Morðingi Fortuyns dæmdur í 18 ára fangelsi

Volkert van der Graaf.
Volkert van der Graaf. AP

Hollenskur dómstóll dæmdi í dag Volkert van der Graaf í 18 ára fangelsi fyrir að myrða stjórnmálamanninn Pim Fortuyn á síðasta ári. Saksóknarar höfðu krafist þess að van der Graaf, skaut Fortuyn þegar hann kom úr útvarpsviðtali skömmu fyrir þingkosningar sem haldnar voru í landinu í fyrra, hlyti lífstíðarfangelsi.

Fortuyn þótti hafa nokkuð öfgafullar skoðanir á innflytjendamálum. Morðið á honum var fyrsta pólitíska morðið í Hollandi í áratugi og olli miklu uppnámi í landinu.

Stuðningsmenn Fortuyn í dómsalnum gengu út í mótmælaskyni þegar dómurinn var kveðinn upp. Dómarinn sagði að það hefði verið virt til refsiþyngingar að morðið var að yfirlögðu ráði, hefði verið framið í návígi og skaðað hollenskt lýðræði. Á móti kæmi að litlar líkur væri á að sakborningurinn fremdi slíkan glæp á ný og hann ætti rétt á því að hljóta endurhæfingu.

Volkert van der Graaf, sem er 33 ára gamall, sagðist hafa skotið Fortuyn til að koma í veg fyrir að hann næði völdum og gæti framfylgt stefnumálum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert