Fiskneysla getur komið í veg fyrir ofbeldi

Nýjar rannsóknir benda til þess að frumorsök glæpa sé fremur af líffræðilegum toga en félagslegum. Og með því að ala börn sem mest á fiski megi draga úr ofbeldishneigð og andfélagslegu hátterni þegar fram á táningsaldurinn kemur.

Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrra rannsókna við Kaliforníuháskóla sem greint verður frá í vikunni á ráðstefnu í Sheffield í Englandi er hlotið hefur yfirskriftina: „Geðsjúkdómafræðin og vandi hins illa“.

Fram kemur á fréttavef breska blaðsins The Guardian á Netinu, að Adrian Raine, sálfræðingur við Kaliforníuháskóla, muni þar greina frá niðurstöðum rannsókna sem sýni í vaxandi mæli fram á að ofbeldismenn hafi ágalla í heilastöðvum sem sem tengjast ákvarðanatöku og sjálfstjórn og þessi ágalli kunni að gera þá líklegri til árása.

Í nýjustu rannsóknum Raine var athugað hvort koma mætti í veg fyrir heilagalla með inngripi á fyrstu árum bernskunnar meðan heilavöðvinn er enn að þróast og þroskast. Í tilraunaskyni var hópur þriggja ára barna á Máritíus settur á fæðuríkan matarkúr, látinn stunda æfingar og örvaður skilvitlega m.a. með upplestri og samræðum.

Við 11 ára aldur sýndu börnin merki um mjög aukna heilastarfsemi, samkvæmt heilaritum, og er þau náðu 23 ára aldri voru þau 64% ólíklegri til að hafa komið við sögu ofbeldisverka en samanburðarhópur jafnaldra sem ekki fékk sama mataræði eða sömu þjálfun.

„Þetta er ekki lykillinn að lausn glæpa og ofbeldisverka en einn liðurinn í því," segir Raine. „Kjarni málsins er að fræjum glæpa er sáð snemma á lífsleiðinni," bætir hann við. Greint verður frá niðurstöðum rannsókna hans í tímariti bandaríska geðlækningafélagsins, American Journal of Psychiatry, sem út kemur í mánuðinum.

mbl.is