Sprengja sprakk einnig í hóteli á Benidorm

Frá ströndinni í Benidorm.
Frá ströndinni í Benidorm.

Tvær sprengjur sprungu í hótelum á sumarleyfisbæjum á Spáni í morgun, önnur í Benidorm og hin í Alicante. Níu manns særðust lítillega í sprengingunum, þar af fjórir lögreglumenn í Benidorm og einn ferðamaður og fjórir íbúar í Alicante, en hótelin voru rýmd áður en sprengjurnar sprungu. Talið er að ETA, samtök herskárra aðskilnaðarsinnaðra Baska, beri ábyrgð á sprengingunum sem urðu annarsvegar í Hotel Nadal í Benidorm og hins vegar í Residencia Bahia de Alacant í Alicante.

Mikið er af Íslendingum í Benidorm en ekki er vitað til að íslenskir ferðamenn búi á Hotel Nadal, sem er norðarlega á Levante-ströndinni og íslenskar ferðaskrifstofur eru ekki í viðskiptum við það. Úrval-Útsýn segir að allir farþegar sínir séu í góðu yfirlæti á Benidorm en Hotel Nadal er í talsverðri fjarlægð frá hótelum skrifstofunnar á Levante-strönd. Þær upplýsingar fengust hjá Heimsferðum, að fararstjórar þeirra hefðu ekki orðið sprenginganna varir. Hjá Sumarferðum fengust þau svör að farþegar á vegum skrifstofunnar hefðu ekki orðið varir við sprengingarnar enda séu hótel skrifstofunnar langt frá Hotel Nadal.

Maður sem vildi ekki láta nafns síns getið hrindi til baskneska dagblaðsins Gara í morgun og sagðist vera fulltrúi ETA. Sagði hann að sprengjur myndu springa á hótelunum tveimur innan skamms. ETA hefur oft áður staðið fyrir sprengju- og skotárásum á spænskum sumarleyfisstöðum yfir sumartímann til að reyna að skaða ferðaþjónustu sem er einn helsti atvinnuvegur Spánverja.

Sprengingin í Alicante varð skammt frá skrifstofum Þjóðarflokks José María Aznar, forsætisráðherra Spánar í borginni. Sprengingin varð í herbergi á fyrstu hæð hótelsins og er talið að gestur á hótelinu hafi skilið sprengjuna eftir í herbergi sínu þegar hann fór. Sprengingin í Benidorm varð einnig í herbergi á fyrstu hæð hótelsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert