Handtekinn fyrir að kyrkja dóttur sína eftir að henni var nauðgað

Lögregla í Tyrklandi hefur handtekið mann sem kyrkti 14 ára dóttur sína í því skyni að verja „heiður fjölskyldunnar“, en stúlkunni hafði ítrekað verið nauðgað af ókunnum manni sem nam hana á brott. Þrettán ættingjar mannsins sem fyrirskipuðu honum að myrða dóttur sína, voru einnig handteknir. Mikill óhugur er í Tyrklandi vegna málsins, en stúlkunni, Nuran Halitoglu, var rænt í mars þegar hún var á leið í kjörbúð í Avcilar, verkamannahverfi í Istanbúl.

Mannræninginn, sem var maður á þrítugsaldri, nauðgaði henni ítrekað áður en stúlkan slapp úr klóm hans, eftir að hafa verið haldið fanginni á heimili hans í fjóra daga.

Fjölskyldan, sem er frá Van í austurhluta Tyrklands, hélt fund um málið og var föðurnum og syni hans gert að myrða stúlkuna, því að mati fjölskyldunnar þurfti að afmá þennan blett á heiðri hennar.

Dagblaðið Milliyet í Tyrklandi, segir að stúlkan hafi verið kyrkt með rafmagnssnúru á heimili ættingja hennar og lík hennar grafið í skógi.

Til að villa um fyrir lögreglu tilkynnti faðirinn lögreglu að dóttir hans hefði horfið, en hann játaði síðar að hafa myrt hana. Hann sagði að hann hefði einnig myrt manninn sem nauðgaði henni, hefði hann ekki verið í haldi lögreglu.

Tugir morða af þessu tagi eru framin á ári hverju í Tyrklandi, en flest þeirra eiga sér stað í hinum íhaldssama suðausturhluta landsins. Í júlí í fyrra samþykkti tyrkneska þingið lög þar sem segir að þeir sem verða uppvísir að slíkum morðum, eigi yfir sér samskonar refsingar og aðrir morðingjar fá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert