Hlynur Kristinn Rúnarsson, stofnandi og stjórnarformaður Það er Von-samtakanna, hefur verið án áfengis og annarra vímuefna í sex ár.
Hlynur Kristinn Rúnarsson, stofnandi og stjórnarformaður Það er Von-samtakanna, hefur verið án áfengis og annarra vímuefna í sex ár.
Hlynur Kristinn Rúnarsson, stofnandi og stjórnarformaður Það er Von-samtakanna, hefur verið án áfengis og annarra vímuefna í sex ár.
Í tilefni þess birti hann einlæga færslu á Facebook-síðu samtakanna þar sem hann segist þakklátur fyrir allt.
Hlynur segir ekkert hafa bent til þess að hann myndi þróa með sér fíkniröskun á þrítugsaldri.
„6 ár edrú
Í dag hef ég verið edrú samfleytt í 6 ár. Með póstinum í ár ætla ég að láta fylgja með myndir frá mínum versta tíma því það auðmýkir mig. Mér finnst það hvorki þægilegt né gott, en ég vona að þið kunnið að meta það.
Það voru ekki margar vísbendingar um að ég myndi þróa með mér fíkniröskun. Mér gekk vel í skóla, á góða fjölskyldu, átti auðvelt með að kynnast fólki og leitaði ekki í félagsskap sem var að fikta á unglingsárum. Ég drakk áfengi í fyrsta skipti eftir tvítugt og prófaði önnur vímuefni 24 ára.“
Hlynur viðurkennir að hafa tekið rangar ákvarðanir.
„Í mínu lífi sköpuðust ákveðnar aðstæður eftir hrunið. Ég var með bílalán í erlendri mynt og missti atvinnu. Samhliða því notaði ég stera, keppti í vaxtarrækt og kynntist fólki sem lifði hátt á óheiðarlegan hátt í gegnum einkaþjálfun.
Eftir að hafa þegið atvinnuleysisbætur og verið tekinn af þeim vegna gruns um að ég væri að afla tekna í gegnum tengslamarkaðssetningu (eins og Herbalife), tók ég rangar ákvarðanir og fór í viðskipti með fíkniefni til að framfleyta mér. Fljótt sá ég hagnaðinn í því og þótti spennan jafnvel skemmtileg. Ég var einn af þeim sem höfðu aldrei prófað dóp og naut því mikils trausts til að hoppa í alls konar samstarf með mönnum sem höfðu langa reynslu í bransanum.
Það fór fljótt að halla undan fæti. Það eina sem ég var að gera af „viti“ var að keppa í vaxtarrækt, en það gekk aldrei upp eins og mig dreymdi um. Í íþrótt sem byggði á huglægu mati annarra á útliti mínu týndi ég sjálfum mér í þráhyggju, minnimáttarkennd og útlitsdýrkun sem endaði með því að ég notaði fíkniefni í fyrsta sinn til að missa fitu.
Það leið ekki langur tími þar til ég var búinn að koma mér í algjört óefni. Ég lánaði áfram það sem ég skuldaði, notaði það sem átti að selja og stjórnleysið varð algjört – þótt ég reyndi oft að þræta fyrir það.“
Hlynur var burðardýr vegna fíkniefnaskuldar og sat í fangelsi í Brasilíu í rúmt ár.
„Með tímanum fóru ákvarðanir mínar að litast af sjálfshatri og ég fór að taka áhættur með sjálfan mig, setjandi mig í lífshættulegar aðstæður. Ég var handtekinn með 4 kg af efnum í Brasilíu og sat þar inni í 14 mánuði áður en mér var sleppt út á þeim forsendum að ég skyldi vinna samfélagsþjónustu á Íslandi. Í fangelsinu sá ég uppþot, menn myrta, hálshöggna, fanga sleppa út úr fangelsinu í gegnum göng, fanga pyntaða af lögreglu og svo margt fleira.
Þarna hefði maður haldið að maður hefði fundið botn, en það var ekki raunin. Ég fór í toxískt samband og upplifði bæði mikla höfnun í samfélaginu sem og heima fyrir. Það endaði með harkalegu 10 mánaða falli þar sem ég missti algjörlega tökin og kynntist því að vera farþegi í eigin líkama.
Þann 26. maí 2019 mætti ég í meðferð og aleigan var fötin sem ég var í ásamt einhverju sem komst fyrir í svörtum ruslapoka sem ég hafði dregið á eftir mér á milli staða.“
Hlynur segist vera á góðum stað núna.
„Í dag er líf mitt frábært, þrátt fyrir að ég sé í raun á stað sem er keimlíkur þeim sem allt byrjaði (atvinnuleysi). Staðan er samt sú að ég á fjölskyldu, er í góðum samskiptum, er edrú í bata, með innsæi og meðvitund. Ég hef tæki og tól til að takast á við lífið og áskoranir þess með heilbrigðum hætti. Lífið hefur hent í mig og okkur alls konar verkefnum sem hafa sannarlega ekki verið auðveld, en við höfum gert okkar besta og reynt að vera sátt við okkar hlutskipti.
Jæja, þetta varð alltof langt – en ef þú komst alla leið, þá langar mig að þakka fyrir samfylgdina í gegnum árin. Takk fyrir að lesa og styðja okkur í að skapa einlæga umræðu um fíkniraskanir og fíknisjúkdóma. Takk fyrir að spegla og sjá það mannlega – frekar en bara fíknina.
Það er von,” skrifar Hlynur við myndir sem sýna hann á verstu og bestu stundum.
Fjölmargir hafa óskað Hlyni hjartanlega til hamingju og þakkað honum fyrir að deila sögu sinni á opinskáan og hreinskilinn máta.