Þórður Snær Júlíusson mun ekki þiggja rétt sinn til biðlauna í kjölfar þess að hann afsalar sér þingmennsku.
Þórður Snær Júlíusson mun ekki þiggja rétt sinn til biðlauna í kjölfar þess að hann afsalar sér þingmennsku.
Þórður Snær Júlíusson mun ekki þiggja rétt sinn til biðlauna í kjölfar þess að hann afsalar sér þingmennsku.
Þing kemur saman á þriðjudaginn og má gera ráð fyrir því að Þórður segi af sér þingmennsku strax í kjölfar þess að kjör hans og annarra þingmanna er samþykkt af þinginu.
„Ég mun ekki þiggja biðlaun,“ skrifar Þórður Snær í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.
Þórður hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar og hann tekur formlega við stöðunni daginn sem þing kemur saman.
Þórður Snær skipaði þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður í alþingiskosningunum og var kjörinn á þing. Hann gaf þó út fyrir kosningar að hann myndi ekki taka þingsætið.
Ástæðan er skrif fjölmiðlamannsins fyrrverandi á blogginu „Þessar elskur“ sem hann hélt úti fyrir mörgum árum síðan en fyrst var fjallað um bloggskrifin í Spursmálum á mbl.is.
Skrifaði Þórður undir dulnefni óviðurkvæmilegar greinar um konur sem hann sagði m.a. vera lævísar, miskunnarlausar, undirförlar tíkur.
Í 1. mgr. 14. gr. laga 88/1995 um þingfararkaup og þingfararkostnað segir:
„Alþingismaður á rétt á biðlaunum er hann lætur af þingmennsku. Biðlaun jafnhá þingfararkaupi skv. 1. gr. skal þá greiða í þrjá mánuði. Eftir þingsetu í tvö kjörtímabil eða lengur skal þó greiða biðlaun í sex mánuði.“
Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis sagði í skriflegu svari til Morgunblaðsins í desember að þingmenn gætu ákveðið að nýta sér ekki rétt til biðlauna, rétt eins og Þórður hefur ákveðið að gera.
Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hafði einnig minnst á það í janúar að Þórður myndi ekki þiggja biðlaun.