Þórunni Elísabetu Sveinsdóttur þekkja eflaust margir en hún er menntaður myndlistarmaður og hefur starfað sem búninga- og leikmyndahönnuður í áratugi, bæði í Þjóðleikhúsinu og í kvikmyndageiranum. Einnig hefur hún haldið fjölda listsýninga í gegnum árin
þar sem hún vinnur mikið með fjölbreytt efni og áferðir en einnig texta. Þórunn er mjög
virk og enn að vinna en hún er 73 ára og segist ekkert alltaf muna hvað hún sé gömul.
Þórunni Elísabetu Sveinsdóttur þekkja eflaust margir en hún er menntaður myndlistarmaður og hefur starfað sem búninga- og leikmyndahönnuður í áratugi, bæði í Þjóðleikhúsinu og í kvikmyndageiranum. Einnig hefur hún haldið fjölda listsýninga í gegnum árin
þar sem hún vinnur mikið með fjölbreytt efni og áferðir en einnig texta. Þórunn er mjög
virk og enn að vinna en hún er 73 ára og segist ekkert alltaf muna hvað hún sé gömul.
Þórunni Elísabetu Sveinsdóttur þekkja eflaust margir en hún er menntaður myndlistarmaður og hefur starfað sem búninga- og leikmyndahönnuður í áratugi, bæði í Þjóðleikhúsinu og í kvikmyndageiranum. Einnig hefur hún haldið fjölda listsýninga í gegnum árin
þar sem hún vinnur mikið með fjölbreytt efni og áferðir en einnig texta. Þórunn er mjög
virk og enn að vinna en hún er 73 ára og segist ekkert alltaf muna hvað hún sé gömul.
Þórunn er gift Tómasi Jónssyni sem er ljósmyndari og grafískur hönnuður og saman eiga þau fjögur börn og níu barnabörn. Þau byrjuðu saman þegar hún var sextán ára og hann átján. Samband þeirra er einstaklega gott og farsælt en þau fagna bráðlega fimmtíu og fimm ára brúðkaupsafmæli. Hjónin búa í einstaklega skemmtilegu gömlu timburhúsi í Þingholtunum og óhætt að segja að heimili þeirra endurspegli hinn mikla sköpunarkraft sem Þórunn Elísabet býr yfir.
Hún lærði í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og var dregin inn í Þjóðleikhúsið 1981 í búningahönnun að eigin sögn. „Ég vinn mikið með timbur, nagla og með efni og oft hef ég unnið með arfleifð íslenskra kvenna, til dæmis í gegnum íslenska þjóðbúninginn sem ég hef bútað niður í list. En í leikhúsinu eru búningarnir og leikmyndin ramminn og innan hans hreyfist allt. En þetta byrjar allt í textanum og svo þarf huga að og þjónusta þarfir leikaranna. Ég fer lauslega með staðreyndir en hef ágæta rýmisgreind sem hefur nýst vel í leikmyndagerð og vinnu. Ég huga líka að degi, myrkri og morgnum þegar ég hanna og svo velti ég fyrir mér tilfinningum eins og hvað viltu sýna og hvað viltu fela, hönnunin getur verið duttlungum háð.“
Þórunn segist alltaf vakna glöð á morgnana og eldsnemma. „Mér finnst ég hafa verið svo lánsöm í lífinu. Ég var ung þegar við Tommi fluttum til Englands og þar vorum við í fimm ár, fyrst eitt ár í Birmingham og svo í Leicester, Tommi var í námi en ég sinnti börnunum okkar sem voru tvö á þessum tíma. Þetta var á árunum upp úr 1972 en þá voru þorskastríðin í gangi og ég nennti ekki alltaf að segja að ég væri Íslendingur og laug því stundum að ég væri finnsk,“ segir hún og hlær. „Eftir dvölina í Englandi fluttum við svo heim og fórum að basla.“
Þegar Þórunn er spurð hver sé galdurinn við langt og farsælt hjónaband hljóðnar hún og segist í raun aldrei hafa velt þessu fyrir sér. „Er þetta ekki bara lukka? Þetta bara gerðist. Lengi vel fórum við aldrei neitt í sundur og vorum bara alltaf saman. Við höfum bæði starfað sjálfstætt nánast allt okkar líf en höfum samt alltaf varið miklum tíma saman og verið mikið með börnunum okkar. Þau hafa kannski meira alið okkur upp en við þau. Í víðfeðmri ásthyggju þá trúi ég að þau hafi haft mikil áhrif á hjónabandið. Fyrsta barnið eignuðumst við árið 1969, næsta 1973 og svo 1981 og 1986 og engin þeirra eru eins. Síðan fengum við eina dásamlega bónusfjölskyldu og börnin í henni kalla okkur líka ömmu og afa, óskylt okkur en jafnelskað.“
Samband þeirra Þórunnar og Tómasar er einkar fallegt en þegar þau fögnuðu 50 ára brúðkaupsafmæli bjó Tommi til bók, Þórunni og sambandi þeirra til heiðurs. „Hann var búinn að vera að vinna lengi að bókinni og safna í hana efni. Tommi hefur alltaf tekið mikið af myndum og þess vegna bjó hann til þessa bók um mig, myndlistina mína og ástina okkar.“
Þegar Þórunn er innt eftir ráðum um hvernig hægt sé að rækta hjónabandið og halda því lifandi lengi segir hún einfaldlega. „Við gerum mikið saman og höfum ferðast mikið, við förum til dæmis enn í tjaldútilegur. Við erum líka dugleg að vesenast saman í hinu og þessu og sinnum börnunum og barnabörnum.“
Þórunn segist halda sér í formi í gegnum vinnuna. „Ég held að vinnan hafi bara séð dálítið mikið um að halda mér ferskri og ungri í anda. Ég myndi alltaf hvetja fólk til að halda áfram að vinna ef það nennir og hefur gaman af vinnunni. Ég held að galdurinn sé líka að hafa ástríðu fyrir því sem maður er að gera og læra að elska sjálfan sig, að nenna að segja nei við því sem þjónar manni ekki. Það er mín trú að partur af því að vera lánsamur í lífinu sé að lifa svolítið út frá ástinni og því sem maður hefur ástríðu fyrir. Í því samhengi er því brýnt að finna út hverju maður hefur ástríðu fyrir.“ Þórunn veit vel hverju hún brennur fyrir. „Það er listin, hún hefur átt þátt í að ég hef alltaf verið hamingjusöm. Ég held líka að lykillinn að hamingjunni sé að vera jákvæður og að hafa kærleikann ávallt að leiðarljósi.“
Hún segir og að fólk ætti að leiða hugann að því að vera ekki of dómhart heldur sýna meira umburðarlyndi gagnvart sjálfu sér, öðrum og umhverfinu.
Hún telur líka að margir einblíni um of á ytra útlit. „Ég held að hraðinn í samfélaginu hafi gert það að verkum að margir spá meira í hvernig allt lítur út utan frá, en það skiptir svo miklu meira máli hvernig hlutirnir líta út innan frá og að njóta líðandi stundar. Ég hef stundum áhyggjur af því að það sé allt of mikið af upplýsingum um alla þessa ljótu karla í heiminum og öll þessi stríð. Auðvitað á maður að vera upplýstur en að hafa þetta fyrstu fréttir á morgnana og síðustu fréttir á kvöldin held að ég sé ekki gott fyrir neitt. Ég ólst upp við að kjarnorkustyrjöld væri ávallt yfirvofandi og það hafði gríðarleg áhrif á mig þegar ég var lítið barn. Ég held að það sé bara gott að hafa einn kolsvartan fréttatíma yfir daginn sem hægt er svo að slökkva á. Það á ekki að vera þessi síbylja allan liðlangan daginn um öll heimsins ógæfumál og þessa ljótu karla sem eru við völd, ég vona að þeir drepist allir fljótlega,“ segir hún ákveðin.
Þórunni finnst jákvæðu fréttirnar gleymast svolítið.
„Flestir eru tilfinningaverur og þess vegna ættu að vera fleiri kærleiksfréttir, það er margt jákvætt í gangi sem gleymist. Það er gott að reyna að sjá hlutina í samhengi og vera virkur í að styrkja góð málefni, það er jákvætt og þess vegna geri ég það, reynum að temja okkur meiri mannréttindahugsun. Ég skil til dæmis ekki þessi stríð og allar þessar konur úti um allan heim að missa drengina sína í hermennsku, hvers vegna er þetta samþykkt? Ég næ því ekki.“
Þegar kemur að því að ræða heilsuna er Þórunn fljót að svara. „Ég stunda ekki neinar íþróttir, við hjónin erum bara virk, þrífum húsið okkar alltaf sjálf og ég bý uppi á annarri hæð og þarf að fara niður stiga og ofan í kjallara sem heldur manni í formi. Við stússum líka mjög mikið og erum oft með barnabörnin okkar. Ég vinn líka allan daginn, elda á kvöldin og fer út í búð. Ég fer reyndar í sjúkraþjálfun reglulega þar sem ég lenti í árekstri fyrir einu og hálfu ári og handleggsbraut mig svo líka og það hefur tekið smá toll.“
