Kepptu um hylli konu sem var í raun karl

Sex karlmenn ígrunda nú að höfða mál á hendur bresku sjónvarpsstöðinni Sky One eftir að hafa verið, að eigin sögn, gabbaðir til að keppa um hylli kynskiptings í veruleikasjónvarpsþætti. Í frétt BBC segir að mennirnir hafi verið gabbaðir til að kyssa, knúsa og halda í höndina á konunni Miriam sem er í raun ennþá karlmaður.

Mennirnir vilja hindra það að þátturinn verði sendur út en Sky segist hafa gert löglegan samning við mennina. Sjónvarpsþátturinn „Það er eitthvað við Miriam“ var tekinn upp í Ibiza á Spáni síðastliðið sumar og verður sýndur 16. nóvember.

Í þættinum þurftu mennirnir að velja þá konu sem þeim þótti mest aðlaðandi úr hópi kvenna og allir völdu þeir Miriam. Þeim var þó ekki sagt að Miriam væri karl sem væri að fara að gangast undir kynskiptiaðgerð.

Einn mannanna er sagður hafa brugðist svo reiður við að hann hafi kýlt framleiðanda þáttarins þegar hann komst að hinu sanna. Tekið var upp á mynd þegar mennirnir reyndu að draga Miriam á tálar, meðal annars með kossaflensi.

Áhorfendum er sagt í upphafi þáttarins að Miriam sé karlmaður sem sé að fara láta breyta sér í konu.

En keppendurnir sem eru hermaður, skíðakennari og fyrrverandi lífvörður, komast ekki að hinu sanna um draumadísina fyrr en hún velur einn úr þeirra hópi og lyftir því næst upp pilsinu.

mbl.is