Norrænir ráðherrar vöruðu Þorbjörgu við

Alþingi | 11. júní 2025

Norrænir ráðherrar vöruðu Þorbjörgu við

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra sagði það ekki hlutverk íslenskra stjórnvalda að inngilda menn sem koma til landsins til að fremja glæpi, heldur ætti að vísa þeim úr landi.

Norrænir ráðherrar vöruðu Þorbjörgu við

Alþingi | 11. júní 2025

Þorbjörg Sigríður dómsmálaráðherra.
Þorbjörg Sigríður dómsmálaráðherra. Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra sagði það ekki hlutverk íslenskra stjórnvalda að inngilda menn sem koma til landsins til að fremja glæpi, heldur ætti að vísa þeim úr landi.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra sagði það ekki hlutverk íslenskra stjórnvalda að inngilda menn sem koma til landsins til að fremja glæpi, heldur ætti að vísa þeim úr landi.

Kvaðst hún hafa fengið viðvörun frá norrænum ráðherrum um að grípa til aðgerða gegn brotastarfsemi áður en það væri orðið of seint.

Þetta kom fram í máli hennar í eldhúsdagsumræðum á Alþingi fyrr í kvöld.

Eigum að taka vel á móti fólki

Í ræðu sinni sagði hún íslenskt samfélag hafa breyst hratt síðastliðin ár, þar sem mestu skiptir að stjórnvöld hafi stjórn á aðstæðunum.

„Landamærin eru í dag orðin pólitískt átakaefni. Opnum landamærum er mótmælt af einum hópi, lokuðum landamærum er mótmælt af öðrum. Þetta eru jaðrarnir í umræðunni. Það sem máli skiptir er að stjórnvöld hafi stjórn á aðstæðum, sagði Þorbjörg.

„Við ætlum að vinna eftir ábyrgri stefnu í stað þess að festast í umræðum um orð, orðum eins og aðlögun eða inngildingu, því að kjarni málsins er þessi: Við getum ekki tekið við öllum, en við eigum að taka vel og fallega á móti því fólki sem hér sest að.“ 

Brýnt að grípa til aðgerða áður en það er of seint

Þorbjörg ræddi um fund sem hún sat með dómsmálaráðherrum Norðurlandanna á dögunum þar sem skipulögð brotastarfsemi og aðgerðir gegn ofbeldi voru til umræðu.

Gengjastríð hafa orðið að veruleika margra Norðurlandanna og brýndu norrænu ráðherrarnir fyrir Þorbjörgu að grípa til aðgerða strax áður en það væri um seinan. 

Áherslur Viðreisnar víða

Þorbjörg ræddi einnig um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og sagði hana samhentari og árangursríkari en fyrri stjórn.

Víða væri hægt að sjá áherslur Viðreisnar í stjórnarsamstarfinu, t.a.m. verða meðferðarúrræði áfram opin í sumar auk þess sem boðað hefur verið til stórfelldra vegabóta á landsbyggðinni.

„Á meðan spilar klofinn Sjálfstæðisflokkur og Miðflokksmenn furðulegan leik hér á Alþingi. Þau eru spariklædd hér í kvöld en takturinn og tónninn er sá sami og hann hefur verið á þessu ári. Þau tefja bara til að skemma. Það er eina markmiðið. Klofin stjórnarandstaða með enga sýn. Staðan á þinginu er kannski í grunninn þessi: Sterk stjórn, klofin andstaða,“ sagði Þorbjörg. 

mbl.is