Afdrifarík vodkadrykkjukeppni í Rússlandi

Alexander Nakonetsjní fór með sigur af hólmi í vodkadrykkjukeppni í rússnesku borginni Volgodonsk um helgina. Hann fékk þó aldrei afhent verðlaunin, sem voru 10 vodkaflöskur, því eftir að hafa drukkið þrjá hálfslítra brúsa af óblönduðu vodka hvern á eftir öðrum, varð hann bráðkvaddur. Fjórir aðrir karlmenn liggja þungt haldnir á sjúkrahúsi í borginni. Ein kona, sem einnig var flutt á sjúkrahús, fékk að fara heim eftir að áfenginu hafði verið dælt upp úr henni.

Saksóknarar í Volgodonsk hafa nú ákært þá sem stóðu fyrir drykkjukeppninni fyrir manndráp af gáleysi og gætu þeir átt yfir höfði sér allt að 3 ára fangelsi. Um var að ræða eigendur verslunar, sem selur matvæli og drykkjarföng. Einnig verða þeir ákærðir fyrir að brjóta lög um áfengisauglýsingar.

Þátttakendur í keppninni, sem fór fram í versluninni, máttu fylla á hálfs lítra könnu eins oft og þeir vildu. Fréttir af þessu vodkamaraþoni bárust út eins og eldur í sinu og um 50 manns stóðu í biðröð utan við verslunina í þeirri von að fá ókeypis vodkaglas eða jafnvel að vinna keppnina. Með vodkanu máttu keppendur borða pylsur, svart brauð og sinnep. Sá sem drakk mest magn og stóð lengst uppi var sigurvegarinn.

Snemma varð ljóst að Nakonetsjní bar höfuð og herðar yfir aðra keppendur en nokkrum mínútum eftir að hann var lýstur sigurvegari var hann allur. Um 40 þúsund Rússar láta lífið árlega af völdum áfengiseitrunar.

mbl.is