Brúðkaupsþjónustan Stikkfrí hóf göngu sína í fyrra og hefur hún á þeim stutta tíma hjálpað ófáum brúðhjónum að undirbúa allt sem viðkemur því að undirbúa einn stærsta dag lífs þeirra. Fyrirtækið var stofnað af vinkonunum Denise Margréti Yaghi og Karitas Ósk Harðardóttur.
Brúðkaupsþjónustan Stikkfrí hóf göngu sína í fyrra og hefur hún á þeim stutta tíma hjálpað ófáum brúðhjónum að undirbúa allt sem viðkemur því að undirbúa einn stærsta dag lífs þeirra. Fyrirtækið var stofnað af vinkonunum Denise Margréti Yaghi og Karitas Ósk Harðardóttur.
Brúðkaupsþjónustan Stikkfrí hóf göngu sína í fyrra og hefur hún á þeim stutta tíma hjálpað ófáum brúðhjónum að undirbúa allt sem viðkemur því að undirbúa einn stærsta dag lífs þeirra. Fyrirtækið var stofnað af vinkonunum Denise Margréti Yaghi og Karitas Ósk Harðardóttur.
„Við erum stússvinkonur sem allt í einu fóru að vinna við það sem okkur finnst skemmtilegt að gera saman, og í dag rekum við brúðkaupsþjónustuna Stikkfrí,“ segir Denise.
Vinkonurnar kynntust hinu megin á hnettinum fyrir um sjö árum síðan en þær bjuggu á sama tíma á sama stað, í Hong Kong.
„Karitas hafði búið annars staðar í Kína, þar sem hún starfaði við gagnagreiningu og fluttist svo til Hong Kong, en ég var þar í dansnámi. Karitas og unnusti hennar fluttu akkúrat á þeim tíma sem herbergisfélagi minn flutti út. Framhaldið var augljóst, þau fluttu inn til mín og það má því segja að vináttan okkar hafi ekki hafist á hefðbundinn hátt, heldur bjuggum við saman þrjú, í rúmlega 50 fermetrum á 23. hæð og við kynntumst fyrir vikið mjög vel og á skömmum tíma.“
„Síðan þá höfum við verið bestu vinkonur. Við höfum ferðast mikið saman en auðvitað líka legið saman uppi í sófa þónokkur kvöldin og spjallað um allt milli himins og jarðar eða horft á misskemmtilegar bíómyndir. Við höfum líka gert allskonar fyndna og skemmtilega hluti sem gerast bara í skemmtilegustu borg í heimi, Hong Kong. Hún er nefnilega ekki bara stórborg heldur hefur hún svolítið af öllu. Helgarnar okkar einkenndust iðulega af fjallgöngum sem enduðu á ströndinni, ferðum okkar upp og niður stærsta rúllustiga í heimi þar sem hægt var að stoppa á heimsins bestu veitingastöðum eða á „happy hour“ í miðbænum. Borgin iðar af lífi en samt er svo stutt að komast út á strönd, í bát og út á eyjarnar í kring eða einfaldlega bara upp í fjall,“ segir Denise.
„Í dag erum við báðar fluttar heim en við höfðum oft talað um það að stofna fyrirtæki og hversu gaman það yrði að vinna saman en létum ekki verða að því fyrr en hugmyndin að brúðkaupsþjónustunni Stikkfrí kom upp. Þetta small svo bara hjá okkur vegna þess að það að undirbúa veislur, sér í lagi brúðkaup er eitthvað sem við höfum báðar gaman af og náum að nýta kosti okkar beggja. Karitas er með bakgrunn í viðburðastjórnun og ég er dansari og báðar erum við með mjög gott auga fyrir smáatriðum,“ segir hún.
Þegar stelpurnar stofnuðu fyrirtækið þá spáðu þær mikið í það, nákvæmlega hvernig þjónustu þær vildu bjóða upp á og hvernig nálgunin þeirra yrði.
„Við vorum aðallega að hugsa hvort það væri sniðugt að hafa tilbúinn undirbúningspakka eða hvort það væri hægt að hafa þjónustuna persónulegri og sérsniðnari að hverju og einu pari. Eftir langar vangaveltur komumst við að þeirri niðurstöðu að það vantaði persónulega þjónustu á markaðinn. Við bjóðum því upp á brúðkaupsþjónustu sem sérhæfir sig í að aðstoða pör við að skipuleggja og framkvæma brúðkaupsdaginn sinn. Við leggjum mikið upp úr því að bjóða fólki sérhæfða þjónustu sem hentar hverju sinni. Við byrjum á að bjóða pörum í frítt spjall, til að kynnast þeim og heyra hvað þau sjá fyrir sér, svo útbúum við pakka út frá því. Markmiðið er að gera undirbúningsferlið auðveldara og ánægjulegra fyrir brúðhjónin, svo að þau geti einbeitt sér að því að njóta dagsins,“ segir Denise.
