„Við erum ótrúlega stolt af því sem við höfum áorkað á stuttum tíma“

Heimili | 22. febrúar 2025

„Við erum ótrúlega stolt af því sem við höfum áorkað á stuttum tíma“

Elísabet Helgadóttir er eigandi verslunarinnar VEST ásamt eiginmanni sínum, Pétri Frey Péturssyni. VEST sérhæfir sig í húsgögnum og innanstokksmunum en verslunin endurspeglar ástríðu hjónanna fyrir fallegri og tímalausri hönnun. Þau hafa komið sér vel fyrir í parhúsi í Vesturbænum. Hennar uppáhaldshorn er stofan sem er orðin hjarta heimilisins.

„Við erum ótrúlega stolt af því sem við höfum áorkað á stuttum tíma“

Heimili | 22. febrúar 2025

Litapallettan í stofunni er hlýleg, stílhrein og nútímaleg. Gólfsíðu gardínurnar …
Litapallettan í stofunni er hlýleg, stílhrein og nútímaleg. Gólfsíðu gardínurnar eru í miklu uppáhaldi hjá Elísabetu og einnig gólfljósið frá Michael Anastassiades. Málverkið sem sést rétt glitta í á veggnum er málað af Guðrúnu Einarsdóttur. Ljósmyndir/Dóra Dúna

Elísabet Helgadóttir er eigandi verslunarinnar VEST ásamt eiginmanni sínum, Pétri Frey Péturssyni. VEST sérhæfir sig í húsgögnum og innanstokksmunum en verslunin endurspeglar ástríðu hjónanna fyrir fallegri og tímalausri hönnun. Þau hafa komið sér vel fyrir í parhúsi í Vesturbænum. Hennar uppáhaldshorn er stofan sem er orðin hjarta heimilisins.

Elísabet Helgadóttir er eigandi verslunarinnar VEST ásamt eiginmanni sínum, Pétri Frey Péturssyni. VEST sérhæfir sig í húsgögnum og innanstokksmunum en verslunin endurspeglar ástríðu hjónanna fyrir fallegri og tímalausri hönnun. Þau hafa komið sér vel fyrir í parhúsi í Vesturbænum. Hennar uppáhaldshorn er stofan sem er orðin hjarta heimilisins.

„Við erum ótrúlega stolt af því sem við höfum áorkað á stuttum tíma. Það hefur verið langt og strangt ferðalag að koma búðinni á þann stað sem hún er í dag og það hefur sannarlega reynt á. Það krefst mikillar þrautseigju, vinnu og ástríðu að vera í eigin rekstri,“ segir Elísabet.

Þau Elísabet og Pétur búa í parhúsi í Vesturbænum ásamt átta ára dóttur og tveggja ára gömlum hundi. „Hann heldur okkur í góðu formi og það er ekki hægt að vakna í vondu skapi með þeim snillingi.“

Hjónin fengu lyklana að húsinu fyrir um ári og hafa verið í miklum endurbótum síðan. Fjölskyldan flutti inn í ágúst á síðasta ári og hefur nýlokið við stærstu framkvæmdirnar. Elísabet er ánægð með afraksturinn en segir heimili þó vera stöðugt verkefni og alltaf sé hægt að bæta og fegra.

Brennandi áhugi á hönnun

„Áhugamál mín eru margvísleg og endurspegla bæði persónulega og faglega ástríðu mína. Hönnun og húsgögn eru stór hluti af lífi mínu, bæði í starfi og einkalífi,“ segir Elísabet. Hún hefur brennandi áhuga á að fylgjast með hönnun og finnur fyrir mikilli gleði þegar hún skapar falleg og heimilisleg rými. „Það er líklega alveg galið hversu miklum tíma ég eyði í að skoða húsgögn og falleg rými til að fá innblástur.“

Fjölskyldan ferðast einnig mikið og eru ferðalögin stór hluti af lífi þeirra. „Við ferðumst mikið saman sem fjölskylda, oft þá vinnunnar vegna en það er mikilvægt að hitta fólkið á bak við vörumerkin okkar og framleiðslustaði þeirra svo eitthvað sé nefnt. Einnig eru margar sýningar árlega, til dæmis í Mílanó, Kaupmannahöfn og París. Ferðalög auðga líf okkar og gefa mér nýtt sjónarhorn á heiminn, hönnun og list.“

Elísabet spáir einstaklega mikið í innanhússhönnun enda er það starf …
Elísabet spáir einstaklega mikið í innanhússhönnun enda er það starf hennar og áhugamál. Ljósmynd/Dóra Dúna

Fjölskyldan valdi að búa í hjarta borgarinnar til að viðhalda þeirri stórborgarupplifun sem þau nutu áður erlendis, til dæmis í London, þar sem þau bjuggu um tíma. „Lífið í miðbænum býður upp á einstakt tækifæri til að vera í nánu sambandi við það líf og menningu sem stórborgir hafa upp á að bjóða. Við njótum þess að hafa aðgang að fjölbreyttu úrvali af kaffihúsum, veitingastöðum og verslunum í næsta nágrenni auk þess að vera í stuttri fjarlægð frá helstu söfnum og menningarstofnunum. Svo er skóli dóttur okkar í hundrað metra fjarlægð frá heimilinu, sem er stærsti lúxusinn.“

Stofan er hjarta heimilisins

Uppáhaldsrými Elísabetar á heimilinu er stofan. „Það stafar kannski vegna þess að við nýtum hana svo ótrúlega mikið, sem er gjörólíkt því hvernig það var í fyrra húsi okkar. Þar var stofan lítið notuð en hér er hún hjarta heimilisins. Eitthvað sem ég hefði aldrei trúað að ég myndi segja er að ég er alveg yfir mig ánægð með gólfsíðu gardínurnar okkar. Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifin af gólfsíðum gardínum áður, en hér passa þær fullkomlega og gera stofuna svo hlýlega,“ segir Elísabet.

Gólfljósið í stofunni er frá Michael Anastassiades.

„Mér finnst það alveg stórkostlegt. Maðurinn minn valdi það og þá þykir mér sérstaklega vænt um það fyrir vikið. Það setur alveg punktinn yfir i-ið í stofunni. Svo má ekki gleyma að Ási, litli ferfætlingurinn okkar, elskar gólfteppi og er sérstaklega ánægður með mottuna okkar frá Volver Studios. Það er norskt vörumerki sem framleiðir hágæða ullarmottur sem handofnar eru á Indlandi. Þótt stofan sé nokkuð fullkomin í dag þá er hún í stöðugri þróun rétt eins og lífið sjálft. Við hlökkum til að sjá hvaða minningar og upplifanir eiga eftir að eiga sér stað hér á næstu árum.“

Tokio-sófinn frá Arflex prýðir stofuna á móti ljósum veggjum og …
Tokio-sófinn frá Arflex prýðir stofuna á móti ljósum veggjum og ljósum gardínum. Ljósmynd/Dóra Dúna
mbl.is