25 ára sænsk kona lést eftir fitusogsaðgerð

25 ára gömul sænsk kona, lést á laugardag, nokkrum dögum eftir að hafa gengist undir einfalda fitusogsaðgerð í Svíþjóð, að því er segir í frétt Aftonbladet. Konan var útskrifuð af sjúkrahúsi eftir aðgerðina og kenndi sér einskis meins, þegar hún féll niður á götu í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar á laugardag og var eftir það flutt á sjúkrahús í andnauð, en lést á sunnudagsmorgun. Fyrirtækið Akademikliniken, sem sérhæfir sig í lýtaaðgerðum og gerði aðgerðina á konunni, hefur nú kallað saman neyðarteymi sem á að rannsaka málið.

„Að ung, heilbrigð kona, látist nokkrum dögum eftir einfalda fitusogsaðgerð er áfall fyrir fyrirtækið og lýtaaðgerðaiðnaðinn í heild sinni. Þetta er óbærilegur harmleikur. En við vitum ekki ennþá hvort það var aðgerðin sem leiddi til dauða konunnar,“ segir Per Hedén, aðstoðarframkvæmdastjóri Akademikliniken.

Konan sneri sér til Akademikliniken fyrir einu ári og óskaði eftir að gangast undir fitusogsaðgerð, til þess að fjarlægja fitu af lærum sínum. Hún var skorin upp á miðvikudag í síðustu viku. „Engin vandræði komu upp í aðgerðinni og sjúklingurinn var útskrifaður án þess að hafa nokkrar aukaverkanir eftir aðgerðina,“ segir Hedén.

mbl.is