Fundur Vajpayee og Musharraf framlengdur

Pervez Musharraf, forseti Pakistans, og eiginkona hans Sehba, stilla sér …
Pervez Musharraf, forseti Pakistans, og eiginkona hans Sehba, stilla sér upp fyrir ljósmyndara fyrir utan Taj Mahal, í borginni Agra. AP

Fundur milli leiðtoga Pakistans og Indlands hefur verið framlengdur til morguns. Atal Behari Vajpayee, forsætisráðherra Indlands, og Pervez Musharraf, forseti Pakistans, áttu tvívegis viðræður í dag og stóðu þær samtals í tvær og hálfa klukkustund. Í sameiginlegri yfirlýsingu þeirra segir að andrúmsloftið á fundinum hafi verið mjög alúðlegt, hreinskipt og uppbyggjandi.

Ekki var sagt hvað leiðtogunum hefði farið í milli. Þegar Musharraf var staddur í skoðunarferð í nágrenni Taj Mahal að fyrri umferð lokinni í dag sagði hann blaðamönnum að hún hafi verið árangursrík. Í yfirlýsingunni segir ennfremur að fundurinn hafi verið framlengdur til morguns og að Vajpayee hafi þegið boð Musharaffs um heimsókn til Pakistans. Lögregla á Indlandi greindi frá því í dag að 19 íslamskir uppreisnarmenn hafi verið felldir í þorpi í Kasmír þegar þeir fóru yfir landamærin til Indlands.
mbl.is