Eurovision-partí sprengja snakksöluna

Eurovision | 14. maí 2025

Eurovision-partí sprengja snakksöluna

Ísland komst áfram í úrslitakeppni Eurovision í gærkvöldi og því fagna margir, þá kannski ekki síst kaupmenn, en mikið hefur verið um aukapantanir á snakki og ídýfum í matvöruverslanir fyrir laugardagskvöldið þegar úrslitakeppnin fer fram.

Eurovision-partí sprengja snakksöluna

Eurovision | 14. maí 2025

Úrslitakeppni Eurovision er á laugardag og má búast við að …
Úrslitakeppni Eurovision er á laugardag og má búast við að haldin verði ófá teiti þar sem boðið verður upp á snakk og ídýfur. Samsett mynd mbl.is/Eggert/Ljósmynd/Iðnmark ehf.

Ísland komst áfram í úrslitakeppni Eurovision í gærkvöldi og því fagna margir, þá kannski ekki síst kaupmenn, en mikið hefur verið um aukapantanir á snakki og ídýfum í matvöruverslanir fyrir laugardagskvöldið þegar úrslitakeppnin fer fram.

Ísland komst áfram í úrslitakeppni Eurovision í gærkvöldi og því fagna margir, þá kannski ekki síst kaupmenn, en mikið hefur verið um aukapantanir á snakki og ídýfum í matvöruverslanir fyrir laugardagskvöldið þegar úrslitakeppnin fer fram.

Í samtali við mbl.is segir Magnús Jónsson, samlagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga, að sala á Vogaídýfum sé almennt mjög góð þá helgi sem Eurovision er haldið.

„Við höfum svo sem ekki mælt það upp á prósentur hvort það sé munur á því þegar Ísland kemst áfram eða ekki, en ég held að það muni helling samt,“ segir Magnús og bætir við að aukapantanir á ídýfunni hafi verið að berast.

„Það hafa verið að bætast við pantanir og [matvörukeðjurnar] hafa verið að stækka pantanir núna í dag.“

„Tuga prósenta munur á snakksölu þegar Ísland fer áfram“

Ólafur Rúnar Þórhallsson rekstrarstjóri Krónunnar segir að aukapantanir stafi þó ekki einungis af Eurovision. Brakandi blíðu sé einnig spáð um helgina, sem hafi áhrif.

„Eins og staðan er núna erum við að sjá fram á einhverjar 16 gráður og sól í Reykjavík, og enn þá betra veður úti á landi, sem og að Ísland fari áfram í Eurovision. Þá sjáum við eðlilega breytingu í sölumynstri hjá okkur varðandi þessa helgi,“ segir Ólafur og heldur áfram:

„Það er grillið, það er snakkið, nammið, gosið og allt það óáfenga sem við erum að bjóða upp á líka. Þannig að þetta er bara það sem við viljum, við kaupmennirnir, við viljum bara fá Ísland áfram í Eurovision og gott veður.“

Þá nefnir rekstrarstjórinn að auðsjáanlegur munur sé einnig á snakkneyslu landans þegar Ísland kemst áfram í úrslitakeppnina, frekar en ekki.

„Það er tuga prósenta munur á snakksölu þegar Ísland fer áfram.“

50% meiri sala á snakki og ídýfum í gær

Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa, tekur í sama streng og Ólafur og segir í skriflegu svari til mbl.is að Eurovision og gott veður sé að hafa töluverð áhrif á sölu matvöruverslana Samkaupa.

„Við erum að sjálfsögðu búin að bregðast við þessu og reynum eftir fremsta magni að tryggja gott úrval og frábærar lausnir fyrir grillið og svo nóg af snakki, ídýfum og sælgæti - sem stóreykst fyrir öll Eurovison-partíin sem verða alltaf stærri þegar Ísland kemst áfram,“ segir Gunnar.

Hún segir þó að ekki sjáist mælanlegur munur á sölu milli ára eftir því hvort Ísland komist áfram í úrslitakeppnina eða ekki, líkt og sjá má hjá Krónunni. Hún nefnir þó að það sé áhugavert að undanúrslitakvöld keppninnar virðist ekki síður vinsælt þegar kemur að snakkneyslu landans en 50% meiri sala var á snakki og ídýfum í verslunum Samkaupa í gær miðað við hefðbundinn þriðjudag.

160.000 popp- og snakkpokar pantaðir á tveimur vikum

Í samtali við mbl.is segir Ingibjörg Dagbjartsdóttir, markaðsstjóri Iðnmarks ehf., sem framleiðir m.a. Stjörnusnakk og Stjörnupopp, að mikill fjöldi aukapantana hafi nú borist vegna Eurovision.

Hún segir að um 160.000 pokar hafi verið pantaðir á síðustu tveimur vikum frá matvöruverslunum, einungis fyrir keppnina, sem sé „svakaleg aukning“ á sölu fyrirtækisins.

Finnst þér vera einhver munur á því hvort Ísland kemst áfram í aðalkeppnina eða ekki?

„Við höfum ekkert alveg fundið það mikið fyrir því. Fólk er alltaf að kaupa snakk fyrir Eurovision, en það er greinilega samt búið að gera ráð fyrir því að það yrði meiri sala núna, af því að við erum búin að vera að fá aukapantanir.“

mbl.is