Sum börn ekki mætt í skólann í tvö ár

Skólakerfið í vanda | 8. apríl 2025

Sum börn ekki mætt í skólann í tvö ár

Skólaforðun barna í íslenskum grunnskólum er viðamikið vandamál sem virðist færa sig niður í yngstu bekki grunnskóla. Til eru dæmi þar sem börn allt niður í fyrsta bekk mæta ekki í skólann í lengri tíma.

Sum börn ekki mætt í skólann í tvö ár

Skólakerfið í vanda | 8. apríl 2025

Vandinn virðist færa sig niður í yngri bekki grunnskóla þar …
Vandinn virðist færa sig niður í yngri bekki grunnskóla þar sem erfiðara er að grípa inn í áður en orðið er um seinan. mbl.is/Karítas

Skólaforðun barna í íslenskum grunnskólum er viðamikið vandamál sem virðist færa sig niður í yngstu bekki grunnskóla. Til eru dæmi þar sem börn allt niður í fyrsta bekk mæta ekki í skólann í lengri tíma.

Skólaforðun barna í íslenskum grunnskólum er viðamikið vandamál sem virðist færa sig niður í yngstu bekki grunnskóla. Til eru dæmi þar sem börn allt niður í fyrsta bekk mæta ekki í skólann í lengri tíma.

Kennarar, skólastjórnendur og fagfólk upplifa mikið úrræðaleysi í málaflokknum þar sem of seint er gripið inn í og málin komin á alvarlegri stig þar sem erfiðara er að glíma við þau.

Þetta segir Sigrún Harðardóttir, dósent í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið en hún vinnur að rannsókn í samstarfi við starfsfólk barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL) um skólaforðun barna í íslenskum grunnskólum.

Vandinn hefur verið lítið rannsakaður hér á landi en Sigrún segir að skólaforðun hafi verið til staðar allt frá því að nútímaskólakerfi var sett á laggirnar og virðist vandinn vera vaxandi.

Skráningu ábótavant í íslenskum skólum

Skólaforðun lýsir sér í meðvitaðri eða ómeðvitaðri hegðun sem barn eða unglingur sýnir þegar mæta á í skólann. Hegðunin birtist í erfiðleikum með að sækja skóla hvort sem það er hluta úr degi, í ákveðnar kennslustundir eða til lengri eða skemmri tíma.

Árið 2019 sýndi rannsókn Velferðarvaktarinnar að gera mætti ráð fyrir að 2,2% grunnskólanema glími við skólaforðun hér á landi. Sigrún segir að talan sé líklega mun hærri þar sem skólar virðast eiga í erfiðleikum með að halda utan um fjarvistaskráningar barna.

Bendir hún á að á Norðurlöndunum hafa sambærilegar rannsóknir sýnt að skólaforðun grunnskólanema sé í kringum 3 til 5 prósent.

„Ég held að þetta snúi að því að víða er skráningu nemenda ábótavant í íslenskum grunnskólum. Það virðist vera erfitt fyrir skólana að halda utan um þetta þar sem þau vita ekki hvað eigi að skrá sem fjarvist, hvað er skólaforðun og svo framvegis,” segir Sigrún.

Sigrún Harðardóttir, dósent í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands.
Sigrún Harðardóttir, dósent í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Kalla eftir fagfólki

Í rannsókninni voru tekin viðtöl í rýnihópum við stjórnendur og kennara í grunnskólum borgarinnar og við fagfólk á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Í viðtölunum kom skýrt fram að úrræðaleysi ríki í málaflokknum þar sem gripið sé inn í vanda barnanna of seint.

„Starfsfólk skólanna upplifir þetta sem mikla vanlíðan, félagslega einangrun og hræðslu. Þeir sjá að skólasóknarvandinn sé að færast neðar í aldri. Fyrir einhverjum árum voru þetta meira efri bekkir grunnskóla en nú er þetta komið alveg niður í fyrsta bekk,” segir Sigrún.

Hún segir kennara upplifa skólaforðun sem mikla áskorun að takast á við og kalla þeir eftir fleira fagfólki inn í skólana líkt og félagsráðgjafa, þroskaþjálfa og iðjuþjálfa. Þá lýstu skólastjórnendur mikilvægi þess að bekkjarstjórnun sé góð þar sem stuðlað sé að eflingu félagslegra tengsla nemenda til að koma í veg fyrir einelti og útilokun nemenda úr hópnum.

Þá hafi kennarar einnig nefnt að húsnæðisskortur, lítill tími og togstreita í samskiptum við foreldra geri það erfiðara fyrir þá að takast á við vandann. Lýstu þeir jafnframt yfir óánægju með viðbrögð kerfisins þar sem of langur tími líði þar til fagfólk grípur inn í málin.

Upplifa úrræðaleysi

„Samkvæmt farsældarlögum á að reyna leysa vandann á fyrsta stigi en ef það tekst ekki fara þau upp á annað stig til velferðarþjónustu. Þar kemur fram að þau [börnin] séu að koma of seint þangað og þá eru þau [vandamálin] orðin svo flókin.

Þau upplifa svolítið úrræðaleysi með þessi mál, bæði á velferðarsviði og í skólunum, þar sem grípa þarf miklu fyrr inn í málin,” segir Sigrún og bætir við að oft séu málin orðin svo þung þegar þau koma á borð velferðarþjónustunnar að þeirra úrræði ná ekki utan um vandann.

„Dæmi eru um börn sem hafa ekki mætt í skólann í tvö ár og þá eru þau komin á þriðja stigs þjónustu eins og BUGL. Það eru mörg mjög þung mál þar og erfitt að snúa þessu við.”

Foreldrar orðnir ráðþrota

Sigrún tekur einnig fram að skólaforðun sé afar þungbær fyrir foreldra barnanna sem upplifi einnig mikið úrræðaleysi.

Í viðtölunum við kennara og fagfólk velferðarsviðs kom fram að margir foreldrar hafa keyrt sig í þrot vegna stöðu barnsins þar sem margir reyna að aðlaga vinnu sína til þess að geta verið heima með barnið. Til dæmis með því að sækjast eftir fjarvinnu.

„Við tölum oft um það í rannsóknum á þessum hópum að við séum að búa til þung og erfið mál á heilbrigðiskerfið með því að bregðast ekki fyrr við.”

mbl.is