Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, þingmaður Flokks fólksins, sagði að stefnumálum Flokks fólksins hefði verið gert hátt undir höfði frá því að ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins tók við völdum.
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, þingmaður Flokks fólksins, sagði að stefnumálum Flokks fólksins hefði verið gert hátt undir höfði frá því að ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins tók við völdum.
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, þingmaður Flokks fólksins, sagði að stefnumálum Flokks fólksins hefði verið gert hátt undir höfði frá því að ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins tók við völdum.
Þetta kom fram í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld.
Undrast hún andstöðu sumra þingmanna stjórnarandstöðunnar gegn málum ríkisstjórnarinnar og nefnir hún sérstaklega umbætur í velferðar- og menntamálum.
„Á meðan ríkisstjórnin hefur unnið markvisst að þessum umbótum hefur stjórnarandstaðan gert lítið annað en tefja fyrir framgangi þjóðþrifamála með pólitískum reyksprengjum. Málþófið opinberar erindisleysi og sérhagsmunagæslu stjórnarandstöðuflokkanna,“ sagði hún.
„Það sem stuðar stjórnarandstöðuna mest er að núverandi ríkisstjórn setur almannahagsmuni framar sérhagsmunum. Það er augljóst af málflutningi stjórnarandstöðunnar.“
Hún gaf lítið fyrir gagnrýni stjórnarandstöðunnar um skort á fjármagni til að löggilda samning sem feli í sér bann við mismunun á grundvelli fötlunar.
„Að Íslendingar, ein ríkasta þjóð í heimi, hafi ekki efni á að tryggja réttindi fatlaðs fólks í lögum?“ spurði hún.
Nefndi hún líka að ríkisstjórnin hafi tryggt fjármögnun breytinga á lögum um almannatryggingar sem sé mikilvægt skref í að eyða kjaragliðnun milli lífeyristekna og launa.
„Þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins hafa keppst við að lýsa því yfir að ríkið hafi heldur ekki efni á þessu.“
Sagði hún einnig að stjórnarandstaðan sjái ofsjónum yfir réttarbótum þeirra sem hafa verið fatlaðir frá fæðingu eða unga aldri.
„Það er umhugsunarvert hvað þingmenn Sjálfstæðisflokksins sjá almennt á eftir greiðslum til öryrkja og eldri borgara en er á sama tíma umhugað um hag stórútgerðanna og þeirra efnamestu í samfélaginu.“
Gagnrýndi Kolbrún einnig stjórnarandstöðuna fyrir að saka ríkisstjórnina um að ætla að svíkja loforð fyrri ríkisstjórnar um uppbyggingu á húsnæði fyrir verkmenntun í fjórum framhaldsskólum á landinu. Ekkert sé fjær sannleikanum.
Þá taldi Kolbrún upp verk ríkisstjórnarinnar á vorþingi og nefndi ný lög um sorgarleyfi, eflingu á fæðingarorlofskerfinu og fjármagn til að tryggja að meðferðarúrræðum verði ekki lokað í sumar.
Einnig nefndi hún samninga um uppbyggingu hjúkrunarheimila, aukið fjármagn til viðhalds vega og endurskoðun á lögum um leigubifreiðar.