Vill greina áhrif af vinnsluskyldu

Alþingi | 22. maí 2025

Vill greina áhrif af vinnsluskyldu

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra segir fulla ástæðu til þess að fara í greiningarvinnu um það hvaða áhrif það hefði á rekstur fyrirtækja og byggðafestu að afli af ákveðnum fisktegundum sem fluttur sé óunninn úr landi á erlenda markaði sé reiknaður með álagi.

Vill greina áhrif af vinnsluskyldu

Alþingi | 22. maí 2025

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra segir fulla ástæðu til þess að fara í greiningarvinnu um það hvaða áhrif það hefði á rekstur fyrirtækja og byggðafestu að afli af ákveðnum fisktegundum sem fluttur sé óunninn úr landi á erlenda markaði sé reiknaður með álagi.

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra segir fulla ástæðu til þess að fara í greiningarvinnu um það hvaða áhrif það hefði á rekstur fyrirtækja og byggðafestu að afli af ákveðnum fisktegundum sem fluttur sé óunninn úr landi á erlenda markaði sé reiknaður með álagi.

Eydís Ásbjörnsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, efndi til sérstakrar umræðu um innlenda vinnsluskylda á sjávarafla á Alþingi í dag. Eydís hefur áður gert vinnsluskylda og útflutningsálag að umræðuefni á þinginu, en fyrr í mánuðinum sagði hún að skoða þyrfti hvort setja ætti slíka skyldu eða álag á sjávarútvegsfyrirtæki sem grípa til hagræðingaraðgerða vegna aukinna veiðigjalda. 

Hugsanlega í bága við EES-samning

Eydís segir í ræðu sinni að íslenskt samfélag hafi orðið af yfir 50 milljörðum króna á síðasta áratug með því að flytja út nokkur hundruð þúsund tonn af óunnum fiski. Hún spurði því atvinnuvegaráðherra hvort til greina kæmi að setja á innlenda vinnsluskyldu á íslenskan sjávarafla. 

Hanna Katrín bendir á það að ýmsar ástæður væru fyrir því að óunninn fiskur væri fluttur úr landi. 

„Yfir sumarið fara starfsmenn í fiskvinnslum í sumarfrí og þá minnkar vinnslugeta og eins geta komið aflaskot þar sem veiddur afli er meiri en vinnslur ráða við.“

Einnig bendir Hanna Katrín á það að EES-samningurinn gæti verið brotinn ef innlend vinnsluskylda yrði leidd í lög enda gæti það falið í sér hindrun á frjálsu flæði á vörum. 

Ákvæðinu seinast beitt 2013

Í lögum um stjórn fiskveiða er þó ákvæði sem að heimilar ráðherra að ákveða að afli af ákveðnum fisktegundum sem fluttur sé óunninn úr landi á erlenda markaði sé reiknaður með álagi. 

Ákvæði þessu var seinast beitt 2013 en Hæstiréttur hefur að sögn Hönnu Katrínar staðfest að það brjóti ekki í bága við stjórnarskrá eða EES-samninginn. 

Hanna Katrín segir í ræðu sinni að greiningar og úttektir varðandi þetta efni séu nú orðnar meira en fimm ára gamlar. Hún telji því tímabært að taka stöðuna á nýju og skoða hvort ný gögn breyti stöðunni. 

Samfylkingin tali fyrir sósíalisma

Fleiri þingmenn tóku til máls í þessari umræðu en þeirra á meðal eru Jens Garðar Helgason, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins. 

Jens Garðar segir í ræðu sinni að það sé ánægjulegt að þingmenn ríkisstjórnarinnar hafi loksins áhuga á verðmætasköpun. 

„Ég tel að það sé ekki hægt að binda greinina þannig niður að takmarka með einhverjum hætti hennar möguleika til þess að nýta þær leiðir inn á markaðinn sem til er, það að setja á vinnsluskyldu væri ekki góð leið. Ég held það sé meira fyrir okkur að reyna að búa til hvata til þess að vinna frekar fiskinn hér heima,“ sagði Jens Garðar í ræðustól Alþingis. 

Karl Gauti segir að í þessu máli takist á sjónarmið í ríkisstjórninni hjá Viðreisn og Samfylkingunni. Hann segir að Samfylkingin tali fyrir sósíalisma á meðan Viðreisn tali fyrir neytendavernd.

„Grunnatriðið í þessu er auðvitað að skapa fyrirtækjunum sem eru í sjávarútvegi viðunandi skilyrði til þess að efla sína verðmætasköpun, vélvæðingu og nýsköpun og að geta unnið aflann hér heima á hagkvæmastan hátt þannig að ekki þurfi að flytja hann út óunninn til landa sem geta boðið lægri laun,“ sagði Karl Gauti í ræðu sinni. 

mbl.is