Þórunn segir að þau borði líka frekar hollan mat. „Þegar við vorum ung þá bjuggum við til matsölustað með öðru fólki sem hét Á næstu grösum en það var grænmetisstaður. Við borðum mikið grænmetisfæði en líka fisk og svolítið lambakjöt en við borðum líka mikið af korni og baunum og alltaf meira og meira grænmeti. Ég trúi því að maður þurfi að borða meira kjöt á köldum stað. Auk þess að borða nokkuð hollt tökum við góð vítamín og ég fasta yfirleitt frá því klukkan sjö á kvöldin og til klukkan tólf næsta dag en á þessum tíma drekk ég bara vatn, þetta er samt ekki neinn kúr. Ég var skömmuð fyrir að gera þetta þegar ég var yngri en ég hef alltaf verið svona og hef aldrei borðað morgunmat. Ég reyndi það um tíma en þá varð ég bara syfjuð og ómöguleg. Ég las svo einhvers staðar að þetta væri alveg eðlilegt svo ég held mig bara við að borða ekki morgunmat. Þess má líka geta, þótt það varði kannski ekki hollustuna, að við bjuggum til Kolaportið nokkur saman líka og maðurinn minn gaf út blað sem hét Ung, svo við höfum alltaf verið að gera eitthvað.“
Listin umlykur allt sem Þórunn gerir og hún segir önnur áhugamál tengjast henni óbeint. „Ég hef áhuga á leikhúsi og kvikmyndum og svo finnst mér einstaklega gaman að ferðast út fyrir landsteinana og skoða hvað er í gangi annars staðar í heiminum í listinni. Einnig finnst mér virkilega gaman að skoða fallega garða og taka inn menningu annarra landa og njóta hennar. England er í miklu uppáhaldi hjá okkur hjónum því þar er svo margt að skoða og margir listasalir í London. Við fórum til dæmis að skoða Yoko Ono síðasta sumar svo við erum alltaf að gera eitthvað. Ég ferðast til að skoða hvað aðrir eru að gera, en það er meira til að staðsetja sjálfa mig frekar en að ég sé að sækja mér innblástur til annarra,“ segir hún.
Hún segist ekki beint vera að sækja sér innblástur erlendis heldur komi hann yfir sig í bylgjum. „Hugmyndirnar mínar eru einhvers konar sameiginleg hugrenningatengsl sem ég fæ í bylgjum. Ég var náttúrlega pönkari og er það í raun enn, maður breytist ekkert. Ég er svo heppin að vera fædd á þeim tíma sem mikil gerjun var í tónlistinni og frelsisbyltingin að eiga sér stað. Ég hlusta mikið á tónlist þegar ég vinn, ein hugmynd leiðir af annarri og raunin er sú að ég fæ mjög mikið af hugmyndum þótt ég nái ekki að vinna þær allar. Maður verður eiginlega bara lostinn hugmyndinni.“
Þegar hún er spurð hvort hún ætli að hlusta á harmóníkutónlist á elliheimilinu þá dæsir hún og svarar mjög ákveðið nei! „Ég mun hlusta á eitthvað skemmtilegt á Spotify. Mín kynslóð hefur ekki smekk fyrir þessari tónlist. Það er eins og allt eldra fólk hafi verið fætt árið 1932. Við sem eldumst breytumst ekki frá því sem við erum bara við það að eldast – úr pönki yfir í harmóníkutónlist – færibandið virkar ekki þannig. Ég meina Vivienne Westwood var idolið mitt og ég var líka hippi.“
Eins og áður segir þá er Þórunn alls ekki sest í helgan stein því nýverið opnaði hún sýningu á Listasafninu á Akureyri í Gilinu, en sýningin, sem er í raun innsetning, verður opin frá 25. janúar til 4. maí.
„Verkið er sett saman úr yfir 100 slæðum sem ég hef fengið héðan og þaðan, en slæður hafa alltaf heillað mig. Slæðan hefur verið tákn fyrir allt mögulegt frá örófi alda. Saga og tilurð hennar byrjar náttúrlega fyrst sem skjól um höfuðið, hálsinn og herðarnar en einnig er hún oft bundin til að halda á börnum, hún þjónar líka þeim tilgangi að setja hönd í fatla. Ég brotnaði og meiddi mig oft í æsku og var því oft með slæðu sem krakki. Bæði nunnur og hjúkkur nota slæður og svo er hún notuð af mörgum konum til að halda hárinu í skefjum. Ég man líka eftir því að klútur sem maður batt aftur fyrir bak hafi verið notaður sem poki til að tína kartöflur. Nú og svo eru þær eru líka ákveðið stöðutákn og þjóðfélagslegt fyrirbæri eins og í löndum þar sem konur hylja andlit sitt. Slæðan er ótrúlega persónuleg og mér finnst gaman að velta fyrir mér hvers konar lit og mynstur konur velja. Margir eiga líka minningar af slæðunum sem mamma eða amma notuðu.“
Þórunn segist hafa safnað slæðum alla ævi en í þessari sýningu notaði hún ekki sínar eigin heldur slæður sem hún fékk héðan og þaðan. „Í innsetningunni nota ég líka ilmvötn sem ég fékk einnig frá hinum og þessum konum. Listaverkið er í raun ilmveggur, svona ferskur andvari,“ segir Þórunn að lokum.