Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, hyggst ekki beita sér fyrir stofnun móttökuskóla eða móttökusetra fyrir börn af erlendum uppruna með takmarkaða íslenskukunnáttu.
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, hyggst ekki beita sér fyrir stofnun móttökuskóla eða móttökusetra fyrir börn af erlendum uppruna með takmarkaða íslenskukunnáttu.
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, hyggst ekki beita sér fyrir stofnun móttökuskóla eða móttökusetra fyrir börn af erlendum uppruna með takmarkaða íslenskukunnáttu.
Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn Bryndísar Haraldsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Í svari ráðherra segir að börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn séu fjölbreyttur hópur sem þurfi að nálgast með ólíkum hætti. Sveitarfélög beri ábyrgð á leik- og grunnskólum, á meðan ríkið beri ábyrgð á framhaldsskólum.
Engin heildstæð áform eru uppi um sérstaka móttökuskóla, hvorki á vegum ríkis né sveitarfélaga, samkvæmt ráðherra.
Þess í stað er lögð áhersla á „inngildingu“ og stuðning innan almenns skólastarfs. Verkefnið Menntun, móttaka, menning (MEMM) hefur verið í gangi frá 2024 og felur meðal annars í sér íslenskukennslu, menningarnæmt starf og stuðning við kennara.
„Með hliðsjón af framangreindu hyggst ráðherra ekki beita sér fyrir því að stofnaðir verði móttökuskólar eða móttökusetur fyrir börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn með takmarkaða íslenskukunnáttu,“ segir í svari ráðherra.
mbl.is ræddi fyrr á árinu við Unnar Stefán Sigurðsson, skólastjóra Háaleitisskóla á Ásbrú í Reykjanesbæ, en í skólanum er móttökudeild fyrir börn í leit að alþjóðlegri vernd. Hefur deildin að hans sögn stutt við aðlögun barnanna að íslensku skólakerfi og gefið góða raun.
Unnar Stefán sagði að það væri „ekki spurning“ að þessi leið gæti verið fyrirmynd fyrir aðra skóla á landinu.
Móttökudeildin, sem ber nafnið Friðheimar, var opnuð í október 2023. Áhersla er lögð á íslensku, stærðfræði, lífsleikni og upplýsingatækni. Aðlögunin fer þannig fram að nemendur byrja í Friðheimum en stunda leikfimi og list- og verkgreinar í Háaleitisskóla með jafnöldrum sínum.