„Við erum þeirrar skoðunar að undirbúningurinn eigi að vera skemmtilegur tími sem brúðhjónin geta horft til baka til og hugsað hvað þetta hafi allt verið skemmtilegt! Sömuleiðis finnst okkur að fjölskylda brúðhjónanna og þeirra nánustu eigi að fá að njóta undirbúningsins og brúðkaupsveislunnar sjálfrar. Oft eru foreldrarnir, oftast mæðurnar, og vinirnir alveg uppgefin á brúðkaupsdaginn sjálfan eftir allan hamaganginn og undirbúninginn við að létta undan brúðhjónunum. Brúðkaup og undirbúningurinn á að vera hátíð sem brúðhjónin, fjölskyldur og vinirnir eiga að njóta saman,“ segja Karitas og Denise.
Hvaða hluti eru brúðhjón að mikla mest fyrir sér?
„Flest brúðhjón hafa áhyggjur af smáatriðum, eins og veðrinu, hvort gestirnir muni skemmta sér, og hvort allt gangi upp á deginum sjálfum. Það sem við sjáum oftast er að þau mikla mest fyrir sér skipulaginu í kringum dagskrána og samhæfingu allra birgja, að allt verði á réttum stað á réttum tíma. Þarna komum við mjög sterkar inn og tökum stressið af herðum þeirra. Brúðhjónum finnst líka oft erfitt að vita á hvar sé best að hefja undirbúninginn og í hvaða röð sé best að vinna skipulagið. Við erum með tékklista sem við útbúum og þeir hjálpa yfirleitt mikið. Á listunum sjást öll þau smáatriði sem þarf að tækla og í hvaða röð þau þurfa að gerast, auk þess sem yfirsýn næst á undirbúningnum í heild sinni.“
Hvernig pakka hafið þið útbúið fyrir verðandi brúðhjón?
„Hér eru dæmi um tvo pakka sem við höfum útbúið en allir pakkarnir okkar eru sérsniðnir að því sem hentar hverju sinni. Þetta á að vera alveg eins og fólk vill hafa það og þess vegna erum við mjög sveigjanlegar. Því mótum við okkur að því sem brúðhjón vilja hverju sinni en markmiðið er að láta brúðhjónunum líða eins og þau séu Stikkfrí!
Allur pakkinn er pakki er fyrir brúðhjón sem vilja bara mæta, segja já, og hafa gaman. Í þessum pakka sjáum við um allt frá kirkju yfir í veislusal, frá veislumat yfir í skreytingar, allt frá dagskrá á deginum yfir í að panta tónlistarfólk og sjá til þess að allt gangi upp. Þetta væri til dæmis fullkominn pakki fyrir par sem langar að halda 150 manna sveitabrúðkaup með lifandi tónlist og dagskrá yfir heila helgi.
Minni pakkinn er meiri stemningspakki er t.d. fyrir þau brúðhjón sem eru búin að plana helminginn sjálf, en vilja svo að við tökum við keflinu þegar nær dregur. Það er þá hægt að heyra í okkur með styttri fyrirvara, við setjum saman flæðið fyrir daginn, pössum að ekkert klikki og sjáum til þess að allir hafi gaman. Þá ákveðum við í sameiningu með brúðhjónum hvaða hluti við sjáum um og hvaða hluti þau sjá um og útbúum sérsniðinn pakka út frá því,“ segja þær.
„Ef við þyrftum að velja milli pakkanna, þá myndi allur pakkinn hafa vinninginn. Okkur finnst skemmtilegast að vera brúðhjónunum innan handar frá A-Ö því besti hlutinn af ferlinu er þegar við fáum að vera til staðar á deginum sjálfum og aðstoða með ósýnilegu hlutina eins og að þrífa farða úr kjólnum tíu mínútum fyrir athöfn eða koma með bakkelsið sem gleymdist þegar brúðurin og vinkonurnar eru að gera sig til saman,“ segja Karitas og Denise.
Hvað viljið þið að pör komi til ykkar með löngum fyrirvara?
„Við mælum alltaf með að fólk hafi samband eins snemma og mögulegt er, helst 9-12 mánuðum fyrir brúðkaup. Þannig er meiri tími til að kynnast og skipuleggja daginn þeirra. Það er samt aldrei of seint að fá aðstoð og við viljum að allir hafi tækifæri á að heyra í okkur.“
Hversu stórt var fjölmennasta brúðkaup sem þið hafið tekið þátt í að undirbúa?
„Stærsta brúðkaupið sem við höfum unnið að, var með um 180 gestum. Það er ekkert brúðkaup of stórt eða of lítið og þau eru öll sjarmerandi á sinn hátt.“
Hafið þið skipulagt brúðkaup erlendis?
„Við erum akkúrat núna að taka þátt í skipulagningu á tveimur brúðkaupum erlendis, eitt í vínhéraði í Frakklandi og eitt í Grikklandi. Okkur finnst skemmtilegt að hafa verkefnin fjölbreytt tökum að okkur brúðkaup bæði hér á landi, í höfuðborginni eða úti á landi, og önnur á meira framandi slóðum. Okkur finnst gaman að nota nýjar formúlu í hvert skipti og við erum svo sannarlega spenntar fyrir nýjum áskorunum.“