Bandalag Trumps og Musks stendur á brauðfótum

Bandalag Trumps og Musks stendur á brauðfótum

Bandalag Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, og Elons Musks, stofnanda Tesla og SpaceX, virðist standa á brauðfótum eftir hörð opinber orðaskipti þeirra á milli í gær og alvarlegar ásakanir sem flugu þeirra á milli. 

Bandalag Trumps og Musks stendur á brauðfótum

Donald Trump Bandaríkjaforseti | 6. júní 2025

Vinaslit virðast hafa átt sér stað á milli auðjöfursins Elons …
Vinaslit virðast hafa átt sér stað á milli auðjöfursins Elons Musks og Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. AFP/Allison Robbert

Bandalag Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, og Elons Musks, stofnanda Tesla og SpaceX, virðist standa á brauðfótum eftir hörð opinber orðaskipti þeirra á milli í gær og alvarlegar ásakanir sem flugu þeirra á milli. 

Bandalag Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, og Elons Musks, stofnanda Tesla og SpaceX, virðist standa á brauðfótum eftir hörð opinber orðaskipti þeirra á milli í gær og alvarlegar ásakanir sem flugu þeirra á milli. 

Viðskiptaleg áhrif átakanna hafa nú þegar komið fram með lækkun á markaðsvirði Tesla, um 150 milljarða dala. Auk þess virðist Musk horfa til stofnunar nýs stjórnmálaflokks sem gæti hrist upp í Repúblikanaflokknum. 

Barningurinn varð fyrst opinber eftir að Musk, sem hafði áður verið einn helsti stuðningsmaður Trumps og fyrrverandi yfirmaður sparnaðarráðuneytis Bandaríkjanna (DOGE), gagnrýndi harkalega nýtt skattalagafrumvarp forsetans og lýsti því sem „ógeðslegri afmyndun“ sem myndi auka fjárlagahalla Bandaríkjanna um 2,5 billjónir dala.

Musk sakaði einnig Trump um „vanþakklæti“ og sagði að forsetinn hefði aldrei unnið kosningarnar 2024 án stuðnings hans, sem nam yfir 290 milljónum dala.

Hótaði að slíta samningum við fyrirtæki Musks

Trump svaraði með því að kalla Musk „brjálaðan“ og hótaði að slíta öllum ríkissamningum við fyrirtæki hans, þar á meðal samningum við Tesla og SpaceX. „Auðveldasta leiðin til að spara milljarða dala í fjárlögum okkar er að segja upp ríkisstyrkjum og samningum Elons,“ sagði Trump á samfélagsmiðlinum Truth Social.

Musk svaraði með því að fullyrða án rökstuðnings að Trump væri nefndur í skjölum tengdum Jeffrey Epstein, sem lést árið 2019 í fangelsi á meðan hann beið réttarhalda fyrir kynferðisbrot. Þessi ummæli leiddu til þess að hlutabréf Trump Media féllu um 8%.

Í kjölfarið tilkynnti Musk á samfélagsmiðlinum X að SpaceX myndi tafarlaust „draga til baka“ gerð Dragon-geimfarsins, sem er lykilatriði í geimáætlunum NASA. Dragon er eina bandaríska geimfarið með vottun til að flytja geimfara til og frá Alþjóðlegu geimstöðinni. Musk dró síðar yfirlýsinguna í land.

Bethany Stevens, talsmaður NASA, sagði í kjölfarið að stofnunin myndi halda áfram að vinna með samstarfsaðilum sínum til að framfylgja stefnu forsetans í geimmálum. NASA hefur undanfarið glímt við alvarlegar tafir á vottun Starliner-geimfarsins frá Boeing, sem átti að verða valkostur við Dragon-geimfarið.

Steve Bannon, bandamaður Trumps, hefur kallað eftir því að auðjöfrinum verði vísað úr landi, samkvæmt frétt New York Times.

Musk birti skoðanakönnun á samfélagsmiðli sínum X, um hvort hann ætti að stofna nýjan stjórnmálaflokk, en hann hefur gefið til kynna að hann sé reiðubúinn að nota auð sinn til að koma repúblikönum sem eru ósammála honum frá völdum.

Viðskiptaleg áhrif nú þegar ljós

Viðskiptaleg áhrif átaka þeirra tveggja eru þegar orðin augljós. Hlutabréf Tesla féllu um 14%, sem samsvarar lækkun á markaðsvirði fyrirtækisins um 150 milljarða dala. SpaceX gæti einnig misst samninga við bandarísk stjórnvöld sem nema um 22 milljörðum dala.

Samband Trumps og Musks hafði áður blómstrað þegar Musk starfaði sem yfirmaður nýstofnaðs sparnaðarráðuneytis Bandaríkjanna (DOGE), sem hafði það markmið að draga úr ríkisútgjöldum. Musk hætti í starfinu í maí eftir fjögurra mánaða starf.

Mótmælahreyfingar hafa sprottið upp eins og „Tesla Takedown“ sem hefur skipulagt mótmæli gegn Tesla og Musk vegna tengsla hans við Trump og DOGE. Þetta hefur leitt til skemmdarverka á Teslum víða um heim. Ásamt „50501“, sem hefur skipulagt mótmæli gegn stefnu Trumps og Musks, með áherslu á verndun réttinda minnihlutahópa og endurreisn DEI-verkefna.

Framtíð þessara tveggja áhrifamanna er nú í óvissu og Washington fylgist náið með þróun mála samkvæmt AFP-fréttaveitunni, sérstaklega í ljósi vangaveltna Musks um stofnun nýs stjórnmálaflokks, sem gæti raskað stöðugleika innan Repúblikanaflokksins.

mbl.is