Vill að Þorbjörg dragi orð sín til baka

Alþingi | 12. júní 2025

Vill að Þorbjörg dragi orð sín til baka

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra fyrir orð hennar í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í gær þegar Þorbjörg hrósaði núverandi fjármálaráðherra fyrir söluna á Íslandsbanka, en bætti svo við að ekki hefði þurft sakamálarannsókn í kjölfarið.

Vill að Þorbjörg dragi orð sín til baka

Alþingi | 12. júní 2025

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.
Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra. Samsett mynd/Karítas

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra fyrir orð hennar í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í gær þegar Þorbjörg hrósaði núverandi fjármálaráðherra fyrir söluna á Íslandsbanka, en bætti svo við að ekki hefði þurft sakamálarannsókn í kjölfarið.

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra fyrir orð hennar í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í gær þegar Þorbjörg hrósaði núverandi fjármálaráðherra fyrir söluna á Íslandsbanka, en bætti svo við að ekki hefði þurft sakamálarannsókn í kjölfarið.

Hildur var ekki sátt með þessi ummæli og sagði, undir liðnum störf þingsins, að eftir sölu ríkisins á 22,5% hlut í Landsbankanum árið 2022 hafi engin sakamálarannsókn átt sér stað.

„Frú forseti. Það var engin sakamálarannsókn í kjölfar þeirrar sölu, engin,“ sagði Hildur í dag. Vísaði hún til þess að um stór og alvarleg orð væri að ræða sem ættu sér ekki stoð og að slíkt skipti máli þegar fólk hefði áhyggjur af trausti á stjórnmálum og upplýsingaóreiðu.

Sagði Hildur að Þorbjörg ætti að draga orð sín til baka. „Mér þætti, frú forseti, hæstv. dómsmálaráðherra, sem er fyrrum saksóknari og veit alveg hvaða orð sakamálarannsókn er og hvað það þýðir og hversu gildishlaðið það er, væri maður að meiri að draga þessi orð sín til baka.“

Ummælin sem Þorbjörg hafði uppi í gær voru eftirfarandi: „Loksins er kominn fjármálaráðherra sem veit hvað hann syngur. Sala á banka gat, ótrúlegt en satt, orðið án þess að allt samfélagið færi á hliðina. Það þurfti ekki sakamálarannsókn í kjölfarið.“

Komu þessi orð í kjölfar þess að núverandi ríkisstjórn kláraði sölu á rúmlega 45% eignarhlut sínum í Íslandsbanka í maí.

Eins og fyrr sagði hafði ríkið áður selt meirihluta í bankanum, meðal annars með sölu á 22,5% eignarhlut árið 2022. Sú sala átti þó eftir að draga dilk á eftir sér með afsögn ráðherra og viðurkenndu tveir bankar sök.

 Íslandsbanki gekkst við því að hafa ekki starfað að öllu leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum vegna framkvæmdar á útiboði á 22,5% eignarhlut ríkisins í bankanum árið 2022. Féllst bankinn á að greiða 1,2 milljarða í sekt vegna málsins, en það var langhæsta sekt sem lögð hefur verið á fjármálafyrirtæki hér á landi.

Landsbankinn játaði einnig að hafa gerst brotlegur við lög er varða flokkun viðskiptavina við framkvæmd útboðsins þegar kom að flokkun viðskiptavina. Bankinn var hins vegar ekki sektaður, en Fjármálaeftirlit Seðlabankans komst að þeirri niðurstöðu að bankinn hefði brotið gegn lögum um markaði fyrir fjármálagerninga.

Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, ákvað einnig að segja af sér eftir álit umboðsmanns Alþingis í október 2023. Var niðurstaða umboðsmanns að Bjarna hefði brostið hæfi við ákvörðun sína þegar hann samþykkti tillögu Bankasýslunnar um sölu á hlut ríkisins.

mbl.is