Viðskiptafræðingurinn Bryndís Móna Róbertsdóttir er með mikla ferðaþrá. Hún fór í eftirminnilega reisu árið 2017 þegar hún ferðaðist ummeð bakpoka í Asíu í fjóra mánuði.
Viðskiptafræðingurinn Bryndís Móna Róbertsdóttir er með mikla ferðaþrá. Hún fór í eftirminnilega reisu árið 2017 þegar hún ferðaðist ummeð bakpoka í Asíu í fjóra mánuði.
Viðskiptafræðingurinn Bryndís Móna Róbertsdóttir er með mikla ferðaþrá. Hún fór í eftirminnilega reisu árið 2017 þegar hún ferðaðist ummeð bakpoka í Asíu í fjóra mánuði.
„Ferðaáhuginn hefur eiginlega bara aukist síðan þá,“ segir Bryndís en árið 2022 flutti hún til Ástralíu ásamt kærasta sínum og stóð búsetan yfir í eitt ár.
Hvernig kviknaði áhuginn á því að fara í bakpokaferðalag og hvernig plönuðu þið það?
„Áhuginn kviknaði þegar ég fylgdist með systur minni fara í heimsreisu nokkrum árum áður. Ég tók árið eftir menntaskóla til að kynna mér hvert væri spennandi að fara og plana ferðina. Við plönuðum gróflega þau lönd sem okkur langaði að heimsækja en við pöntuðum bara „one-way“ flugmiða og bókuðum svo önnur flug jafnóðum og tókum svolítið bara einn dag í einu. Maður kynnist svo mikið af fólki þegar maður er að ferðast, bæði heimamönnum og öðrum ferðalöngum, og oftar en ekki bendir það manni á skemmtilega staði sem manni hefði annars ekki dottið í hug að heimsækja, sem gerir það að miklum kosti að vera ekki með allt of mikið planað hverju sinni.
Eins hefur maður svigrúm til þess að vera lengur á stað sem maður fílar vel, eða eyða styttri tíma á stað sem maður er kannski ekki eins hrifinn af og maður bjóst við. Það getur þó farið svolítið eftir því hvaða land verið er að heimsækja, hvort að það sé auðvelt að bóka flug og hótel með litlum fyrirvara á hagstæðu verði. Í þeim löndum í suðaustur-Asíu sem við heimsóttum var það alltaf mjög einfalt,“ segir hún.
Er eitthvað land eða áfangastaður úr þeirri ferð sem er sérstaklega eftirminnilegt?
„Við vörðum rúmlega mánuði af ferðinni okkar í Taílandi og nutum þess mikið. Við höfum farið þangað nokkrum sinnum aftur eftir reisuna, því að það er í miklu uppáhaldi. Það er eiginlega sama í hvaða landshluta Taílands maður er staddur, það er svo ótrúlega mikið af stórbrotinni náttúrufegurð, vingjarnlegum heimamönnum og afar góðum mat. Annað land sem stendur upp úr reisunni er Laos. Við heimsóttum Luang Prabang, og ferðumst um litla nærliggjandi bæi á vespu. Það var einstaklega góð orka þar, alveg ótrúlega falleg náttúra, lítið af ferðamönnum og yndislegir heimamenn.“
Eru einhver eftirminnileg atvik úr reisunni?
„Við vorum ekki lengi að lenda í fyrsta veseninu okkar á leiðinni til Asíu. Fyrsti áfangastaður reisunnar var Bangkok með stuttu millistoppi í Osló og 17 klukkutíma stoppi í Moskvu. Við vorum búin að plana að nýta stoppið í Moskvu til að skoða borgina og við höfðum mikið fyrir því að troða hlýjum fötum í bakpokana okkar þar sem að spáð var miklu frosti. Í Osló, þegar við vorum að tékka inn töskurnar okkar fyrir flugið til Moskvu, kom upp smá miskilningur og töskunar okkar voru tékkaðar inn alla leiðina til Bangkok. Við enduðum því á að mæta léttklædd og yfirhafnarlaus um miðja nótt í Moskvu í mínus 30 gráðum. Leigubílaferðin á hótelið okkar var ansi hressandi í þessum kulda. Við vorum sem betur fer svo heppin að bróðir kærasta míns þekkti heimamenn í Moskvu og þau voru svo indæl að lána okkur skó og yfirhafnir svo að við kæmumst út af hótelherberginu. Þetta fólk, sem við höfðum aldrei hitt áður, keyrðu svo og löbbuðu með okkur um öll helstu kennileiti Moskvu sem var virkilega gaman. En þó að við værum í góðum yfirhöfnum þá var kuldinn svo mikill að við gátum varla verið úti í meira en hálftíma í senn! Við komumst svo að því eftir á, að jóladagur í Rússlandi er haldinn hátíðlegur 7. janúar - daginn sem við lentum. Það var því tæknilega séð jóladagur í Rússlandi þennan dag og blessað fólkið eyddi því jólunum sínum í að sýna okkur borgina!“
„Annað minnisstætt atvik er frá Víetnam en við Haukur fórum í bátsferð þar um Halong Bay. Hægt var að velja um að taka tvær eða þrjár nætur og við völdum að taka þrjár nætur, því þá fylgdi í pakkanum að gista eina nótt á lítilli eyðieyju. Þessi ferð var eiginlega auglýst sem partýferð og við vorum ekki alveg að leitast eftir því og vorum smá stressuð um að það yrði mikið djamm á fólki. Það reyndist hins vegar alls ekki vera því að við vorum þau einu í hópnum sem bókuðum þrjár nætur og gistum því alein ásamt fararstjóranum á þessari litlu eyju. Við fengum hlaðborð af mat eldað ofan í okkur tvö og þetta endaði á að vera ótrúlega einstök og skemmtileg upplifun.“
Hefurðu fengið menningarsjokk?
„Já það er ákveðið menningarsjokk að koma í fyrsta skiptið til fjarlægra landa með ólíkri menningu og ég fann fyrir því þegar ég ferðaðist um suðaustur-Asíu í fyrsta skiptið. Ég tel það vera hollt að kynnast mismunandi menningarheimum. Slíkt hefur kennt mér að öðlast meira umburðarlyndi, skilning og þolinmæði. Að mínu mati er nauðsynlegt þegar maður ferðast á fjarlægar slóðir að reyna að aðlagast umhverfinu og menningunni hverju sinni. Oftar en ekki getur maður dregið lærdóm af reynslunni og tekið hann með sér heim.“
Eftir ferðalagið stóra hóf Bryndís nám við Háskóla Íslands. Á fjórða ári fór hún í ársskiptinám til Melbourne í Ástralíu.
„Mér fannst yndislegt að búa þar og ég sakna þess mikið. Melbourne er ótrúlega skemmtileg stórborg og það er ómögulegt að leiðast þar, því það er alltaf eitthvað um að vera. Ég stundaði nám í The University of Melbourne sem var líka mjög skemmtileg upplifun og lærdómsrík. Melbourne hefur oft unnið titilinn sem „The most liveable city in the world“ og mér fannst borgin alveg standa undir því. Loftslagið er fullkomið, góðar samgöngur, skemmtilegt fólk, falleg náttúra og strendur allt um kring og svo mætti lengi telja. Það kom líka skemmtilega á óvart að það er mjög lítið um skordýr í Melbourne, en það er oftast fyrsta spurningin sem allir hafa þegar ég segist hafa búið í Ástralíu. Ég sá að minnsta kosti ekki eina einustu kónguló allan þann tíma sem að ég bjó þar!’“
Ferðuðust þið mikið um Ástralíu?
„Þegar við vorum ekki bundin vinnu og skóla nýttum við oft tímann í ferðalög. Það er ekki langt að sækja í spennandi staði og fallega náttúru. Við fórum til að mynda með vinafólki okkar í helgarferð að Dimboola en þar er stórt bleikt saltvatnsstöðuvatn og til Philip Island sem er eyja 140 kílómetra suðaustur frá Melbourne. Eyjan er þekkt fyrir dýralíf og sérstaklega mörgæsir sem vaða á land í þúsundatali við sólsetur á hverju kvöldi. Þegar við fengum vini og fjölskyldu frá Íslandi í heimsókn fórum við í roadtrip um hinn fræga Great Ocean Road sem er fallegur strandarvegur sem teygir sig um það bil 243 kílómetra í Viktoríufylki. Þessi leið er þekkt fyrir einstaklega fallegt útsýni yfir strandlengjuna, heillandi bæi og gróskumikla regnskóga. Þar sáum við mikið dýralíf, allt frá kengúrum, kóalabjörnum og cockatoos páfagaukum yfir í sjálflýsandi glóðorma!“
„Ein ferð sem stóð upp úr var ferð með vinum okkar til the Whitsundays sem samanstendur af 74 suðrænum eyjum sem eru staðsettar við miðströnd Queensland í Ástralíu, nálægt The Great Barrier Reef. Eyjurnar eru þekktar fyrir óspilltar hvítar sandstrendur og kristaltært grænblátt vatn. Þar fórum við í nokkurra daga bátsferð og vorum í henni án símasambands. Við snorkluðum hjá The Great Barrier Reef og stoppuðum á fallegum eyjum. Það var mjög skemmtilegt.“
Er einhver áfangastaður á óskalistanum hjá þér?
„Já þeir eru margir. Ef ég þyrfti að nefna nokkra staði væru það Banff þjóðgarðurinn í Kanada, Maldíveyjar og Brasilía.“
Ertu með einhver ferðaráð?
„Ég mæli með að fólk ferðist á nýja staði. Eins freistandi og það er að fara á sömu staðina sem maður fílar vel þá er svo gefandi að heimsækja nýja staði. Ég mæli einnig með að mikla ekki löng flug fyrir sér. Mín reynsla er að þau flug eru fljótari að líða en maður gerir sér grein fyrir og sætin eru til að mynda oftast miklu þægilegri en þau sem maður er vanur í styttri flugum!“