Rannsaka fjöldagröf með um 100 fórnarlömbum fíkniefnahrings í Mexíkó

Bandarískir og mexíkóskir lögreglumenn hófu í dag rannsókn á tveimur búgörðum innan landamæra Mexíkó þar sem talið er að fundist hafi lík allt að 100 manna sem saknað hefur verið. Hermt er að hinir myrtu séu fórnarlömb Juarez-fíkniefnahringsins, glæpasamtaka sem urðu ein þau voldugustu á sínu sviði í Mexíkó fyrir 4-5 árum.

Hermenn, margir með grímu fyrir andliti, umkringdu í gærkvöldi búgarðana tvo sem rammgerð girðing umleikur og eru á afskekktu svæði um 16 km suður af Ciudad Juarez, sem er skammt handan landamæranna frá El Paso í Texas-ríki. Engir þeirra sem að rannsókn málsins á búgörðunum vinna hafa viljað tjá sig og fyrirhuguðum fréttamannafundi hefur verið frestað ótímabundið. Stjórnvöld í Mexíkó óskuðu eftir því að bandaríska alríkislögreglan (FBI) aðstoðaði við rannsóknina og sendi meðal annars sérfræðinga í meinafræði og réttarkrufningum til að hjálpa til við að bera kennsl á líkin. Ríkissaksóknarinn í Mexíkó hefur staðfest að hafin sé rannsókn í samstarfi við FBI á hvarfi og morðum fjölda fólks beggja vegna landamæra Bandaríkjanna og Mexíkó á undanförnum árum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert