„Ég vissi að þetta væri erfitt en vissi samt ekki neitt“

Fjölskyldulíf | 16. nóvember 2024

„Ég vissi að þetta væri erfitt en vissi samt ekki neitt“

„Það er svefnleysið, skynáreitið og hvernig þú ert stöðugt að mæta sjálfum þér og hvað þú ert alltaf á vaktinni,“ segir Jóhannes S. Ólafsson hæstaréttarlögmaður um föðurhlutverkið. 

„Ég vissi að þetta væri erfitt en vissi samt ekki neitt“

Fjölskyldulíf | 16. nóvember 2024

Sigrún og Jói ásamt börnunum Rakeli, Móu og Atla.
Sigrún og Jói ásamt börnunum Rakeli, Móu og Atla. Ljósmynd/Aðsend

„Það er svefnleysið, skynáreitið og hvernig þú ert stöðugt að mæta sjálfum þér og hvað þú ert alltaf á vaktinni,“ segir Jóhannes S. Ólafsson hæstaréttarlögmaður um föðurhlutverkið. 

„Það er svefnleysið, skynáreitið og hvernig þú ert stöðugt að mæta sjálfum þér og hvað þú ert alltaf á vaktinni,“ segir Jóhannes S. Ólafsson hæstaréttarlögmaður um föðurhlutverkið. 

Sambýliskona Jóhannesar, eða Jóa eins og hann er kallaður, er Sigrún Jóhannsdóttir lögmaður og eiga þau þrjú börn á aldrinum fimm til fimmtán ára. 

Í vikunni gaf Jói út sín fyrstu tvö frumsömdu lög, smáskífurnar Hush My Darling og Oak in The Snow, sem fáanlegar eru á öllum helstu streymisveitum. Hann er því ekki einungis lögmaður sem rekur sína eigin lögmannsstofu heldur einnig tónlistarmaður.

Jóhannes S. Ólafsson er hæstaréttarlögmaður og rekur sína eigin lögmannsstofu. …
Jóhannes S. Ólafsson er hæstaréttarlögmaður og rekur sína eigin lögmannsstofu. Hann getur stjórnað tíma sínum og ver frítímanum með fjölskyldunni og við að semja tónlist. Ljósmynd/Aðsend

Lagði tónlistina til hliðar

Spurður um útgáfuna á lögunum segir Jói: „Ég var mikið í tónlist þegar ég var yngri. Ég lærði á píanó í Tónlistarskóla Grafarvogs, en er sjálflærður á gítar og í söng. Ég spilaði á börum, í brúðkaupum og auðvitað með vinum.“

Hann segist þó hafa lagt tónlistina til hliðar þegar lífið tók við af fullum þunga. Vissulega hafi vinnan og fjölskyldulífið verið í forgrunni og þess vegna minni tími til að sinna áhugamálum.

„Þegar börnin voru yngri gat föðurhlutverkið verið mikil bugun,“ en með tímanum fær allt sinn takt, eins og hann orðar það.

Með árunum hafi hann þroskast og lært að takast á við hin ýmsu verkefni. Hann hafi sjálfur verið heppinn að alast upp við mikla ást frá eigin föður sem hafi svo endurspeglast í hans eigin föðurímynd. 

Jói segist hafa séð eftir að hafa hætt í tónlistinni. Þess vegna hafi það verið stórt skref að byrja aftur og ákveða svo að taka upp heila plötu.

„Persónulega finnst mér þetta svo skemmtilegt og gefandi, að skilja loksins eitthvað eftir mig.“ 

Guðrún Bjarnadóttir leikkona syngur með Jóa inn á báðar smáskífurnar, …
Guðrún Bjarnadóttir leikkona syngur með Jóa inn á báðar smáskífurnar, Oak in The Snow og Hush My Darling. Ljósmynd/Aðsend
Hæstaréttarlögmaðurinn grípur í gítarinn á góðum sumardegi.
Hæstaréttarlögmaðurinn grípur í gítarinn á góðum sumardegi. Ljósmynd/Aðsend

Kveikjan að plötunni

„Í vor tók ég nokkur lög í karókí með eldri stelpunni minni. Ég hafði orð á því að röddin mín væri langt frá því sem hún var í gamla daga.“

Jói segir leiðinlegt að upplifa röddina missa kraftinn með árunum. Það gerist hjá öllum sem ekki halda henni í stöðugri æfingu. Á sama tíma hafi Guðrún æskuvinkona hans boðið honum að syngja með henni á kvennakvöldi Gróttu. Hann hafi hafnað beiðninni eins og öðrum í gegnum tíðina vegna þessarar ástæðu.  

„Í framhaldi af því ákvað ég síðan að leggja í þá vinnu að syngja upp röddina, sem er mjög mikil vinna eftir svo langan tíma.“

Eins og sannur listamaður segir hann sköpunarkraftinn hafa tekið yfir og lögin ekki látið hann í friði fyrr en þau höfðu tekið á sig fulla mynd. „Á nokkrum mánuðum var ég kominn með heila plötu og meira en það.“

Jói lætur verkin tala og fljótlega leitaði hann til Eðvarðs Egilssonar og fór í upptökur í hljóðverinu hans á Seltjarnarnesi. Eðvarð útsetti lögin fyrir Jóa og samstarfið gekk vonum framar. „Hann er gríðarlega hæfileikaríkur maður og á mikinn þátt í þessu.“

Jói segist stefna á að gefa út næstu smáskífur í febrúar á komandi ári og restina af plötunni næsta vor.

Lögfræðingurinn og grafíski hönnuðurinn Ósk Óskarsdóttir hannar plötuumslögin fyrir Jóa.
Lögfræðingurinn og grafíski hönnuðurinn Ósk Óskarsdóttir hannar plötuumslögin fyrir Jóa. Ljósmynd/Aðsend

Hvað skiptir raunverulega máli

„Með aldrinum hefur lífið, með góðu eða illu, fengið mann til að raunverulega sjá og upplifa hvað það er sem skiptir máli og kenna manni að meta það. Bæði hvað varðar það sem snýr að manni sjálfum og umhverfinu.“

Þau Sigrún hafi því meðvitað hægt á lífinu undanfarin ár og einblína nú á jafnvægi og heilbrigði, sem á einnig þátt í að tónlistin fékk meira rými.

Að auki segist hann skilvirkur í starfi og hafi þess vegna meira svigrúm en ella. „Á sumrin eru dómstólarnir lokaðir og það er því alltaf minni vinna yfir sumarmánuðina, sem hentaði vel í þessu tilviki.“ 

Hann samdi öll lögin á plötunni í sumar og var þá heima að pikka á gítarinn eða sat við píanóið. 

„Þegar börnin voru yngri gat föðurhlutverkið verið mikil bugun,“ en …
„Þegar börnin voru yngri gat föðurhlutverkið verið mikil bugun,“ en með tímanum fær allt sinn takt, eins og hann orðar það. Ljósmynd/Aðsend

Snýst um að tilheyra

Þá er forvitnilegt að vita hvernig gangi að púsla fullu starfi sem hæstaréttarlögmaður og plötuútgáfu saman við föðurhlutverkið. 

„Ég hef starfað í lögmennsku óslitið frá 2009 og rek mína eigin lögmannsstofu. Ég hef því mun meiri stjórn á hvaða verkefni ég tek að mér og hvenær ég vinn þau.“

Það er fallegt að heyra hvernig Jói talar um börnin sín. Hann er stoltur af þeim og segist kenna þeim hvernig takast eigi á við lífið og tilveruna. Þau verði að læra að koma vel fram við sjálf sig og aðra.

Allt snúist þetta um að tilheyra og stór partur af því sé að veita þeim nánd og góðar samverustundir. 

