Deila prests og dönsku kirkjunnar í hörðum hnút

Torkild Grosbøll.
Torkild Grosbøll. AP

Deila dansks sóknarprests og dönsku þjóðkirkjunar er enn í hörðum hnút en prestinum var vikið tímabundið frá störfum eftir að hafa sagt í viðtali við danskt tímarit að hann tryði ekki á Guð.

Lise-Lotte Rebel, biskup á Helsingjaeyri, átti tveggja tíma langan fund með séra Torkild Grosbøll í dag en hann neitaði að taka ummæli sín aftur. Í viðtalinu sagðist hann ekki trúa á Guð, upprisuna og eilíft líf en sagði hins vegar eftir fundinn með Rebel að ummæli sín hefðu verið mistúlkuð.

„Yfirlýsing mín var sett fram með einfölduðum og skilyrðum hætti," sagði hann við blaðamenn. Sagðist hann trúa á eitthvað guðdómlegt afl, „en ekki Guð sem skapaði manninn og maurinn."

Rebel sagði AFP hins vegar að ummæli Grosbølls væru óafsakanleg og þau sáðu fræjum efa og óvissu um það sem kirkjan táknaði.

„Að auki er presturinn starfsmaður ríkisins og hefur skildum að gegna og getur ekki sagt hvað sem er opinberlega með tilvísun til þess að danska stjórnarskráin tryggi honum málfrelsi," sagði hún.

Hundruð manna komu saman í bænum Taarbæk til stuðings prestinum og mótmæltu brottvikningu hans. „Sé ekki rúm innan þjóðkirkjunnar fyrir prestinn okkar, þá er ekki heldur rúm fyrir mörg okkar sem hér erum," sagði Lars Heilesen, formaður sóknarnefndar bæjarins á fundinum.

„Kirkjan verður að þola skoðanir sem ekki endilega endurspegla viðteknar skoðanir," sagði Heilesen við AFP. „Það verður að gefa mönnum svigrúm til að orða efasemdir sínar án þess að fyrir það sér refsað."

mbl.is