Raðmorðingi og raðnauðgari handteknir í Kína

Kínverskur karlmaður hefur verið handtekinn grunaður um morð á a.m.k. 65 manneskjum en raðmorð af þessu tagi eru sjaldgæf í Kína. Þá var annar maður handtekinn og hefur sá játað að hafa nauðgað a.m.k. 37 öldruðum konum sem sumar hverjar voru á tíræðisaldri. Sagðist maðurinn hafa valið eldri konur vegna þess að „auðvelt hafi verið að ráða við þær.“

Maðurinn var handtekinn 25. október vegna þjófnaðar á reiðhjólum. Hann þótti svo óttasleginn við yfirheyrslur að lögreglumönnum þótti ástæða til að yfirheyra hann frekar. Hann viðurkenndi að hafa stolið 40 reiðhjólum og loks játaði hann að hafa nauðgað 37 konum á aldrinum 71 árs til 93 ára frá árinu 2002.

Í frétt Xinhua-fréttastofunnar segir að maðurinn hafi valið eldri konur og konur sem ekki eru heilbrigðar andlega vegna þess að þær væru síður líklega til að berja frá sér. Þá er talið að fórnarlömbin kunni að vera miklu fleiri þar sem kínverskar konur kæra sjaldan nauðganir þar sem þær óttast álitshnekki.

Hinn meinti morðingi hefur áður hlotið dóm en var nú handtekinn 3. nóvember í Cangzhou-borg í Hebei-héraði þegar lögregla var við reglubundið eftirlit á skemmtistöðum. Flest fórnarlambanna voru bændur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert