Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir vilja hjá ríkisstjórn sinni að breyta aðferðinni sem notuð er til þess að uppfæra laun alþingismanna, ráðherra, forseta og æðstu embættismanna.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir vilja hjá ríkisstjórn sinni að breyta aðferðinni sem notuð er til þess að uppfæra laun alþingismanna, ráðherra, forseta og æðstu embættismanna.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir vilja hjá ríkisstjórn sinni að breyta aðferðinni sem notuð er til þess að uppfæra laun alþingismanna, ráðherra, forseta og æðstu embættismanna.
Þetta sagði Kristrún í ræðustól Alþingis í dag í kjölfar óundirbúinnar fyrirspurnar Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns Sjálfstæðisflokksins.
Laun æðstu ráðamanna hækka um 5,6% um næstu mánaðamót en laun á almennum vinnumarkaði hafa til samanburðar aðeins hækkað um 3,5% á síðastliðnu ári.
Guðrún vék í fyrirspurn sinni að afstöðu Kristrúnar til launahækkananna fyrir tveimur árum síðan en þá sagði Kristrún í samtali við mbl.is að téðar launahækkanir sendu kolröng skilaboð til vinnumarkaðarins.
Kristrún sagði í síðustu viku að ríkisstjórnin ætlaði sér ekki að aðhafast í málinu en þess má geta að í fyrra ákvað Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, að takmarka launahækkanirnar við 66 þúsund krónur. Guðrún spurði því Kristrúnu í fyrirspurn sinni af hverju ríkisstjórnin hefði ákveðið að halda í þessa 5,6% hækkun.
Kristrún segir í svari sínu að tveir kostir séu í stöðunni, annars vegar að handstýra launum á hverju ári og hins vegar að ráðast í kerfisbreytingar til lengri tíma. Hún bætir því við að síðustu ríkisstjórn hefði verið í lófa lagið að hefja vegferð að þessum kerfisbreytingum seinasta sumar. Það hefði komið í veg fyrir þessa stöðu að sögn Kristrúnar.
„Það er vilji þessarar ríkisstjórnar að eiga samtal við vinnumarkaðinn strax á næstu vikum. Þá getum við komið með nýtt frumvarp og breytt þessu.“
Guðrún kom að þessu loknu upp í ræðustól í annað sinn og gagnrýndi Kristrúnu fyrir að hafa farið fram á það fyrir tveimur árum að gripið yrði inn í til skemmri tíma á sama tíma og hún segir nú sem forsætisráðherra að það sé ekki skynsamlegt.
Kristrún svaraði Guðrúnu á þann hátt að staðan núna væri ekki sú sama enda hefði umræðan sprottið upp á hverju ári síðan þá. Hún bauð að lokum Guðrúnu og öðrum þingmönnum minnihlutans með í þá vegferð að breyta núverandi kerfi til uppfærslu launa æðstu ráðamanna.