Viðhorf til náms annað og framlag foreldra meira

Skólakerfið í vanda | 9. apríl 2025

Viðhorf til náms annað og framlag foreldra meira

Viðhorf til náms er talsvert annað í Eistlandi en hér á landi og þá leggja íslenskir foreldrar að því er virðist minna af mörkum við nám barna sinna en eistneskir.

Viðhorf til náms annað og framlag foreldra meira

Skólakerfið í vanda | 9. apríl 2025

Kristina Kallas, menntamálaráðherra Eistlands, segir Eista leggja mikið af mörkum …
Kristina Kallas, menntamálaráðherra Eistlands, segir Eista leggja mikið af mörkum í menntun barna sinna. mbl.is/Karítas

Viðhorf til náms er talsvert annað í Eistlandi en hér á landi og þá leggja íslenskir foreldrar að því er virðist minna af mörkum við nám barna sinna en eistneskir.

Viðhorf til náms er talsvert annað í Eistlandi en hér á landi og þá leggja íslenskir foreldrar að því er virðist minna af mörkum við nám barna sinna en eistneskir.

Getur verið að þarna sé að finna í það minnsta hluta af skýringunni á því að íslensk ungmenni standi sig síður í námi?

Eistneskt menntakerfi er að mörgu leyti merkilegt. Ekki aðeins fyrir þær sakir að þeir hafa staðið framar­lega í mennt­un ung­menna sem hafa stöðugt skarað fram úr í PISA-könn­un­um und­an­far­inna ára.

Aðeins eru um 30 ár síðan menntakerfið var sjálfstætt að mestu leyti frá því sem var í gömlu Sovétríkjunum en enn þann dag í dag er kerfið að hluta rússneskt og því í sjálfu sér enn á umbreytingarstigi.

Blaðamaður settist á dögunum niður með Kristinu Kallas, menntamálaráðherra Eistlands, með það fyrir augum að reyna að komast að því hvað Eistar væru að gera í menntamálum sem Íslendingar eru kannski ekki að gera.

Menntun félagsleg lyftistöng

Talið berst að aðstæðum heima fyrir. Kallas segir aðstæður eistneskra fjölskyldna ekkert endilega verri en hjá fjölskyldum í öðrum Evrópuríkjum. Ástæða þess að krakkar þar leggi meira á sig en krakkar annars staðar sé ekki viðleitni þeirra til að losna úr slæmum aðstæðum.

Ráðherrann segir þó að menntun hafi ætíð verið talin félagsleg lyftistöng í Eistlandi. Eistum líði sem þeir þurfi að menntast til að verða eitthvað.

Gæti verið að þetta sé hluti af skýringunni á því að íslensk ungmenni standi sig síður í námi – viðhorfið til náms?

Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi ráðherra, á alþjóðleg­um leiðtoga­fundi um mál­efni kenn­ara, …
Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi ráðherra, á alþjóðleg­um leiðtoga­fundi um mál­efni kenn­ara, ISTP en Kristina Kallas var hér á landi í tengslum við fundinn. mbl.is/Karítas

„Ég get verið buxnalaus“

Kallas segir að í langan tíma hafi Eistar viðhaft þann hugsunarhátt að ef fólk komi börnum sínum í gegnum nám muni þeim ganga vel og jafnvel betur en foreldrum sínum.

„Þetta viðhorf hefur sterkar samfélagslegar rætur. Fólk leggur mikið í menntun barna sinna. Við eigum orðatiltæki í Eistlandi sem gæti útlistast einhvern veginn svona: „Ég get verið buxnalaus en sonur minn skal menntast.“ Á þeim tíma var það sonur en þetta er gamalt orðatiltæki svo nú er það auðvitað hvort tveggja.“

Segir ráðherrann raunar að á bak við góðar niðurstöður í PISA-könnunum sé framlag foreldra umtalsvert.

Kannski er þar fundin önnur skýring á því að íslensk ungmenni standi sig síður í námi – foreldrar gefi sér ekki tíma til að vera til staðar í námi barna sinna.

Menntunin hefur vinninginn

Við ræðum freistnivanda ungmenna sem vilja kannski frekar fara á vinnumarkað strax eftir grunnskóla en að fara í framhaldsskóla. Fá útborgað um hver mánaðamót því það kostar að vera ungmenni á Vesturlöndum.

Kallas segir það vissulega rétt að til skemmri tíma litið hafi ungmenni meira upp úr því að fara sem fyrst út á vinnumarkað en til lengri tíma litið sýni rannsóknir að menntunin sigri.

„Hin menntuðu eiga meiri lífslíkur, eiga meiri líkur á að vera lengur við góða heilsu, heilbrigðiskostnaður þeirra er lægri og til lengri tíma litið hafa þau hærri tekjur.“

Segir hún þær tekjur aukast stöðugt í gegnum starfsferilinn á meðan þau sem fara strax að vinna, t.d. í byggingarvinnu eða í verslunargeiranum auki tekjur sínar einnig í gegnum starfsferilinn en svo um fimmtugt fari starfsorka að minnka og fólkið getur kannski unnið færri tíma á viku á byggingarsvæðinu.

Fólkið glati hæfileikanum til náms og því sé erfitt að endurþjálfa það á þessum aldri.

Lengdu skólaskylduna

„Auðvitað er erfitt að útskýra þetta fyrir 16 ára ungmenni svo við brugðum á það ráð í Eistlandi að lengja skólaskylduna til 18 ára aldurs. Þá komum við í veg fyrir að margir nemendur hættu að loknum grunnskóla.“

Segir ráðherrann vandamálið hafa sérstaklega snúið að strákum sem vildu fara á vinnumarkað.

„Við þurfum líka til að komast fyrir það vandamál að um 70% háskólanema eru konur. Konur verða þá of menntaðar og líta síður við körlum sem eru síður menntaðir sem skapar ákveðið lýðfræðilegt vandamál.

Við þurfum að koma strákum í gegnum framhaldsskólann og svo í gegnum háskólann og jafna þetta hlutfall.“

mbl.is