Jimmy Carter hlaut friðarverðlaun Nóbels

Jimmy Carter ásamt Fidel Kastró forseta Kúbu.
Jimmy Carter ásamt Fidel Kastró forseta Kúbu. Reuters

Jimmy Carter fyrrverandi Bandaríkjaforseti hlaut í dag friðarverðlaun Nóbels fyrir áratuga óeigingjarnt starf við að leita lausna á aðþjóðlegum deilum, að vinna að framgangi lýðræðis og mannréttinda og efnahagslegra og félagslegra framfara. Verðlaunin nema 10 milljónum sænskra króna, um 95 milljónum íslenskra króna. Verðlaunaafhendingin verður í Ráðhúsi Óslóborgar 10. desember.

Norska Nóbelsnefndin vísaði m.a. til framlags Carters til svonefnds Camp David samkomulags milli Ísraelsmanna og Egypta sem gert var í forsetatíð Carters og framlag hans til lausnar deilna víða um heim og baráttu fyrir mannréttindum eftir að hann lét af forsetaembætti.

„Í kringumstæðum, sem nú einkennast af hótunum um valdbeitingu, hefur Carter staðið fast á þeim grundvallarreglum að reyna verði að leysa deilur með viðræðum og alþjóðlegri samvinnu grundvallaðri á alþjóðalögum, viðurkenningu á mannréttindum og efnahagslegri þróun," segir m.a. í umsögn Nóbelsnefndarinnar.

Norska Stórþingið veitir friðarverðlaun Nóbels en Svíar veita önnur Nóbelsverðlaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert