Ætluðu að sprengja sig í loft upp á leik Manchester United og Liverpool

Frá leik á Old Trafford. Hryðjuverkamenn ráðgerðu stórfellt hryðjuverk á …
Frá leik á Old Trafford. Hryðjuverkamenn ráðgerðu stórfellt hryðjuverk á þessum fræga leikvangi Manchester United.

Lögreglan í Manchester á Englandi kom í veg fyrir stórfellt hryðjuverk, sem talið er að stuðingsmenn Al-Qaeda-hryðjuverkasamtakanna hafi ætlað að framkvæma á knattspyrnuleik Manchester United og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni nk. laugardag, að sögn dagblaðsins The Sun í dag. Telur lögregla sig hafa vissu fyrir því að hryðjuverkamennirnir hafi ætlað að sprengja sig í loft upp innan um væntanlega 67.000 áhorfendur leiksins á leikvangi Manchester United, Old Trafford. Ráðgert hafi verið að fólkið dreifði sér á meðal áhorfenda.

Lögregla handtók tíu manns í nokkrum handtökum í norður- og miðhluta Englands í gær, mánudag. Mun vera um að ræða íraska Kúrda og fólk af norður-afrískum uppruna. Ekki hefur fengist staðfest hvort lögregla hafi komið höndum yfir eitthvert sprengiefni eða önnur vopn.

Blaðið hefur eftir lögreglu, að sakborningarnir tíu hafi þegar keypt miða á leikinn og ætlað að dreifa sér um leikvanginn til að valda sem mestu manntjóni. Hefðu áform fólksins gengið eftir hefðu áhrifin orðið gríðarleg því leiknum verður sjónvarpað víða um heim. Nokkur hundruð lögreglumenn leituðu í gær að manni, sem talinn er hafa ætlað að stýra árásinni.

Að sögn Dave Whatton, aðstoðaryfirlögregluþjóns Mannchester-lögreglunnar, tóku um 400 hundruð lögreglumenn þátt í aðgerðunum. Annar ónafngreindur lögreglumaður sagði að komið hafi verið í veg fyrir gífurlegt blóðbað. Þúsundir manna hefðu getað farist í ráðgerðu hryðjuverki á Old Trafford.

Ekki er þó víst að allir eða einhverjir hryðjuverkamannanna hefðu sloppið í gegnum öryggisgæslu við inngang leikvangsins þar sem gjarnan er þreifað á fólki í leit að bareflum, áfengi og öðrum óæskilegum hlutum í áhorfendastúkum.

mbl.is