Þjár konur til viðbótar með ásakakanir á hendur Schwarzenegger

Arnold Schwarzenegger nýtur mests stuðnings þeirra frambjóðenda sem keppa um …
Arnold Schwarzenegger nýtur mests stuðnings þeirra frambjóðenda sem keppa um embætti ríkisstjóra Kalíforníu. AP

Þrjár konur til viðbótar hafa gefið sig fram og segja að Arnold Schwarzenegger, leikari og frambjóðandi til embættis ríkisstjóra í Kalíforníu, hafi beitt þær kynferðislegri áreitni. Hafa þá samtals ellefu konur komið fram með ásakanir af þessu tagi á síðustu dögum en fjórir dagar eru þar til kosningarnar fara fram í Kalíforníu.

Kona, sem starfaði sem aðstoðarleikstjóri kvikmyndarinnar Twins árið 1988, sagði við Los Angeles Times að Schwarzenegger hefði verið vanur að afklæða sig fyrir framan hana þegar hún var í hjólhýsi sínu og eitt sinn hafi hann dregið hana með sér niður á rúm.

Önnur kona, sem var staðgengill aðalleikkonunnar í sömu mynd, sagði að leikarinn hafði þrýst henni að sér og stungið tungunni upp í sig.

Þriðja konan sagði að Schwarzenegger hefði gripið í afturenda sinn og viðhaft dónalegt orðbragð þegar hún fylgdi honum inn í sjónvarpssal CNN þar sem taka átti viðtal við leikarann snemma á níunda áratugnum.

Talsmaður Schwarzeneggers neitaði fyrstu tveimur ásökunum í morgun en sagði ekkert um þá þriðju.

Los Angeles Times birti á fimmtudag frétt um að sex konur segðu að Schwarzenegger hefði áreitt þær kynferðislega. Í kjölfarið sendi leikarinn frá sér yfirlýsingu þar sem hann bað konurnar afsökunar á óviðurkvæmilegri hegðun og sagðist stundum hafa hagað sér illa á sínum yngri árum.

Maria Shriver, eiginkona Schwarzeneggers, kom manni sínum til varnar í gær og sagði að ásakanirnar snertu sig ekki vegna þess að hún þekkti eiginmann sinn. „Hann hefur beðist afsökunar og til þess þarf hugrekki."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert