Þúsaldarhvelfingin í vanda

Þúsaldarhvelfingin umdeilda er mikið mannvirki.

Þúsaldarhvelfingin umdeilda er mikið mannvirki.
mbl.is
Breskir þingmenn hafa í dag krafist rannsóknar á rekstri Þúsaldarhvelfingarinnar svonefndu sem reist var í Greenwich í suðuausturhluta Lundúna en kostnaðurinn við þetta mannvirki, sem breskir skattgreiðendur bera að mestu, nemur nú um 538 milljónum punda, eða um 62 milljörðum króna. Hvelfingin var opnuð um áramótin en hefur fengið frekar litla athygli í breskum fjölmiðlum og jafnframt litla aðsókn. Stjórnarformaður fyrirtækisins sem rekur Þúsaldarhvelfinguna sagði af sér í gær, að kröfu Þúsaldarnefndarinnar, opinberrar nefndar sem hefur yfirumsjón með verkefninu. Jafnhliða samþykkti nefndin að veita fyrirtækinu 29 milljónir punda til viðbótar. Nefndin setti einnig ýmis skilyrði, svo sem um aukið eftirlit með fjármálum fyrirtækisins. Yfir 50 breskir þingmenn hafa skrifað undir tillögu þar sem þeir lýsa yfir miklum áhyggjum vegna ákvörðunar nefndarinnar um að veita frekara fé til Þúsaldarhvelfingarinnar. Þeir segja að þessu fé hefði verið betur varið til menntamála, heilbrigðismála eða umhverfismála.Bresk stjórnvöld áætluðu að um 12 milljónir gesta myndu koma í Þúsaldarhvelfinguna í ár og fullyrtu að fólk myndi gera sér ferð víðs vegar að úr heiminum til að skoða það sem hún hefði upp á að bjóða. Þarna eru m.a. ýmsar sýningar, tækninýjungar og annað sem ætlað er að sameina skemmtun og fróðleik. Áhugi almennings hefur hins vegar verið mun minni en áætlað var og er nú aðeins gert ráð fyrir um 7 milljónum gesta í hvelfinguna.
mbl.is
STOFUSKÁPUR
TIL SÖLU NÝLEGUR HVÍTLAKKAÐUR STOFUSKÁPUR MEÐ GLERHILLUM. STÆRÐ: B=78, D=41 H=9...
fágætar bækur til sölu
til lsölu nokkrar fágætar bækur Sneglu-Halli eftir Símon Dalaskáld Guðmundar...
Vantar gæslu fyrir kisu/kisann?
www.kattholt.is rekur hótel fyrir kisu/kisann. kattholt@kattholt.is // s;567 ...