S-Afríka birtir skjöl um morðsamsæri gegn Hammarskjold

Desmond Tutu erkibiskup, formaður Sannleiksnefndarinnar í Suður-Afríku, hefur birt skjöl þar sem hann segir að finna megi vísbendingar um að leyniþjónustur vestrænna ríkja hafi tekið þátt í samsæri um að ráða Svíann Dag Hammarskjold, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, af dögum.

Tutu sagði á blaðamannafundi í dag að í skjölunum væri fjallað um skemmdarverk á flugvél Hammarskjölds, en hún fórst 18. september 1961. Tutu sagði að Sannleiksnefndin, sem rannsakar glæpi framda meðan aðskilnaðarstefnan var í gildi í landinu, hefði ákveðið að birta skjölin þótt ekki hefði tekist að staðfesta að þau væru ósvikin eða hvort ásakanir um að leyniþjónustur Suður-Afríku og annarra vestrænna ríkja hefðu átt þátt í málinu ættu við rök að styðjast. Bréfin eru með bréfhaus Hafrannsóknarstofnunar S-Afríku, SAIMR, sem sögð er hafa verið leppur fyrir leyniþjónustu hersins á þessum tíma. Þar er vísað til bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, og bresku leyniþjónustunnar MI5. Eitt skjalið segir frá fundi fulltrúa MI5 og SAIMR þar sem komið hafi fram sú skoðun að fjarlægja eigi Hammarskjold. „Ég vil að það verði gert með skilvirkari hætti en þegar Patrice var fjarlægður," segir í skjalinu.En CIA birti á síðasta ári skjöl um morð sem framin voru á tímum kalda stríðsins og þar kom fram viðurkenning á að CIA hefði fyrirskipað að myrða sjálfstæðishetju Kongó, Patrice Lumumba. Í öðru bréfi er lýst fyrirskipunum um að koma sprengiefni fyrir í flugvél Hammarskjolds þannig að vélin myndi springa í loft upp þegar hjólin væru tekin upp. Hammarskjold og 15 aðrir fórust þegar flugvél þeirra hrapaði þar sem þá var Norður-Ródesía, nú Zambía, en framkvæmastjórinn var á leið til fundar við Moise Tshombe leiðtoga uppreisnarmanna í Kongó til að semja um vopnahlé í borgarastríði sem þá geisaði í landinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert