„Það var ekki vandi að klæða frú Vigdísi“

Fatastíllinn | 17. maí 2025

„Það var ekki vandi að klæða frú Vigdísi“

Hreinn Líndal óperusöngvari klæddi frú Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta fyrstu árin hennar í embætti. Með þeim myndaðist vinskapur sem lifir enn í dag, en hann fékk tískuhús á borð við Cerutti1881, Valentino og Hermés til að hanna og sauma fatnað á hana

„Það var ekki vandi að klæða frú Vigdísi“

Fatastíllinn | 17. maí 2025

Hreinn Líndal óperusöngvari klæddi Vigdísi Finnbogadóttur forseta við upphaf forsetatíðar …
Hreinn Líndal óperusöngvari klæddi Vigdísi Finnbogadóttur forseta við upphaf forsetatíðar hennar. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Hreinn Líndal óperusöngvari klæddi frú Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta fyrstu árin hennar í embætti. Með þeim myndaðist vinskapur sem lifir enn í dag, en hann fékk tískuhús á borð við Cerutti1881, Valentino og Hermés til að hanna og sauma fatnað á hana

Hreinn Líndal óperusöngvari klæddi frú Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta fyrstu árin hennar í embætti. Með þeim myndaðist vinskapur sem lifir enn í dag, en hann fékk tískuhús á borð við Cerutti1881, Valentino og Hermés til að hanna og sauma fatnað á hana

„Ég rak tískuhúsið H. Líndal á Skólavörðustíg á þeim tíma sem frú Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti. Þetta var í upphafi níunda áratugarins eða í kringum 1980. Verslunin á Skólavörðustíg var í anda hátískuverslana í Evrópu. Ég var í góðu sambandi við fjölmörg tískuhús í Frakklandi og á Ítalíu þar sem ég vildi bjóða upp á það besta. Í versluninni var ég með frábært úrval af vörum, mest frá Cerutti1881, en einnig vörur frá Hermés og Valentino svo eitthvað sé nefnt,“ segir Hreinn Líndal óperusöngvari sem sá um að klæða forsetann fyrstu árin hennar í embætti.

„Þegar frú Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti þá langaði mig að aðstoða hana í sambandi við klæðnað hennar, ekki síst vegna þeirra sambanda sem ég hafði við Valentino á Ítalíu, Cerutti1881 og Hermés í París. Ég hafði því samband við hana og var hún mjög þakklát fyrir það. Ég hugsa með mikilli hlýju til þessara ára og hennar Vigdísar Bjarnadóttur einnig, sem starfaði á skrifstofu forseta um langt skeið,“ segir Hreinn.

Hér eru Hreinn og Vigdís á góðri stundu.
Hér eru Hreinn og Vigdís á góðri stundu. Ljósmynd/Aðsend

Samstarfið hófst þannig að Vigdís Finnbogadóttir kom í verslunina á Skólavörðustíg þar sem þau Hreinn áttu samtal um hvað hana vantaði og hvaða opinberar heimsóknir væru á dagskrá hennar. „Ég man að ég notaði fallega ljósmynd af henni sem ég fór með utan, svo hönnuðirnir og klæðskerararnir sem ég vann með gætu séð hvernig persóna hún var,“ segir hann.

Þennan kjól valdi Hreinn á Vigdísi. Hann er frá Valentino …
Þennan kjól valdi Hreinn á Vigdísi. Hann er frá Valentino og er myndin tekin við upphaf forsetatíðar hennar. Ljósmynd/úr bókinni Vigdís - kona verður forseti

„Í mínum huga var ég að klæða drottningu“

Í fyrstu opinberu heimsókn Vigdísar, þegar Margrét Þórhildur Danadrottning bauð henni í heimsókn, vildi hann gera góðan kjól fyrir frú Vigdísi. Ekki síst þar sem hún átti að koma fram í kvöldverði þar sem yfir 200 alþjóðlegir ljósmyndarar voru boðnir að mynda viðburðinn.

„Af því tilefni fór ég til Flórens á Ítalíu, sem var miðstöð tísku og hönnunar á þeim tíma, þar sem m.a. höfuðstöðvar Valentino-tískuhússins voru á níunda áratugnum. Þar hitti ég tvær rosknar konur sem stýrðu versluninni. Þær voru mjög almennilegar og þótti þeim mikill heiður fyrir vörumerkið að fá það verkefni að hanna og sauma kjól á fyrsta kvenforseta heimsins,“ segir Hreinn og það má heyra á honum að hann var ánægður með útkomuna. „Frú Vigdís leit út eins og drottning í kjólnum, þar sem hún stóð upp í kvöldverðarboði Danadrottningar og hélt fallega ræðu eins og henni var einni lagið. Það var mikill sómi að framkomu frú Vigdísar fyrir okkur Íslendinga en í mínum huga var ég að klæða drottningu þegar ég var að klæða frú Vigdísi. Hún var einstaklega falleg kona með svo fallegan persónuleika líka. Allt sem hún tók sér fyrir hendur gerði hún af alúð og elsku og svo bar hún sig alltaf svo fallega,“ segir hann og bætir við að hún hafi fært sér vasa frá Royal Copenhagen í þakklætisskyni.

