Kohl heiðraður á leiðtogafundi ESB

Helmut Kohl, fyrrverandi kanzlari Þýzkalands, kom í síðasta sinn fram á svið alþjóðastjórnmála í gær til að taka við útnefningu til heiðursborgara þeirrar Evrópu sem hann átti sinn þátt í að móta.
 Kohl sló á létta strengi er hann tók við þessari æðstu heiðursnafnbót Evrópusambandsins (ESB) úr hendi Viktors Klima, kanzlara Austurríkis, í Hofburg-höllinni í Vín, en í austurrísku höfuðborginni fer nú fram leiðtogafundur ESB með þátttöku ríkisstjórnar- og þjóðarleiðtoga, utanríkis- og fjármálaráðherra ESB-landanna 15, auk forseta framkvæmdastjórnar ESB og Evrópuþingsins.
 "Ég er ekki minnismerki," sagði Kohl. "Þið vitið hvað kemur fyrir minnismerki. Fuglar koma og setjast á þau. En flestir þeirra láta sér ekki nægja að sitja bara, þeir gera svolítið," sagði hann og uppskar hlátur viðstaddra.
 Hér óskar Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, Kohl til hamingju, á meðan aðrir ráðamenn ESB klappa honum lof í lófa. Frá vinstri: Lamberto Dini, utanríkisráðherra Ítalíu, Bertie Aherns, forsætisráðherra Írlands, Massimo D´Alema, forsætisráðherra Ítalíu, Tarja Halonen, utanríkisráðherra Finnlands, og við hlið Kohls stendur Viktor Klima, kanzlari Austurríkis og gestgjafi leiðtogafundarins.
 Aðeins einum manni hefur áður hlotnazt sami heiður og Kohl var sýndur í gær. Frakkinn Jean Monnet, sem lagði manna mest af mörkum til stofnunar Evrópubandalagsins fyrir rúmum 40 árum, hlaut hann fyrstur.
Eining um skattasamræmingu
 Á leiðtogafundinum bar það helzt til tíðinda í gær, að samþykkt var samhljóða að stefna að aukinni samræmingu skatta í sambandinu. Á þessum fyrsta degi hins tveggja daga langa fundar urðu leiðtogarnir sammála um að fela fjármálaráðherrum ríkjanna 15 að vinna með hraði að tillögum um hvernig berjast megi gegn "ósanngjarnri skattasamkeppni", sem lagðar skyldu fyrir næsta leiðtogafund, sem fram fer í Köln í júní.
 Annars snerust viðræður leiðtoganna að miklu leyti um hvernig ESB-ríkin geta gert átak í að fjölga störfum til að fækka í hópi hinna 17 milljóna sem eru án atvinnu í sambandinu, en einnig var deilt um fjármál sambandsins. Samþykkt var að ljúka samningum um umbótaáætlunina "dagskrá 2000", sem snýr að landbúnaðar- og sjóðakerfi ESB, í marz nk. en ekkert breyttist í deilunni um það hve mikið hvert aðildarríki skuli í framtíðinni greiða í sameiginlega sjóði ESB. Þjóðverjar, sem taka við formennskunni í ráðherraráðinu um áramótin, krefjast lækkunar á greiðslum sínum í þá.

mbl.is