Ísraelar ævareiðir yfir könnun þar sem segir að landið ógni heimsfriði

Ísraelsk yfirvöld lýstu yfir hneykslan sinni með skoðanakönnun Evrópusambandsins en niðurstöður hennar benda til þess að Evrópubúar líti á Ísrael sem meiri ógn við heimsfriðinn en nokkurt annað ríki, s.s. Íran, Írak eða Norður-Kóreu. Talsmenn ESB hafa reynt að draga úr mikilvægi könnunarinnar en Ísraelar og stuðningsmenn þeirra beindu spjótum sínum fremur að sendiboðanum en skilaboðunum, að því er segir í frétt Reuters.

Ísraelsstjórn segir að könnunin, þar sem 59% aðspurðra segja að landið sé ógn, leiði í ljós leynda stefnu ESB. „Þeir hafa sett ríki gyðinga neðar verstu úrhrökum og hryðjuverkasamtökum,“ segir í yfirlýsingu ísraelskra yfirvalda til ESB. Þá segir að málið sé ekki bara sorglegt heldur líka svívirða. Reiðin og sorgin beinist ekki einvörðungu gegn evrópskum borgurum heldur einnig að þeim sem séu ábyrgir fyrir mótun almenningsálitsins.

Þá segir í yfirlýsingunni að skoðanakönnunin endurspegli þá brengluðu mynd sem fjölmiðlar dragi upp af átökunum í Miðausturlöndum og þjóni þeim tilgangi að efla „leynda stefnu“ þeirra sem semji spurningarnar á þann hátt að þær passi pólitískum markmiðum þeirra.

Framkvæmdastjórn ESB, sem birti niðurstöður könnunarinnar í dag, reyndi að gera lítið úr þeim og sagði þær vera eina niðurstöðuna af mörgum í könnunum varðandi Írak og heimsfrið. „Það er ekki hlutverk okkar, eða stefna, að túlka hverja einustu skoðanakönnun eða að byggja stefnu okkar á henni,“ sagði Gerassimos Thomas, talsmaður framkvæmdastjórnarinnar, á daglegum blaðamannafundi hennar. Þá sagði hann að könnunin hefði ekki tekið til Palestínu heldur einungis til sjálfstæðra ríkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert