engan á þeim tíma hafa verið jafn djarfan í útliti og klæðaburði, hann hafi varpað nýrri sýn á tískuheiminn og haft víðtæk áhrif. Hún bætir líka við að hann sé einn af hennar uppáhaldstónlistarmönnum.

En hvernig myndi Nadía lýsa fatastílnum sínum?

„Vá nú þarf ég að hugsa, hann er nefnilega ekki alltaf eins. En ef ég ætti að taka hann saman í eina heildarmynd þá myndi ég segja skrautlegur, gamaldags og stundum mikill skvísustíll. Kannski er stíllinn minn algjör rússíbani og fer í allar áttir. Það er erfitt að nota eitthvert eitt orð til að lýsa honum,“ segir hún.

Nadía þarf ekki að hugsa sig um þegar hún er spurð hvort hún sé meira fyrir skó eða töskur?

„Skó! Ég er eiginlega aðeins of skósjúk. Uppáhaldsskórnir mínir eru „vintage“ El Dantes-hælaskór sem ég fékk á klikkað góðu verði í Rauða krossinum.“

Hún segist líka vera mikið fyrir fylgihluti og skartgripi.

„Mér finnst fátt skemmtilegra en að vera komin í flott föt og gera þau enn flottari með því að setja á mig eitthvert smart skart eða skraut. Rétti klúturinn eða taskan geta algerlega fullkomnað lúkkið. Ég er ekki bara skósjúk heldur líka treflasjúk,“ bætir hún við og segist dýrka að henda á sig mjóum trefli til að hafa eitthvert aukadúllerí vafið um sig.

David Bowie er í miklu uppáhaldi.
David Bowie er í miklu uppáhaldi.

Uppáhaldsflíkin ekki sú flottasta

Hver er uppáhaldsflíkin þín um þessar mundir?

„Ég myndi segja risarúllukragapeysan mín frá merkinu Gestuz. Þrátt fyrir að hún sé kannski ekki flottasta flíkin mín þá er hún samt mín uppáhaldsflík. Ég er nefnilega mesta kuldaskræfa sem fyrirfinnst og þessi peysa heldur svo sannarlega á mér hita.“ Hún segist aðallega kaupa notuð föt í nytjavöruverslunum þar sem sér finnist mikilvægt að nýta föt vel.

„Ég versla mest í Rauða krossinum, Hertex og öðrum svipuðum verslunum. Annars versla ég stundum á netinu en þá helst á síðum þar sem eru seld notuð föt eins og Regn, Depop eða eitthvað slíkt. Ég kaupi mér líka stundum eitthvað í Húrra Reykjavík, það er næstum ómögulegt að vinna í fatabúð án þess að kaupa sér eitthvað af og til. Þau merki sem eru í uppáhaldi hjá mér eru t.d. Junya Watanabe, Dries Van Noten og svo hefur Rick Owens lengi verið í miklu uppáhaldi.“

Nadía er hálfhollensk og á þess vegna fjölskyldu í Hollandi sem hún segist heimsækja reglulega og þess vegna fari hún oft til Amsterdam sem hún segir þá borg sem sér finnist best að versla í.

Auðveldara að skapa sinn eigin fatastíl í dag

Þegar talið berst að tískunni í dag segir hún að sér finnist hún mun aðgengilegri en oft áður og mjög fjölbreytt. Aðgengi að vörum sem tengjast tísku sé mun auðveldara en oft áður og því léttara að finna stíl sem fólk tengi við.

„Mér finnst til dæmis sjúklega gaman að kíkja á Pinterest og skoða alls konar stíla og sjá hvað mér finnst flott og hvað ekki. Ég get þannig notfært mér netið til að þróa minn eigin stíl,“ segir hún og bætir við að hún klæðist mest svörtu, hvítu, vínrauðu, dökkbláu og dökkfjólubláu. „Þótt mér finnist fleiri litir alveg klæða mig þá mun enginn sjá mig í fölbleikum, gulum eða skærgrænum lit.“

Best að nota hendurnar í förðun

En hvaða snyrtivörur notar Nadía helst? „Eins og staðan er núna þá er sumarbrúnkan að dofna og þá gríp ég strax í sólarpúðrið. Núna er „contourstick“ frá Lancôme í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér finnst mikilvægt að undirbúa húðina vel áður en byrjað er á förðuninni, það gerir það að verkum að húðin verður sérlega falleg og geislandi. Uppáhaldskremið mitt er Skinfood frá Weleda. Það er rosalega þykkt og þegar ég nota það þá liggur förðunin svo fallega á húðinni. Annars nota ég puttana mikið þegar ég set á mig hyljara eða farða, mér finnst allt blandast mun betur með fingrunum en ef ég nota bursta eða svamp.“

Að lokum er Nadía spurð hvort hún geti gefið öðrum konum einhver tískuráð.

„Það sem mér finnst best í heimi er þegar ég er kannski í búð í útlöndum og sendi mynd af flík sem ég er að máta til vinkvenna minna og þær segja „vá hvað þetta er mikið þú“. Það að hafa sinn einstaka og persónulega stíl er svo geggjað. En til þess þarf maður að hætta að pæla svona mikið í litlum tískutrendum og hætta að spá í hvað öðrum finnst. Mér finnst líka að fólk ættiekki að eltast við einhverjar aðrar manneskjur og herma eftir stílnum þeirra. Vertu þú sjálf/ur og finndu þinn eigin einstaka stíl, því það er einungis þá sem þú munt virkilega skera þig úr.“

mbl.is