Hér er Vigdís í kjól frá tískuhúsinu Valentino sem Hreinn …
Hér er Vigdís í kjól frá tískuhúsinu Valentino sem Hreinn hannaði á hana. Ljósmynd/Úr safni Skrifstofu forseta Íslands

Það er auðséð að Hreinn er fagurkeri fram í fingurgóma. Þegar inn á heimili hans er komið tekur á móti blaðamanni sætur ilmur af Bvlgari og er Hreinn sannur höfðingi heim að sækja. Sjálfur klæðist hann að jafnaði vönduðum flíkum frá ítalska tískuhúsinu Loro Piana. Hver einasti hlutur inni á heimilinu virðist eiga sér sögu og er fagurfræðilega valinn eftir hans smekk. Stór flygill stendur á miðju stofugólfinu og býður Hreinn til sætis.

„Ég hef með einum eða öðrum hætti síðan þá haft ánægju af fallegum fatnaði og verð að viðurkenna að ég var líka með góðan smekk. Að sama skapi var ekki vandi að kæða frú Vigdísi. Það skipti mig máli að velja aðeins það besta fyrir hana og að gera samninga við tískuhúsin um að það sem væri saumað fyrir hana væri gert með hennar persónuleika í huga. Að fatnaðurinn myndi hæfa fegurð hennar og stöðu í alþjóðlegu samhengi. Eins bað ég um að kjólarnir sem væru gerðir fyrir hana væru ekki fjöldaframleiddir. Það var samþykkt og einungis búið til eitt eintak af öllu því sem var gert fyrir hana.“

Blái Valentino-kjóllinn sem var saumaður úr vatnasilki

Aðspurður um bláan silkikjól, sem eflaust margir muna eftir, sem Vigdís klæddist í upphafi ferils síns þegar hún fór í fyrstu opinberu heimsókn sína til Karls Gústafs Svíakonungs, segir Hreinn þann kjól hafa verið í miklu uppáhaldi hjá sér.

„Þessi flík kom upp í huga mér og fór ég til teymisins í Valentino og teiknaði hugmyndir mínar upp fyrir þau. Kjóllinn leit einstaklega vel út þegar þau höfðu hannað hann og útfært eftir málum frú Vigdísar og að sjálfsögðu myndinni sem ég fór með í flestir ferðir. Hann var með þykkum ermum úr flaueli, svo hún gat ekki klæðst kápu yfir kjólinn. Mér datt því í hug að láta gera möttul úr efninu, sem var vatnasilki (e. water silk). Það var gerð lítil dúkka af henni í þessum kjól, sem mér þykir vænt um að sjá frá þeim tíma,“ segir hann og bætir við að Ágúst Líndal bróðir sinn hafi unnið hjá sér í H. Líndal á þessum tíma og verið dýrmætur stuðningur.

Vigdís Finnbogadóttir og Ronald Reagan.
Vigdís Finnbogadóttir og Ronald Reagan. Morgunblaðið/RAX

„Ég man einnig eftir öðrum kjól, sem ég vildi að ég ætti góða ljósmynd af. Sá kjóll vakti mikla athygli, það var kjóllinn sem frú Vigdís klæddist þegar hún sat við hlið Nancy Reagan í brúðkaupi þeirra Díönu prinsessu og Karls Bretakonungs. Frú Vigdís var ekki mikið fyrir hatta, svo ég lét gera fallegt höfuðfat fyrir hana sem fór vel við rósótta silkikjólinn sem hún klæddist á einstakan hátt.

Eins man ég eftir fallegum jakka sem ég fann fyrir hana hjá Hermés-tískuhúsinu, þann jakka notaði hún mikið enda fór hann henni mjög vel,“ segir Hreinn.

Vigíds Finnbogadóttir varð fyrsta konan í heiminum þjóðhöfðingi í lýðræðislegri …
Vigíds Finnbogadóttir varð fyrsta konan í heiminum þjóðhöfðingi í lýðræðislegri kosningu þegar hún var kjörin forseti Íslands 28. júní 1980. Hér er hinn nýkjörni forseti á svölum heimilis síns að Aragötu 2 en mikill mannfjöldi safnaðist þar saman til að fagna henni. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Vinskapur sem hefur enst út lífið

Frá þeim tíma sem Hreinn klæddi Vigdísi Finnbogadóttur myndaðist með þeim vinskapur sem hefur haldist í gegnum árin. „Þegar ég hugsa um frú Vigdísi, þá geri ég það með hlýhug, þakklæti og virðingu í huga. Frá því við hittumst fyrst hefur alltaf haldist þessi trygga vinátta okkar á milli. Ég fór margar ferðir á Bessastaði þar sem hún bjó og umgekkst af mikilli virðingu. Hún gerði Bessastaði að sínu heimili, en þar var alltaf mikil hlýja,“ segir Hreinn og bætir við að það hafi ekki verið annað hægt en að bera virðingu fyrir Vigdísi Finnbogadóttur, hún hafi verið svo falleg kona og einstök persóna.

Hvað kenndi hún þér?

„Hún kenndi mér þakklæti, virðingu og traust. Hún var einnig fyrirmynd um vinnusemi og að gera alltaf sitt besta,“ segir Hreinn.

Hreinn Líndal og Vigdís Finnbogadóttir.
Hreinn Líndal og Vigdís Finnbogadóttir. Ljósmynd/Aðsend

Ákveðin sjálfsvirðing fólgin í því að klæða sig fallega

Það er ekki nokkur vafi í hans huga að þjóðarleiðtogar eru fulltrúar þeirra þjóða sem þeir eru kosnir fyrir. Þeir ættu að hans mati að klæða sig upp á – og reyndar allir landsmenn líka – þegar farið er í leikhús, brúðkaup eða aðra fögnuði. „Ég hugsa þetta þannig að þegar ég fer í leikhús, brúðkaup eða á aðra viðburði, þá er ég að bera virðingu fyrir mér og öðru fólki með því að klæða mig upp á, í fallegan sparifatnað.“

Vigdís Finnbogadóttir var glæsileg til fara þegar hún hitti Mikhail …
Vigdís Finnbogadóttir var glæsileg til fara þegar hún hitti Mikhail Gorbachev.

Hvernig upplifir þú klæðaburð núna miðað við þennan tíma sem við erum að ræða fyrir tæplega hálfri öld?

„Stundum finnst mér þessi virðing vera að fara úr samfélaginu. Sem dæmi þegar ég horfi á klæðaburð á Alþingi, þá finnst mér að allir karlmenn á þingi ættu að vera með bindi. Það sýnir, að mínu mati, ákveðna virðingu fyrir starfinu og þjóðinni sem veitir fólkinu brautargengi,“ segir Hreinn. Það hefur reynst honum vel um ævina að hafa farið vel með hlutina sína. „Ég er ekki mikið að kaupa mér ný föt núna, en ég á talsvert mikið af fötum í fataskápnum. Ég fylgi ekki tískustraumum, heldur er bara sá sem ég er, óháð því hvað aðrir eru að gera. Ég hef lært að maður breytir ekki öðru fólki en maður getur breytt sér sjálfum og fötin skapa manninn. Svo er alltaf gott að muna að það getur verið dýrt að kaupa ódýrt. Bæði fyrir budduna og umhverfið.“

Vigdís ásamt Brian Mulroney, forsætisráðherra Kanada, 31. júlí árið 1989. …
Vigdís ásamt Brian Mulroney, forsætisráðherra Kanada, 31. júlí árið 1989. Myndin var tekin í Ottawa í opinberri heimsókn Vigdísar.
Vigdís heilsar Helmut Kohl, kanslara Vestur-Þýskalands, 5. júlí árið 1988 …
Vigdís heilsar Helmut Kohl, kanslara Vestur-Þýskalands, 5. júlí árið 1988 fyrir fund með honum á kanslaraskrifstofunni í Bonn á öðrum degi sex daga opinberrar heimsóknar til Vestur-Þýskalands. Reuter
Vigdís heilsar Jóhannesi Páli II. páfa í Vatíkaninu 17. október …
Vigdís heilsar Jóhannesi Páli II. páfa í Vatíkaninu 17. október árið 1986. AP
Vigdís ásamt Ronald Reagan Bandaríkjaforseta fyrir utan Hvíta húsið í …
Vigdís ásamt Ronald Reagan Bandaríkjaforseta fyrir utan Hvíta húsið í Washington 8. september árið 1982.
Vigdís hjá heiðursverði við stjórnarráðið í Ottawa í opinberri heimsókn …
Vigdís hjá heiðursverði við stjórnarráðið í Ottawa í opinberri heimsókn sinni til Kanada 31. júlí árið 1989. Reuter
mbl.is