Spurður um hvernig er að vera faðir tveggja stúlkna segist hann ekki hafa af því nokkrar áhyggjur hvernig þeim muni reiða af í lífinu. Þær séu báðar ákveðnar og fylgnar sér. Aðalatriðið sé að passa upp á að umhverfið brjóti ekki niður þessi sterku persónueinkenni sem þær búa yfir. 

Hefur eitthvað komið þér á óvart varðandi föðurhlutverkið?

„Hvað ég vissi lítið. Ég vissi að þetta væri erfitt en vissi samt ekki neitt. Fyrstu árin taka mikinn toll af manni en svo fer þetta jafnt og þétt að gefa meira og taka minna. Það er mín tilfinning allavega.“

Sigrún og Jói gengu í sama grunnskóla og voru lengi …
Sigrún og Jói gengu í sama grunnskóla og voru lengi vinir áður en þau fóru að rugla saman reytum. Hér eru þau í einum af fríunum sínum í Mexíkó. Ljósmynd/Aðsend

Tónlistin glæðir heimilið nýju lífi

Að mati Jóa felast ákveðin lífsgæði í að hafa tónlistina viðloðandi heimilislífið. „Við eldri dóttir mín höfum verið að syngja saman í gegnum tíðina og hún hefur núna verið að syngja lögin með mér.“ Og vonast hann til að í framtíðinni muni hún syngja með honum inn á plötu. 

„Yngri dóttir mín hefur líka alltaf haft mjög mikinn áhuga á tónlist, er aðeins farin að æfa sig og hver veit hvert það leiðir.“

Guðrún Bjarnadóttir, leikkona og vinkona Jóa og Sigrúnar, syngur með honum á báðum smáskífunum. „Hún er með svo sérstakan og flottan karakter, bæði röddina og persónuleikann.“ Jói lýsir samhljómi þeirra tveggja eins og flæði, sem er svo ómissandi í lögunum. 

Freyr Jóhannsson, æskuvinur Jóa og bróðir Sigrúnar, sér um hluta af gítarspilinu á plötunni.

Jói og Sigrún hafa meðvitað hægt á lífinu undanfarin ár …
Jói og Sigrún hafa meðvitað hægt á lífinu undanfarin ár og einblína nú á jafnvægi og heilbrigði, sem á einnig þátt í að tónlistin fékk meira rými. Ljósmynd/Aðsend

„Það verður eitthvað svo mannlegt“

„Auðvitað hefur maður gengið í gegnum ýmislegt. Það var svo mikið af rugli sem fékk að ganga manna á milli fyrir Internetið,“ segir Jói þegar hann er spurður um lærdóm lífsins og hvort hann hefði viljað vita meira þegar hann var tvítugur.

„En ef ég hefði vitað of mikið, þá hefði maður kannski ekki fengið að lenda í svona miklu veseni á leiðinni. Allt sem gerðist leiddi mig samt þangað sem ég er í dag og ég er mjög þakklátur fyrir þann stað.“

Jói segir sum lögin geta verið afar persónuleg, þau í raun leiði áheyrandann inn í gegnum ákveðið tímabil í lífinu. Önnur lög séu meiri ráðgáta þar sem verið er að reyna að ná utan um tilfinningar sem flestir ættu að kannast við.

„Það verður eitthvað svo mannlegt.“

Hush My Darling fjallar um manninn á tímum tæknivæðingar og aftengingu hans við náttúruna, sjálfan sig og annað fólk. Oak in The Snow er um þolraunir ástarsambanda og utanaðkomandi hindranir.

Erfiðast í ferlinu segir Jói hafa verið að sleppa tökunum á lögunum. Þau hafi farið í gegnum margar mismunandi útsetningar en að lokum þurfi að setja punkt. 

Plötuumslagið fyrir Oak in the Snow.
Plötuumslagið fyrir Oak in the Snow. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is