„Þetta var mjög skemmtileg sumargjöf“

Leikskólamál | 24. apríl 2025

„Þetta var mjög skemmtileg sumargjöf“

Ný ungbarnadeild verður opnuð á Seltjarnarnesi í sumar. Þetta staðfestir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarness. Til stóð að efla dagforeldrastarf í bænum en að sögn bæjarstjóra var opnun nýrrar deildar heppilegri kostur.

„Þetta var mjög skemmtileg sumargjöf“

Leikskólamál | 24. apríl 2025

„Deildin mun opna og ég er búinn að láta foreldrahópinn …
„Deildin mun opna og ég er búinn að láta foreldrahópinn vita – þar eru allir alsælir með þetta. Þetta var mjög skemmtileg sumargjöf sem var send til þessa foreldrahóps í gær,“ segir bæjarstjórinn. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/mbl.is/Golli

Ný ungbarnadeild verður opnuð á Seltjarnarnesi í sumar. Þetta staðfestir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarness. Til stóð að efla dagforeldrastarf í bænum en að sögn bæjarstjóra var opnun nýrrar deildar heppilegri kostur.

Ný ungbarnadeild verður opnuð á Seltjarnarnesi í sumar. Þetta staðfestir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarness. Til stóð að efla dagforeldrastarf í bænum en að sögn bæjarstjóra var opnun nýrrar deildar heppilegri kostur.

Íbúar á Seltjarn­ar­nesi hafa haft mikl­ar áhyggj­ur af dag­vist­unar­úr­ræðum barna sinna og sagt sér­stak­lega brýnt að bregðast við skorti á úrræðum fyr­ir yngstu börn­in. Efnt var til undirskriftarsöfnunar vegna málsins en ekk­ert dag­for­eldri hefur verið starf­andi á Seltjarn­ar­nesi og fjöl­skyld­ur hafa ekki leng­ur aðgang að úrræðum í Reykja­vík. Útlit var því fyrir að börn sem fædd eru fyrri hluta árs­ins 2024 fengju ekki leik­skóla­pláss fyrr en um haustið 2026, orðin 28-30 mánaða göm­ul.

Í samtali við mbl.is segir bæjarstjórinn eflingu dagforeldrastarfs bæjarins hafa verið „plan A“ og „plan B“ hafi verið að opna deildina, manna hana og taka inn 16 börn.

„Þetta staðfesti bæjarstjórn Seltjarnarness í gær að tillögu meirihluta Sjálfstæðismanna. Deildin mun opna og ég er búinn að láta foreldrahópinn vita – þar eru allir alsælir með þetta. Þetta var mjög skemmtileg sumargjöf sem var send til þessa foreldrahóps í gær.“

„Við getum tekið fleiri börn inn í sumar en til stóð“

Þór segir opnun deildarinnar hafa orðið fyrir valinu vegna nýrra reglna frá gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála sem hann hafi ekki þekkt til áður.

„Það eru komnar nýjar reglur sem koma í veg fyrir að við gætum tekið fleiri en tíu börn inn á þessa deild, ef við hefðum farið dagforeldraleiðina, það hefti okkur svolítið. Ég hélt að við gætum haft kannski þrjá dagforeldra með fimm börn hver – en nú er það þannig að dagforeldri með meira en ársreynslu má hafa fimm börn en nýliðar eingöngu fjögur börn.

Við fengjum aldrei leyfi fyrir fleiri en tvo dagforeldra í þetta húsnæði, þetta eru reglur frá gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála sem ég þekkti ekki. Þannig að plan B var mikið heppilegra, til að fullnýta húsnæðið.“

Segir hann vinnuna þegar hafna við að undirbúa starfsauglýsingar, klára útisvæðið og aðlaga deildina að yngstu börnunum.

Aðspurður segist hann eiga von á að deildin opni eftir sumarleyfi og fyrstu börn verði tekin inn í ágúst mánuði.

„Við getum tekið fleiri börn inn í sumar en til stóð. Ég á fastlega von á því að fyrstu börnin verði tekin inn í ágúst en annars er ekkert mikið sem þarf að gera til að opna deildina,“ segir hann, útfærslur verði skoðaðar nánar á næstu dögum.

Stefnt að útboði á nýrri leikskólabyggingu

Spurður hvernig hann sér fyrir sér framhaldið í þróun leikskólamála á Seltjarnarnesi segir bæjarstjórinn að fyrirhugað sé að fara í útboð á nýrri leikskólabyggingu, sem hafi verið kosningaloforð Sjálfstæðismanna.

„Við ætlum að reyna að stefna að útboði á henni í maí. Það tekur eitt og hálft ár að byggja það en þegar það hús er risið verða þar átta deildir, þá náum við aldrinum ansi vel niður – eins nálægt tólf mánaða inntöku og mögulegt er.“

Þá segir hann árferði hafa verið sérstaklega erfitt nýlega vegna þess að Reykjavíkurborg hafi sett skilyrði á einkarekin úrræði í Reykjavík, sem borgin gefi starfsleyfi, að öll börn verði að vera með lögheimili í Reykjavík.

„Þetta hefur farið ansi hljótt en þess vegna erum við allt í einu komin með mikið lengri biðlista en hefði kannski þurft að vera. Okkur var ekkert tilkynnt um þetta, eða neinu öðru sveitarfélagi. Þetta kom svolítið aftan að okkur.“

mbl.is