Schwarzenegger sver embættiseið í Kalíforníu

Arnold Schwarzenegger sver embættiseiðinn í kvöld.
Arnold Schwarzenegger sver embættiseiðinn í kvöld. AP

Kvikmyndaleikarinn og vaxtarræktarmaðurinn Arnold Schwarzenegger sór embættiseið í kvöld sem ríkisstjóri í Kalíforníu frammi fyrir um 7500 gestum á þrepum þinghússins í Sacramento, ríkishöfuðborg Kalíforníu. Maria Shriver, eiginkona Schwarzeneggers, hélt á biblíunni sem ríkisstjórinn nýi lagði hönd sína á en Ronald George, yfirdómari, fór með embættiseiðinn. „Ég er auðmjúkur, ég er stoltur og ég er hrærður yfir því að vera ríkisstjóri ykkar," sagði Schwarzenegger eftir að hafa svarið embættiseiðinn.

Schwarzenegger, sem er 56 ára gamall innflytjandi frá Austurríki, fór með sigur af hólmi í ríkisstjórakosningum sem haldnar voru 7. október sl. Fyrst ákváðu kjósendur að leysa Gray Davis, ríkisstjóra, frá embætti og kusu síðan Schwarzenegger úr hópi fjölmargra frambjóðenda.

Deilur vegna kosninganna og slæm fjárhagsstaða Kalíforníuríkis, urðu til þess að Schwarzenegger ákvað að hafa athöfnina í dag eins látlausa og kostur var á. Vanessa Williams, sem lék á móti Schwarzenegger í myndinni Eraser árið 1995, söng þjóðsönginn. Talið var að um 7540 blaðamenn fylgist með ríkisstjóraskiptunum, eða álíka fjöldi og fylgist með því þegar forsetar Bandaríkjanna sverja embættiseið.

Arnold Schwarzenegger, Maria Shriver, kona hans og börn þeirra fjögurk, …
Arnold Schwarzenegger, Maria Shriver, kona hans og börn þeirra fjögurk, Katherine, Christina, Patrick og Christopher, í anddyri þinghússins í Sacramento í Kalíforníu í kvöld. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert