Hinn 28 ára Jón Foss Guðmundsson hefur búið í Japan um nokkurra ára skeið og líkar það vel. Hann segist fyrst hafa heillast af japanskri menningu í kringum tíu til tólf ára aldurinn.
Hinn 28 ára Jón Foss Guðmundsson hefur búið í Japan um nokkurra ára skeið og líkar það vel. Hann segist fyrst hafa heillast af japanskri menningu í kringum tíu til tólf ára aldurinn.
Hinn 28 ára Jón Foss Guðmundsson hefur búið í Japan um nokkurra ára skeið og líkar það vel. Hann segist fyrst hafa heillast af japanskri menningu í kringum tíu til tólf ára aldurinn.
„Það fór mjög fljótt út í það að ég sótti ýmis tungumálanámskeið. Áhuginn jókst með aldrinum og ég endaði í háskólanámi í japönsku.“
Hvenær fluttist þú erlendis?
„Ég flutti fyrst til Noregs, en ég kláraði menntaskóla á Íslandi og langaði eftir það að prófa að búa erlendis. Ég fór nám í japönsku við háskólann í Bergen en ég hef góða tengingu þangað. Móðir mín er norsk og hún ólst upp í Voss sem er nálægt Bergen, það tekur um eina klukkustund að fara á milli í lest. Mér fannst því tilvalið fyrir mig að fara á kunnulegar slóðir, og mér leist vel á japönsku deildina við skólann.
Ég hafði aldrei áður búið í Noregi svo að mér fannst mjög spennandi að fá að prófa að búa þar. Frá háskólanum fór ég í árslangt skiptinám til Japans, árið 2019 til 2020. Þegar ég kláraði skólaárið þar, þá vissi ég að mig langaði að fara aftur og vera í lengri tíma. Þá fór ég af stað að leita leiða, þar til að ég fann námið sem ég er í núna. Ég flutti aftur til Japans í mars árið 2022 og hóf þar nám í stjórnun, tengt ferðaþjónustu og móttöku gesta, með áherslu á alþjóðlega stjórnun.“
Hvar hefurðu búið í Japan?
„Í skiptináminu bjó ég í borginni Hakodate sem er á eyjunni Hokkaido. Það var yndislegt að búa þar og allt önnur upplifun en að búa á stór Tokyo svæðinu, þar sem ég bý núna. Í dag bý ég í Ichikawa borg í Chiba héraðinu sem er staðsett rétt fyrir utan Tokyo.“
Hvernig var að búa í Hakodate?
„Mér fannst alveg æðislegt að búa í Hakodate, og ég held að það að eiga mína fyrstu reynslu af Japan í Hakodate hafi verið það sem olli því að ég ákvað að koma mér aftur til landsins. Það er svo ótrúlega mikill munur á lífinu þar og á Tokyo svæðinu, ég eiginlega veit ekki hvar ég ætti að byrja. Það er hægari taktur á lífinu í Hakodate, það er heldur ekki þessi mannmergð sem einkennir Tokyo. Ég fór nýverið í hálfgerða pílagrímsferð til Hakodate og það sem kom mér mest á óvart var að eftir klukkan rúmlega tíu á kvöldin var algjör þögn á götunum, nú hef ég vanist sírenum og bílanið langt fram eftir nóttu, þannig að ég átti bara næstum því erfitt með að sofna. Ég myndi hiklaust mæla með eyjunni Hokkaido fyrir fólk til að heimsækja, þar er ekki bara gríðarleg náttúrfegurð heldur er eyjan sneisafull af menningu, ferðamannastöðum og ótrúlega góðum mat.“
Hvernig fílarðu Japana?
„Ég elska Japana, ég kann sérstaklega að meta hvað þeir eru skipulagðir og metnaðargjarnir. En þeir kunna líka að sleppa sér og hafa gaman. Það getur hins vegar verið erfitt að mynda tengsl og eignast vini hér, en ég hef verið mjög heppinn í þeim málum og hef náð að eignast marga mjög góða vini.“
Hefurðu fengið einhverjar heimsóknir frá vinum eða fjölskyldu?
