Tókust á um styrkveitingar til Flokks fólksins

Alþingi | 22. maí 2025

Tókust á um styrkveitingar til Flokks fólksins

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Daða Má Kristófersson fjármálaráðherra út í ákvörðun hans um að falla frá endurkröfu vegna styrkveitinga til Flokks fólksins þegar forsendur ákvörðunarinnar hafi verið afhjúpaðar sem rangar.

Tókust á um styrkveitingar til Flokks fólksins

Alþingi | 22. maí 2025

Guðrún Hafsteinsdóttir og Daði Már Kristófersson tókust á um styrkveitingar …
Guðrún Hafsteinsdóttir og Daði Már Kristófersson tókust á um styrkveitingar til Flokks fólksins. Samsett mynd/mbl.is/Karítas/Eyþór

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Daða Má Kristófersson fjármálaráðherra út í ákvörðun hans um að falla frá endurkröfu vegna styrkveitinga til Flokks fólksins þegar forsendur ákvörðunarinnar hafi verið afhjúpaðar sem rangar.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Daða Má Kristófersson fjármálaráðherra út í ákvörðun hans um að falla frá endurkröfu vegna styrkveitinga til Flokks fólksins þegar forsendur ákvörðunarinnar hafi verið afhjúpaðar sem rangar.

Sagði hún frá því hvernig Daði Már ákvað í febrúar að falla frá endurkröfu á hendur Flokki fólksins vegna ólögmætra styrkja með þeim rökum að flokkurinn hefði verið í góðri trú og að ríkið hefði brugðist leiðbeiningaskyldu sinni, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

„Nýlega kom hins vegar í ljós að ráðherrann hafði áður fengið tölvupóst frá ríkisendurskoðun dagsettan 23. janúar þar sem fram kom að Flokkur fólksins hefði fengið leiðbeiningar og því ljóst að styrkveitingin væri ólögmæt. Þá hefur jafnframt komið fram að Skatturinn leiðbeindi flokknum einnig. Þrátt fyrir þessa vitneskju ákvað ráðherrann að vísa til góðrar trúar og leiðbeiningarskort sem rök fyrir ákvörðun sinni. Þetta vekur alvarlegar spurningar um trúverðugleika og ábyrgð ráðherra,“ sagði Guðrún.

Spurði hún Daða hvort að ákvörðun hans um að falla frá endurkröfu væri byggð á vitneskju um að forsendurnar væru rangar.

„Ef svo er, hvernig réttlætir hæstvirtur ráðherra þá ákvörðun sína gagnvart lögum og almennum sjónarmiðum um jafnræði. Hvaða aðgerða hyggst ráðherrann grípa til nú í ljósi þess að forsendur ákvörðunarinnar hafi verið afhjúpaðar sem rangar?“

Spurningin aldrei hvort flokkarnir hafi vitað af skilyrðinu

Daði Már svaraði fyrirspurninni og sagði að það hafi komið skýrt fram í máli hans og í ytri matsgerðum sem fjármálaráðuneytið fékk í tengslum við málið, „að það snerist um hvort að stjórnmálaflokkar mættu ætla af hegðun fjármálaráðuneytisins að þessi skilyrði um skráningu skiptu ekki máli“.

Spurningin hafi aldrei verið um hvort að flokkarnir hafi vitað af skilyrðinu heldur hvort þeir mættu ætla að það hefði afleiðingar fyrir rétt þeirra til að fá styrki.

„Þetta kom skýrt fram í mínu máli og þetta breytir því engu.“

Flokkur fólksins ekki í góðri trú

Guðrún fór í pontu öðru sinni og sagði að í þeim álitsgerðum sem gerðar hafi verið hafi hvergi verið minnst á þau atriði sem sýni bersýnilega fram á að Flokkur fólksins hafi ekki verið í góðri trú.

„Ekkert er fjallað um ábendingar Skattsins. Ekkert er fjallað um ábendingar Ríkisendurskoðunar. Ekkert er fjallað um yfirlýsingu formanns Flokks fólksins um að hún hafi vitað af þessu. Ekkert er minnst á að formaðurinn sjálfur var meðal flutningsmanna laganna sem lögfestu þetta skilyrði sem flokkurinn uppfyllti ekki,“ sagði Guðrún.

Bætti hún við að Daði Már hafi látið hjá líða að upplýsa um þessi atriði svo að niðurstaða álitsgerðanna yrði ríkisstjórninni hagstæð.

„Er ríkisstjórnin virkilega tilbúin til að halda verulega vafasömum ákvörðunum til streitu bara til að halda ríkisstjórnarsamstarfinu ósködduðu, sama hvað það kostar: traust, jafnræði og trúverðugleika í opinberum fjármálum?“

Ekki „á minni vakt“ 

Minnti Daði Már Guðrúnu á að enginn flokkur á Alþingi hafi uppfyllt skilyrði laganna þegar greitt var samkvæmt þeim í fyrsta skipti. Það hafi allur gangur verið á því hvernig skráningin var.

„Hefði ég verið í fjármálaráðuneytinu á þeim tíma, sem ég var ekki, hefði ég sett það verklag á sem nú gildir og tekur tillit til þess hvort öll skilyrði séu uppfyllt eða ekki. Það var ekki gert og það var alls ekki á minni vakt,“ sagði Daði Már.

mbl.is