Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur lagt fram tillögu um aukin framlög með börnum sem sækja leik- eða grunnskólanám í sjálfstætt starfandi skólum í Reykjavík.
Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur lagt fram tillögu um aukin framlög með börnum sem sækja leik- eða grunnskólanám í sjálfstætt starfandi skólum í Reykjavík.
Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur lagt fram tillögu um aukin framlög með börnum sem sækja leik- eða grunnskólanám í sjálfstætt starfandi skólum í Reykjavík.
Framlög eru í dag lægri með börnum sem sækja sjálfstætt starfandi skóla en með þeim sem sækja borgarrekna skóla. Vill Sjálfstæðisflokkurinn jafna þessi framlög óháð rekstrarformi skólanna.
Tillagan er á dagskrá borgarstjórnarfundar í dag.
„Rekstrarumhverfi sjálfstætt starfandi skóla í Reykjavík er erfitt, enda greiðir borgin skert menntunarframlag með þeim börnum sem sækja nám í þessum skólum. Þetta hefur leitt til þess að foreldrar þurfa að greiða skólagjöld, sem þó duga ekki til að bæta þann fjárhagslega mismun sem ríkir milli skóla í opinberum rekstri annars vegar og sjálfstæðum rekstri hins vegar,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.
Tillaga sjálfstæðismanna gengur út á að tryggja jöfn opinber framlög með öllum börnum sem sækja leik- eða grunnskólanám í Reykjavík, óháð rekstrarformi skólanna. Þeir sjálfstæðu skólar sem myndu þiggja fullt framlag myndu þá ekki innheimta skólagjöld eða sérstakar álagsgreiðslur í tilfellum sjálfstæðra leikskóla.
„Við teljum það réttlætismál að sama menntunarframlag fylgi hverju barni í skólakerfinu. Með þeim hætti þyrftu sjálfstæðir skólar ekki að innheimta skólagjöld, ryðja mætti úr vegi hindrunum í rekstri sjálfstæðra skóla og gera mætti fjölbreyttari hópi barna kleift að sækja þessa skóla, enda yrði efnahagur foreldra ekki lengur ákvarðandi forsenda við skólaval. Þetta er ein leið til þess að tryggja jöfn tækifæri,“ segir Hildur.
Hildur segir marga sjálfstætt starfandi skóla standa illa um þessar mundir. Skert framlög leiði til erfiðleika í rekstri sem ógnað geti því mikilsverða skólastarfi sem byggt hefur verið upp í Reykjavík.
„Sjálfstæðir skólar hafa almennt reynst litrík viðbót við skólaflóruna í borginni. Þeir hafa kynnt til leiks nýstárlega hugmyndafræði, nýjar framsæknar skólastefnur og veitt foreldrum fleiri valkosti í skólamálum. Við þurfum að standa vörð um fjölbreytta valkosti og möguleika fólks til að velja milli ólíkra áherslna í uppeldi og menntun barna sinna.“