„Foreldrar mínir og önnur systir mín komu til mín sumarið 2019 og við vörðum nokkrum dögum hér í Tokyo áður en við fórum upp til Hokkaido. Svo jólin árið 2023 komu vinkona mín og kærasti hennar til mín og við áttum saman rosalega notaleg jól í Tokyo.“
Talarðu reiprennandi japönsku?
„Já, ég hef náð upp ágætis færni eftir japönskunámið og eftir að hafa flutt hingað. Ég er stoltur að segja frá því að ég náði JLPT N2 stöðuprófinu í fyrra.“
Er eitthvað um landið sem gæti komið fólki á óvart?
„Margir vita eflaust að í Japan er vinstri umferð en það vita kannski ekki allir að þetta gildir líka um gangandi vegfarendur. Þá sérstaklega í rúllustigum eða stigum. Ég lenti oft í því þegar ég kom hingað fyrst, að ég stæði vitlausu megin, alveg óvart og þá er maður alveg einstaklega mikið fyrir. En svo er frekar fyndið að í borginni Osaka er hægri umferð í rúllustigum.“
Hver eru uppáhalds hverfin þín í Tokyo?
„Minn allra uppáhalds staður í Tokyo er Meiji Jingu hofið og skógurinn í kringum það, ef það væri ekki fyrir einstaka sírenuvæl þá myndi mann aldrei gruna að maður væri staddur í miðborg Tokyo.“
„Uppáhalds hverfið mitt í Tokyo held ég að yrði samt að vera Kagurazaka. Þar er svo mikið af litlum götum sem er gaman að skoða. Hverfið er í grunnin mjög hefðbundið, en það er mjög mikið af frönsku fólki búsett þar, sem setur mjög flottan blæ á svæðið. Asakusa er líka mjög skemmtilegt hverfi. Þar er Sensō-ji búddahofið, sem merkilegt nokk er eldra en byggð á Íslandi. Svæðið í kringum hofið er fullt af minjagripabúðum, veitingastöðum og börum og er oft mjög líflegt næturlíf þar. Þó að það sé yfirleitt mikið af túristum í hverfinu þá finnst mér alltaf jafn gaman að koma þangað. Þaðan er svo einungis fimmtán mínútna ganga yfir á Kappabashi stræti og þar er hægt er að versla sér allt sem manni gæti mögulega dreymt um fyrir eldhúsið.“
Hvernig gengur háskólanámið þitt?
„Það gengur ótrúlega vel, ég er á þiðja ári og hlakka mikið til að klára þetta skólaár næsta vor og byrja nýjan kafla. Námið er fjögur ár og á síðasta árinu mun ég einungis taka tvo áfanga. En það er samt alls ekkert frí af því að síðasta árið er helgað atvinnuleit, með tilheyrandi samkeppni samnemenda.
Uppbygging námsins er frekar frábrugðin því sem ég var vanur frá því á Íslandi eða í Noregi en ég hef mjög gaman af því og hef lært mikið. Samskipti nemenda og kennara eru afar formleg og þau eru í mjög föstum skorðum. Almennt ríkja mikil formlegheit í náminu og ég hef til að mynda ekki séð flesta af kennurum mínum klædda í neitt annað en jakkaföt.“
Hver er þinn uppáhalds japanski matur?
„Ég á svo erfitt með að velja svona, en ef ég þyrfti að nefna einn rétt þá held ég að ég verði að velja Katsudon. Katsudon rétturinn samanstendur af djúpsteiktu katsu svínakjöti sem er svo steikt í guðdómlegri ommelettu, með lauki og smá dashi soði, yfir rjúkandi skál af hrísgrjónum.“
Sérðu fyrir þér að búa lengur í Japan?
„Ég sé fyrir mér að vera hér eins lengi og ég mögulega get, allavega sé ég mig ekki fyrir mér á neinum öðrum stað á næstunni,“ segir Jón.