Frétt um kjúklingasprengju ekki aprílgabb

Upplýsingar, sem birtar voru í dag um að Bretar hafi á sínum tíma íhugað að nota lifandi kjúklinga í kjarnorkusprengju, vöktu miklar efasemdir í Bretlandi, enda er 1. apríl í dag. Embættismenn fullyrða hins vegar að ekki sé um aprílgabb að ræða.

Upplýsingar um leynilega áætlun breska varnarmálaráðuneytisins árið 1957 eru m.a. birtar á sýningu sem tengist kalda stríðinu en þar kemur fram að vísindamenn íhuguðu hvort setja ætti lifandi kjúklinga inn í jarðsprengju með kjarnorkuhleðslu. Talið var hugsanlegt, að líkamshiti kjúklinganna kæmi í veg fyrir að búnaður sprengjunnar frysi.

Sprengjan var nefnd Blái páfuglinn, en um var að ræða tonna sprengja með plútóníumhleðslu, sem átti að koma fyrir í jörðu og sprengja með fjarstýringu.

Andy Oppenheimer, aðstoðarritstjóri hernaðartímaritsins Jane's World Armies sagðist eiga erfitt með að trúa þessu. „Ég hef það á tilfinningunni að þetta sé aprílgabb," sagði hann við AP.

Bresk blöð tóku í svipaðan streng. „Er þetta rétti dagurinn til að upplýsa um kjúklingaknúnu kjarnorkusprengjuna?" spurði blaðið The Times í fyrirsögn en setti fréttina samt á forsíðu.

„Þetta hljómar eins og aprílgabb en svo er ekki," hafði blaðið eftir Tom O'Leary, yfirmanni hjá þjóðskjalasafninu. Safnið staðfesti einnig í tölvupósti til AP fréttastofunnar að fréttin væri rétt.

Byrjað var að vinna að Bláa páfuglinum árið 1954 og var hugmyndin að nota sprengjuna til að koma í veg fyrir að óvinir gætu hersetið landsvæði vegna geislavirkni. Teikningar að sprengjunni byggðust á svonefndri Dónársprengju sem samanstóð af öflugu sprengiefni með plútóníumkjarna. Embættismenn ákváðu árið 1957 að láta smíða 10 jarðsprengjur af þessari tegund og láta breskt herlið við Rín í Þýskalandi hafa þær. En árið eftir ákvað varnarmálaráðuneytið að hætta vinnu við smíði sprengnanna þar sem ljóst þótti að mengun frá þeim yrði mun meiri en upphaflega var talið.

Til er frumgerð af sprengjunni í kjarnorkusafni í Aldermaston vestur af Lundúnum.

Vefsvæði breska þjóðskjalasafnsins

mbl.is