Búrhvelið sprakk í tætlur á Taiwan

Dautt búrhveli sprakk er ætlunin var að afhenda það rannsóknarmiðstöð við borgina Tainan á Taiwan. Spýttist blóð og flygsur úr dýrinu yfir viðstadda og vegfarendur er sprengingin varð, en hún er rakin til rotnunar í dýrinu.

Komið var með hvalinn á vörubílspalli og átti atvikið sér stað er hann var að koma upp að rannsóknarmiðstöðinni. Ætlunin var að nota leifar dýrsins í þágu fræðslu um hvali og vakti koma dýrsins mikla athygli og fjöldi manns var viðstaddur við stöðina er komið var með það.

Sjávarlíffræðingur kennir gasmyndun í iðrum hvalsins um hvernig fór. Þeyttist blóð og tæjur úr dýrinu í allar áttir og yfir tugi manna og bíla og utan á verslanir og aðrar byggingar í nágrenninu.

Um var að ræða gamlan tarf sem lauslega áætlað var um 50 tonn á þyngd og 17 metra langur. Er það stærsti hvalur sem sést hefur á eða við Taiwan. Vegna stærðar skepnunnar tók það þrjá stóra lyftara og 50 manns um 13 stundir að koma henni upp á vörubílspallinn sem flutti hana lokaspölinn í rannsóknarmiðstöðina.

mbl.is