Líbýa segist hætt gereyðingarvopnasmíði og leyfir vopnaeftirlit

George W. Bush ræðir við blaðamenn í Hvíta húsinu í …
George W. Bush ræðir við blaðamenn í Hvíta húsinu í kvöld. AP

Moammar Gaddafi, leiðtogi Líbýu, hefur staðfest að land hans hafi reynt að þróa gereyðingarvopn en ætli að hætta öllum slíkum áætlunum án tafar. Þetta upplýsti Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, í kvöld. George W. Bush, Bandaríkjaforseti, sagði í kvöld að Líbýa muni heimila vopnaeftirlitsmönnum að skoða öll vopnabúr í landinu.

Sagði Bush að þetta væri mjög þýðingarmikið skref í þá átt að koma í veg fyrir útbreiðslu gereyðingarvopna og berjst gegn hryðjuverkastarfsemi í heiminum. Sagði hann að Líbýa væri með þessu á leið inn í samfélag annarra þjóða og hann vonaðist til að aðrir þjóðarleiðtogar fylgdu fordæmi Gaddafis. Voru þessi ummæli túlkuð sem viðvörun til leiðtoga Írans og Norður-Kóreu.

Blair og Bush sögðu að Bretland og Bandaríkin hefðu átt í viðræðum við stjórnvöld í Líbýu í 9 mánuði. Blair sagði að Líbýumenn hefðu haft samband við Breta í mars, eftir að deilan um Lockerbie-sprenginguna var leyst, og vildi kanna hvort hægt væri að leysa deiluna um gereyðingarvopn með sama hætti.

„Líbýa hefur nú lýst því yfir að ríkið muni eyðileggja gereyðingarvopnaverksmiðjur sínar og takmarka drægi líbýskra eldflauga við 300 km," sagði Blair.

Hann sagði að Gaddafi hefði heitið því að þetta ferli yrði gegnsætt og leyft yrði að fylgjast með því. „Þessi ákvörðun Gaddafis höfuðsmanns er söguleg og ég fagna henni," sagði Blair.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna létti viðskiptaþvingunum af Líbýu í september eftir að ríkisstjórn landsins axlaði ábyrgð á sprengingu um borð í farþegaflugvél Pan Am yfir Lockerbie á Skotlandi og hét því að greiða fjölskyldum þeirra 270 manna sem þá létu lífið jafnvirði rúmlega 200 milljarða íslenskra króna.

Bandaríkjamenn hafa hins vegar haldið viðskiptabanni, sem þeir settu á Líbýu fyrir 17 árum. Bandarískar leyniþjónustustofnanir hafa sagt að Líbýumenn hafi byggt upp kjarnorkuiðnað og hafi án efa reynt að smíða kjarnorkuvopn. Þá hafi Líbýumenn reynt að afla sér efnavopna og vopna sem hægt væri að breyta í sýklavopn.

Moammar Gaddafi, leiðtogi Líbýu.
Moammar Gaddafi, leiðtogi Líbýu. AP
mbl.is