Birna Bragadóttir, forstöðukona frumkvöðlaseturs og vísindamiðlunar Orkuveitunnar, er óstöðvandi útivistarkona. Í fyrra varð hún 50 ára og fannst tilvalið að ganga á 50 fjöll af því tilefni. Fjöllin urðu þó miklu fleiri eða 100 talsins. Í október síðastliðnum gekk hún á sitt hundraðasta fjall í félagsskap fjölskyldu og vina. Birna lítur á fjallgöngur sem sitt djamm enda löngu hætt að standa vaktina á skemmtistöðum borgarinnar í pallíettukjól.
Birna Bragadóttir, forstöðukona frumkvöðlaseturs og vísindamiðlunar Orkuveitunnar, er óstöðvandi útivistarkona. Í fyrra varð hún 50 ára og fannst tilvalið að ganga á 50 fjöll af því tilefni. Fjöllin urðu þó miklu fleiri eða 100 talsins. Í október síðastliðnum gekk hún á sitt hundraðasta fjall í félagsskap fjölskyldu og vina. Birna lítur á fjallgöngur sem sitt djamm enda löngu hætt að standa vaktina á skemmtistöðum borgarinnar í pallíettukjól.
Birna Bragadóttir, forstöðukona frumkvöðlaseturs og vísindamiðlunar Orkuveitunnar, er óstöðvandi útivistarkona. Í fyrra varð hún 50 ára og fannst tilvalið að ganga á 50 fjöll af því tilefni. Fjöllin urðu þó miklu fleiri eða 100 talsins. Í október síðastliðnum gekk hún á sitt hundraðasta fjall í félagsskap fjölskyldu og vina. Birna lítur á fjallgöngur sem sitt djamm enda löngu hætt að standa vaktina á skemmtistöðum borgarinnar í pallíettukjól.
„Undanfarin ár hef ég sett mér persónuleg markmið sem felast í því að ögra sjálfri mér, finna innri styrk og að svala ævintýraþorstanum. Í fyrra fór ég til dæmis með pabba mínum horn í horn yfir landið á fjórhjóli. Áður hafði ég synt Ermarsundið í boðsundi og skíðað yfir Vatnajökul,“ segir Birna og bætir við:
„Um þarsíðustu áramót leiddi ég hugann að því að mig langaði til að setja mér eftirminnilegt markmið í tilefni af stórafmælinu mínu en vantaði hugmynd. Þá sá ég auglýsta áskorun um að ganga 100 sinnum á Úlfarsfell á árinu sem mér leist ágætlega á. Ég ákvað að fara af stað í fyrstu gönguna og í henni rann upp fyrir mér að þetta væri líklega ekki rétta markmiðið fyrir mig að ganga á sama fjallið 100 sinnum. Þá fékk ég þá hugdettu að fara í staðinn upp 50 mismunandi fjöll á árinu, eitt fyrir hvert ár sem ég hef lifað, og bjóða vinum og samferðafólki mínu sem ég hef kynnst ég gegnum ferðalag lífsins að koma með. Skapa þannig nýjar minningar og á sama tíma kynnast fallega landinu betur. Ég setti stöðufærslu á Facebook-síðuna mína til að kanna hvort einhver væru áhugasöm að koma með mér á eins og eitt fjall. Þar fékk ég frábærar undirtektir vina og úr varð stór gönguhópur sem ég kalla „Fjall og spjall“ sem nær vel utan um það sem ég vildi fá út úr göngunum mínum. Mér fannst 50 fjöll vera ansi bratt markmið þar sem ég eins og flestir hafði bara verið að ganga á þessi hefðbundnu fjöll hér í kring. Þessi áskorun setti mig í þá stöðu að þurfa að finna ný fjöll, öruggar gönguleiðir og læra betur að rata í óbyggðum sem hingað til hefur ekki verið mín sterkasta hlið. Segja má að „djammið“ hafi farið úr böndunum og urðu fjöllin á endanum 100,“ segir Birna.
Birna segir að það sé gott að eldast og geta hagað lífi sínu nákvæmlega eins og hana lystir.
„„Þetta er bara mitt djamm“ er setning sem segi oft við vini mína til að réttlæta eigin útivist. „Mitt djamm“ felst klárlega í að vera úti í náttúrunni, á fjöllum í góðra vina hópi. Þar nýt mín í botn. Það mætti því segja að ég sé búin að „djamma“ ansi mikið undanfarna mánuði, sem hefur verið ein allsherjar-fjallaveisla í mörgum af fallegustu fjallasölum landsins. Þegar ég sá að veðurspáin lofaði góðu fyrir lokafjallið urðu Grænavatnseggjar á Reykjanesi og gönguleiðin þar í kringum vötnin og Sogið fyrir valinu. Ég vissi að sú leið gæti töfrað fram upplifun og fjallaveislu í tilefni af þessum áfanga. Fyrir þetta tilefni fannst mér við hæfi að klæða mig upp á og ganga bara alla leið í þeim efnum. Pallíettukjólinn sem ég gekk í keypti ég hjá Gyllta kettinum og kostaði hann 18.800 kr. og reyndist vera frábær göngukjóll, stuttur að framan með svokallaðri gönguklauf og auðvelt að klæða sig í ullarfötin innan undir. Ég hef lítið gengið í kjólum eða spariklædd hingað til, þó með þeirri undantekningu að fimmtugasta fjallið gekk ég 17. júní í peysufötum, sem var mjög hátíðlegt. Ég mun klárlega nýta fleiri hátíðleg tækifæri til að klæða mig upp á í fjallgöngu,“ segir Birna.
Hvenær fékkstu fjallabakteríuna?
„Ég var komin yfir tvítugt þegar ég fór í fyrsta sinn upp Esjuna og fór ekki að hafa svigrúm til að stunda útivist af einhverri alvöru fyrr en eftir fertugt, þegar börnin mín voru orðin eldri. Þá fór ég að ganga reglulega á helstu fjöllin sem eru aðgengileg hér í nágrenninu eins og Esjuna upp að Steini, Helgafell, Móskarðshnúka og Úlfarsfell. Í gegnum árin hef ég safnað nokkrum af hæstu tindum Íslands eins og að ganga á Hvannadalshnjúk og Sveinstind. Ég hef þó frekar haft augastað á fallegum fjöllum en háum, svokölluðum „montfjöllum“ eins og ég kýs að kalla þau. Þar sem ég horfi á fegurð fjallanna og umhverfisins í kring frekar en stærð þeirra. Þetta eru fjöll eins og Baula, Kirkjufellið, Hekla og Snæfellsjökull sem eru formfögur fjöll og kennileiti á sínum landsvæðum. Af þeirri ástæðu var Herðubreið efst á óskalistanum mínum yfir fjöll sem mig langaði að ganga á á afmælisárinu. Með fjallamarkmiðunum mínum hefur áhugi minn á fjöllum og íslenskri náttúru bara aukist og fjallalistinn minn bara lengist þótt hundrað fjöll séu komin í hús. Enda af nógu að taka hér á Íslandi. Svo er það þannig að með aukinni fjallareynslu verður náttúran líka aðgengilegri og auðveldara að skella sér af stað. Nú hef ég helst áhuga á að ganga á ný fjöll. Það þarf oft ekki að fara langt. Það eru svo margir flottir áfangastaðir í nágrenni höfuðborgarinnar. Ég furða mig oft á því að fólk sé ekki að fara á fleiri fjöll hér í kring en þessi hefðbundnu,“ segir hún.
Hvað gefa fjallgöngur þér?
„Fjallgöngur gefa mér gríðarlega margt bæði líkamlega, andlega og félagslega. Hið augljósa er bætt þol, styrkur, útiveran og dagsbirta á veturna. Göngur eru líka ákveðin hugleiðsla, gefa rými til sjálfsskoðunar og eru valdeflandi. Ég get fullyrt að ég fæ mínar bestu hugmyndir á göngu. Fjallgöngur eru líka frábær leið til að rækta og styrkja tengsl. Allir eru vinir á fjöllum og auðvelt er að ná góðu spjalli í gönguflæði. Svo lærir maður heilmikið á sjálfan sig við að takast á við ýmsar ófyrirséðar hindranir og óvæntar aðstæður, sem krefst oft seiglu og útsjónarsemi sem nýtist á öðrum sviðum lífsins. Bónusinn í þessum fjallgöngum er síðan að fá tækifæri til að uppgötva náttúruperlur og hliðar á Íslandi sem aðeins eru aðgengilegar með göngu. Ég er mjög hrifnæm og fyllist stöðugt bæði aðdáun og auðmýkt gagnvart náttúrunni. Ég kem alltaf svo glöð heim eftir göngu og jafnvel þótt veðrið sé ekkert sérstakt þegar lagt var af stað, þá sér maður aldrei eftir því að hafa drifið sig út.“
Hvaða fjöll hafa þetta verið sem þú hefur gengið á?
„Ég hef aðallega verið að ganga á fjöll í nærumhverfi höfuðborgarsvæðisins. Það er aðgengilegt, auðvelt að skjótast eftir vinnu og um helgar. Það er af nógu að taka hér við túnfótinn eins og á Hengilssvæðinu, tindar Esjunnar eru fjölmargir og margar skemmtilegar leiðir hægt að ganga aðrar en hina hefðbundnu leið upp að Steini. Kjósin og Hvalfjörðurinn býður upp á fjölbreytta fjallaupplifun og gönguleiðir, Borgarnesið, Þingvellir, Suðurlandið og nú síðast hef ég verið að þræða fjöllin á Reykjanesinu. Reglan sem ég setti mér var sú að ég mætti bara ganga á sama tindinn einu sinni, sem hefur gert það að verkum að af þessum 100 fjöllum sem ég gekk á voru 90 sem ég hafði ekki aldrei gengið á áður. Á tvö fjöll gekk ég á ferðum mínum erlendis, það fyrra var fjallið Skurdalshöjden í Svíþjóð og það síðara fjallið Eros á grísku eyjunni Hydra. Hæstu fjöllin sem ég gekk á voru Birnudalstindur sem er einn sá flottasti útsýnistindur sem ég hef farið á og síðan drottningin sjálf, Herðubreið, sem mér finnst þó full ástæða til að vara fólk við uppgöngu á þar sem við vorum hætt komin vegna stórfellds grjóthruns í fjallinu. Það þarf líka að læra að sum fjöll þarf ekki að klífa heldur er bara nóg að dást að þeim.
Mér fannst hvetjandi og skemmtilegt að halda utan um fjallgöngurnar og fylgjast með framvindunni, þar sem margt smátt gerir eitt stórt. Niðurstaðan var sú að göngur á 100 mismunandi fjöll skiluðu mér 682 km gengnum með 41.200 m samanlagðri hækkun. Það sem stendur upp úr voru gæðastundir með vinum og samferðafólki, sem er besta afmælisgjöf sem ég gat gefið mér og þau gáfu mér með samverunni. Við það hefur aðdáun mín og ástríða fyrir náttúru landsins bara aukist.“
Þegar þú horfir yfir lífshlaupið, hvað stendur upp úr?
„Já, ég vona nú að það sjái ekki fyrir endann á því. En þegar hér er komið sögu er það fyrst og fremst fjölskyldan og góðir vinir. Ég er vel gift og er þakklát fyrir gott val á mínum lífsförunaut. Það veitir mér mikla lífsfyllingu að fylgjast með og styðja börnin mín þrjú, Sindra, Sölku og Kára, sem ég er óendanlega stolt af. Þau eru vel gerðar manneskjur, snjöll og skemmtileg. Ég er líka stolt af stækkandi fjölskyldu en ég á frábæra tengdadóttur, Dóru, og tvö yndisleg barnabörn, Flóka og Öglu Guðrúnu, sem búsett eru með foreldrum sínum í Osló. Ég reyni að fara í skreppitúra þangað eins oft og ég get til að missa ekki of mikið úr þeirra þroskaskrefum. Það er líka dýrmætt að eiga heilsuhrausta foreldra sem eru síung og miklar fyrirmyndir þegar kemur að því að njóta lífsins saman. Þau hafa alla tíð verði mín stoð og stytta. Ég er líka mjög þakklát öllum þeim góðu vinum sem ég hef eignast í gegnum tíðina. Með auknum þroska finn ég líka hversu dýrmætt það er að eiga þéttan hóp æskuvina sem hafa farið með manni í gegnum þykkt og þunnt í gegnum öll árin. Í stóra samhenginu er það heilsan og að hafa gott fólk í kringum sig sem vill manni vel sem mér finnst raunverulega skipta máli,“ segir Birna.
Hvernig sérðu næstu 50 ár fyrir þér?
„Ég ætla að halda áfram að víkka sjóndeildarhringinn, ögra sjálfri mér, fylgja innsæinu og gefa af mér. Umfram allt stefni ég á að njóta ferðalagsins með mínu góða fólki.“