Rektorar Menntaskólans í Reykjavík og Menntaskólans við Sund kveðjast ekki finna fyrir miklum mun á námshæfni milli nemenda eftir því úr hvaða grunnskóla þeir koma. Nemendur sem eru innritaðir með hæstu einkunnir eftir grunnskóla eru oftast þeir sem fá hæstu einkunnir í framhaldsskóla.
Rektorar Menntaskólans í Reykjavík og Menntaskólans við Sund kveðjast ekki finna fyrir miklum mun á námshæfni milli nemenda eftir því úr hvaða grunnskóla þeir koma. Nemendur sem eru innritaðir með hæstu einkunnir eftir grunnskóla eru oftast þeir sem fá hæstu einkunnir í framhaldsskóla.
Rektorar Menntaskólans í Reykjavík og Menntaskólans við Sund kveðjast ekki finna fyrir miklum mun á námshæfni milli nemenda eftir því úr hvaða grunnskóla þeir koma. Nemendur sem eru innritaðir með hæstu einkunnir eftir grunnskóla eru oftast þeir sem fá hæstu einkunnir í framhaldsskóla.
Greint var frá lögfræðiáliti sem lögmannsstofan Juris vann fyrir Viðskiptaráð Íslands í Morgunblaðinu í dag. Þar kom fram að ef ekki er stuðst við samræmd próf við innritun í framhaldsskóla og ekki er eðlilegt námsmat milli grunnskóla séu líkur á að nemendur standi ekki jafnir að vígi þegar þeir hefja skólagöngu í framhaldsskóla. Það sé í andstöðu við lög og góða stjórnsýsluhætti.
Sólveig G. Hannesdóttir, rektor Menntaskólans í Reykjavík, segir í samtali við mbl.is að æskilegt sé að hafa eitthvað samræmt námsmat í grunnskólum til að auka trúverðugleika grunnskólakerfisins og auðvelda kennurum og stjórnendum að meta nemendur á hlutlægan hátt.
Sjálf kveðst hún ekki finna fyrir svokallaðri „einkunnarverðbólgu“ og að hennar reynslu sé samræmi á milli einkunna sem nemendur fá í grunnskóla og í framhaldsskóla.
Í vetur ákvað MR að skoða samræmi einkunnabókstafa úr grunnskólum og gengi nemenda eftir fyrsta skólaárið við skólann. Fjögur fög voru skoðuð: Íslenska, enska, stærðfræði og danska, þar sem samræmi var í öllum þeim fögum, þ.e.a.s. að þeir nemendur sem innrituðust í skólann með A úr grunnskóla fengu marktækt hærri einkunnir en þeir sem komu inn í skólann með B eða B+.
Sólveig segir það hafi komið stjórnendum við skólann nokkuð á óvart hversu mikið samræmi var á milli einkunna.
„Við bjuggumst við því að það væru kannski nemendur sem komu inn með A-einkunnir sem voru ekki að standa sig jafn vel, en það voru undantekningatilfelli,“ segir Sólveig.
Blaðamaður ræddi einnig við Helgu Sigríði Þórsdóttur, rektor Menntaskólans við Sund. Hún segir að ekki sé hægt að fullyrða um hvort það sé munur á einkunnum nemenda eftir grunnskólum. Það sé frekar einstaklingsbundið hvort nemendur sem komi inn í skólann með háar einunnir úr grunnskólum haldi þeim og öfugt.
Starfsfólk skólans finnur fyrir því að einhverja nemendur skorti grunnhæfni í ákveðnum fögum, líkt og stærðfræði og dönsku, auk þess sem nemendur skorti orðaforða til að geta tekið þátt í umræðum um málefni líðandi stundar.
Þá hefur starfsfólk skólans einnig orðið vart við að nemendur eigi erfitt með að einbeita sér að löngum verkefnum og að stærri hópur nemenda glími við einhvers konar einbeitingarskort.
Rekur Helga þetta meðal annars til samfélagsbreytinga:
„Þau læra jafn mikið í skólanum og skólinn sinnir þeim jafn vel og áður en samfélagið sinnir þeim ekki jafn vel. Krakkar horfa ekki á fréttir með foreldrum sínum, lesa lítið, lesa ekki fjölmiðla nema í gegnum TikTok. Við finnum fyrir því,“ segir Helga.
Spurðar hvort það hafi komið til greina af hálfu skólanna að taka upp inntökupróf við innritun nemenda úr grunnskóla segja bæði Helga og Sólveig að slíkt hafi ekki komið til greina í sínum skólum.
Viðskiptaráð hefur hvatt framhaldsskóla til að taka upp inntökupróf fyrir nemendur á meðan engin samræmd próf eru lögð fyrir.